skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kosning trúnaðarmanna

Kosning trúnaðarmanna SSF

Eftirfarandi er til leiðbeiningar fyrir trúnaðarmenn um framkvæmd kosninga.

Viku til tíu dögum fyrir kjördag þarf að setja upp auglýsingu þar sem lýst er eftir framboðum.

Auglýsing-2024

Kjörseðill-2024

Trúnaðarmannakosning-skilagrein2024  

Strax að loknum kosningum ber að senda skilagrein á excel formi til SSF.  Nauðsynlegt er að fylla í alla reiti. Einnig á að skila skilagrein þegar trúnaðarmaður er endurkjörinn!


Um framkvæmd kosninga
Mikilvægt er að trúnaðarmenn séu kjörnir á lýðræðislegan hátt. Þannig er öllum gefinn kostur á að bjóða sig fram. Trúnaðarmaður skal kosinn til tveggja ára.

Hverjir eru kjörgengir?
Allir félagsmenn SSF geta boðið sig fram. Það er ekkert sem mælir gegn því að starfsmenn í auglýstum stöðum, aðrir en æðstu yfirmenn á vinnustað, séu trúnaðarmenn, ef þeir njóta trausts starfsfélaga sinna. Æskilegra er að sá sem valinn er til trúnaðarmannsstarfsins hafi starfað a.m.k. eitt ár á vinnustaðnum og þekki starfsreglur fyrirtækisins, en ekki sá sem er nýr í starfi.

Hverjir kjósa?
Félagsmenn SSF kjósa sér trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem vinna fimm eða fleiri félagsmenn. Þar sem vinna færri en fimm er trúnaðarmannaráði heimilt að skipa umboðsmann. Skyldur hans eru hliðstæðar skyldum trúnaðarmanns. Þetta þýðir að allir félagsmenn SSF eiga að hafa aðgang að trúnaðarmanni.

Hvernig er kosning skipulögð?
Ágætt er að tveir félagsmenn stjórni kosningu, t.d. starfandi trúnaðarmaður og annar fulltrúi starfsmanna og beri þeir alla ábyrgð á að hún fari rétt og löglega fram. SSF hvetur til þess að kosning sé höfð skrifleg og að þar til skipaðir félagsmenn telji atkvæði. Á stærri vinnustöðum er ráðlegt að skipa þriggja manna kjörnefnd til þess að sjá um kosningu í samráði við trúnaðarmann. Þeir sem stjórna kosningu geta gert annað tveggja: Hvatt starfsmenn til þess að stinga upp á frambjóðendum, sem þurfa að vera samþykkir því að taka starfið að sér, eða lagt til að allir á vinnustaðnum séu í kjöri. Verði fyrrtalda aðferðin valin, þá skal listi með frambjóðendum fylgja hverjum kjörseðli og aðeins kosið um þá sem skráðir eru á þann lista. Hlýtur sá kosningu sem fær flest atkvæði. Sé einungis stungið upp á einum er sá sjálfkjörinn.

Ákveði starfsmenn að allir séu í kjöri skulu kjósendur rita eitt nafn á atkvæðaseðil. Fái enginn hreinan meirihluta fer fram kosning milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og telst sá réttkjörinn trúnaðarmaður sem fleiri atkvæði fær þá. Ef atkvæði falla jafnt á þá sem flest atkvæði hlutu, skal kosið aftur á milli þeirra.

Eftir kosningar
Strax að lokinni kosningu skal senda tilkynningu til SSF og starfsmannafélagsins um val trúnaðarmanns.  Sjálfsagt er og góð vinnuregla að láta yfirmenn vita af úrslitum kosninganna svo ekki komi til árekstra þegar trúnaðarmaður þarf að fara á fundi eða sækja námskeið, sem snerta störf hans sem slíks. Tilvalið er einnig að nýkjörinn trúnaðarmaður (hvort sem hann er endurkjörinn eða nýr) fari yfir hlutverk sitt með yfirmanni þannig að báðir rifji upp hver eru viðfangsefni trúnaðarmanns (sjá samning um trúnaðarmenn hér til vinstri á síðunni og í fylgiskjölum með Kjarasamningi SSF)

Search