skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

SSF mótmælir áformum um breytingar skyldutryggingu lífeyrisréttinda

SSF mótmælir áformum um breytingar skyldutryggingu lífeyrisréttinda

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hafa sent frá sér umsögn vegna áforma stjórnvalda um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997 og starfsemi lífeyrissjóða birt á samráðsgátt 11. júlí 2019.

Í samráðsgátt stjórnvalda eru upplýsingar um áform um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, með síðari breytingum. Stefnt er að því að lögfesta hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs úr 12% í a.m.k. 15,5% af heildarlaunum. Heimilt verði að skipta hinu lögbundna lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs þannig að allt að 3,5% geti farið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign.

Þessi áform um breyting á lögum um lífeyrissjóði er gerð í kjölfar kjarasamninga milli stéttarfélaga innan ASÍ og viðsemjenda þeirra. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru nú um 210.000 einstaklingar á íslenskum vinnumarkaði, en um helmingur þeirra eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ. Það eru því um 100.000 einstaklingar á vinnumarkaði sem ekki eiga aðild að kjarasamningum á vettvangi ASÍ. Nálægt 50.000 eru félagsmenn í stéttarfélögum opinberra starfsmanna en 50.000 eru einyrkjar, sjálfstæðir atvinnurekendur eða eiga aðild að stéttarfélögum utan heildarsamtaka.

Lífeyrisréttindi félagsmanna SSF fylgdu ávallt réttindum sem voru sambærileg við réttindi í B-deild LSR. Lífeyrissjóðir starfsmanna banka voru stofnaðir á 4. og 5. áratug 20. aldar. Þeir störfuðu að mestu samkvæmt sömu samþykktum um samtryggingasjóði til ársloka 1997 en þá voru gerðir samningar um skiptingu iðgjalds þannig að 60% iðgjaldsins fór til öflunar réttinda í samtryggingarsjóð og 40% fóru til öflunar réttinda í frjálsri séreign. Þessir samningar voru gerðir í samvinnu við sérfræðinga Fjármálaráðuneytis, fjármálaráðherra og tryggingastærðfræðinga. Samkvæmt útreikningum tryggingastærðfræðinga þarf 17% iðgjald af launum til að tryggja sambærileg réttindi og B-deild LSR gefur sjóðfélögum. Samið var um 17% iðgjald, þar af 10% í samtryggingu og 7% í frjálsa séreign. Samsvarandi samningur var gerður við Íslandsbanka fyrr eða árið 1994 og síðan við sparisjóði árið 1999. Samningar um iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda hafa verið hluti af kjarasamningi SSF síðastliðin 20 ár.

Aukið flækjustig
Með áformaðri breytingu á lögum nr. 129/1997 er enn verið að flækja lífeyriskerfið sem mörgum finnst nú þegar nógu flókið, sérstaklega skerðingar lífeyris frá TR vegna eftirlauna frá samtryggingardeildum lífeyrissjóða. Verði þessar áformuðu breytingar að lögum erum við komin með þrjár tegundir séreignar:

1. Frjáls séreign, sem er laus við 60 ára aldur.

2. Tilgreind séreign, sem er laus við 62 ára aldur og tekin út á 5 árum.

3. Bundin séreign, sem tekin er á 15 árum á aldursbilinu 70-84 ára. Með því að fresta töku lífeyris úr samtryggingardeild í allt að 15 ár geta sjóðfélagar a.m.k. þriggja frjálsra lífeyrissjóða lagt fyrir í bundna séreign. Þeir sem velja þessa erfanlegu leið geta því sótt óskertan ellilífeyri almannatrygginga TR þar sem séreign skerðir ekki greiðslur frá Tryggingastofnun. Sjá áhugaverða grein á vef Almenna lífeyrissjóðsins ,,Bundin séreign er tvíeggjað sverð“.

Frjáls séreign og tilgreind séreign eiga að fylgja sömu reglum varðandi innáborgun vegna húsnæðiskaupa, því er óþarfi að flækja lögin varðandi séreignarsparnað.
SSF vill taka undir eftirfarandi í umsögn Gunnars Baldvinssonar framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins en umsögn hans hefur verið birt í samráðsgáttinni:
„Í aðdraganda lífeyrissjóðalaganna árið 1997 lögðu stjórnvöld mikla áherslu á að lögin sköpuðu svigrúm til að einstaklingar hefðu val um ólík lífeyrisréttindi og gætu valið ávöxtunarleiðir fyrir séreignarsparnað. Með lögunum náðist breið sátt á milli hagsmunaaðila sem byggðist á því að skilagreina lágmarkstryggingavernd sem iðgjaldi í lífeyrissjóð er ætlað að tryggja. Með þessu fyrirkomulagi gátu lífeyrissjóðir boðið einstaklingum upp á mismunandi leiðir sem byggðu á samblandi samtryggingar og séreignar, meðal annars í þeim tilgangi að gera einstaklingum kleift að vera með hærri eftirlaun framan af eftirlaunaárunum. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð og hafa margir lífeyrisþegar nýtt sér að greiða sér hærri eftirlaun fyrstu árin eftir starfslok.“

Samkvæmt núgildandi lögum um lífeyrissjóði hafa einstaklingar val og sveigjanleika, sérstaklega er varðar frjálsa séreign og ákvarðanir um ráðstöfun hennar og úttekt. Mikilvægt er að fyrirhugaðar breytingar á lögum skaði ekki þann sveigjanleika. Frá þeim tíma er SSF samdi um breytingar á lífeyrisréttindum og greiðslu iðgjalda til öflunar lífeyrisréttinda hafa stéttarfélög á almennum vinnumarkaði sett á oddinn í sinni kjarabaráttu að bæta lífeyrisréttindi. Árið 2004 sömdu stéttarfélög innan ASÍ um hækkun iðgjalda í samtryggingarsjóði úr 10% í 12%. Þessi hækkun var lögfest árið 2006. Með kjarasamningum 2015 var síðan samið innan ASÍ um hækkun úr 12% í 15,5%, þar sem 3,5% má verja í ,,tilgreinda séreign“.

Allir settir undir sama hatt
Það stríðir gegn frjálsum samningsrétti á vinnumarkaði að breyta lögum í þá veru að þau þvingi alla launamenn undir kjarasamninga sem ASÍ-félög gera við sína viðsemjendur. SSF leggst því alfarið gegn áformum þessum miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar. SSF leggur til að farin verði sama leið og með lagabreytingu nr. 167/2006 þannig að 12% iðgjald verði hækkað í 15,5%. Öðrum greinum í lögum nr. 129/1997 verði breytt til samræmis eins og gert var árið 2006. Lögin tryggi þannig lágmarks iðgjald í lífeyrissjóð en veiti áfram sveigjanleika varðandi skiptingu iðgjaldsins en sú leið hefur reynst vel fram að þessu.
Þar sem um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir félagsmenn SSF óska samtökin eftir beinni aðkomu að máli þessu eftir því sem við verður komið, t.d. með skipan fulltrúa í undirbúningsnefnd.

Nálgast má umsögn SSF í heild sinni auk annara á samráðsgátt stjórnvalda, smelltu hér.

Search