skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Erfið staða í samningamálum

Erfið staða í samningamálum

Samninganefnd SSF hefur nú átt þrjá samningafundi með gagnaðilum sem ekki hafa skilað nægum árangri að okkar mati. Samninganefndin horfir til þess að kostnaðarmat á öðrum samningum sem gerðir hafa verið sé í kringum 17%. Það sem okkur stendur til boða eru launahækkanir upp á kr. 23.750 eða 3,25% launahækkun nú og svo 3,5% launahækkun næstu 3 ár. Kostnaðurinn við þá breytingu er um 14,5% og við vorum að vona að við gætum fyllt upp í afganginn af svigrúminu í átt að 17% í sátt og samlyndi. Svo er greinilega ekki, SA stendur fast á launastefnu sinni sem felur í sér að félagsfólk í SSF fái hlutfallslega minna en aðrir í þriðja skiptið í röð.

Við höfum lagt mikla áherslu á vinnutímastyttingu upp í 13 mínútur á dag eins og t.d. opinberir starfsmenn og rafiðnaðarmenn hafa fengið. Það væri stytting um 20  mínútur á viku, en höfum fengið það svar að sú breyting komi ekki til greina. Aðrir hópar hafa fengið lengingu á orlofi og hraðari ávinnslu og við getum örugglega landað einhverju þar. Við viljum hækka framlag atvinnurekenda í Menntunarsjóð úr 0,21% af launum upp í 0,3% og því hefur ekki verið hafnað. Frí á gamlársdag kemur ekki til greina. Við höfum lagt fram ýmsar fleiri kröfur sem ekki hefur verið farið mikið yfir, og þar að auki höfum við mikinn áhuga á að skoða pakkann okkar um líf- og sjúkdómatryggingar.

Það má hins vegar ekki gleyma því að við höfum náð þeim árangri að ekki er lengur um hreinar krónutöluhækkanir að ræða og ekkert þak á launahækkunum eins og síðast. SSF kom að því fyrr í vetur að tryggja þá breytingu.

Staðan er hins vegar sú að samninganefnd SSF telur fullreynt með að reyna að ná árangri í álíka viðræðum og við höfum átt og við stefnum því að því að vísa málinu til Sáttasemjara sem þá yfirtekur þá skyldu að reyna að koma á samningi.

Þessi staða hefur valdið okkur miklum vonbrigðum. Kröfur okkar rúmast vel innan þess ramma sem aðrir hafa samið um, en það er ljóst að SA ræður ferðinni og þar er talið eðlilegt að félagsfólk SSF fái hlutfallslega minna en aðrir hópar í þriðja skiptið í röð.

Search