Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Úthlutunarreglur

Úthlutunarreglur Menntunarsjóðs SSF

1.     Verkefni sjóðsins

Markmið Menntunarsjóðs SSF er að efla félagsmenn í starfi og gera þá að verðmætari starfsmönnum. Sjóðnum er ætlað að veita styrki vegna kostnaðar við menntun, símenntun og endurmenntun. Einnig við námskeið í námstækni, og námskeið sem nýtist til félagsstarfa að mati stjórnar. Hægt er að sækja um styrki vegna náms eða hluta náms sem félagsmenn hafa lokið samhliða starfi undanfarna 12 mánuði.

2.     Réttur til styrkja

Rétt til að sækja um styrki til sjóðsins eiga fullgildir félagsmenn SSF.  Fullgildir félagsmenn SSF eru allir aðrir en þeir sem ráðnir eru til sumarafleysinga eða annarra afleysingastarfa, sem ætlað er að standi skemur en 4 mánuði.  Sjá einnig sérreglur í lið 7.

3.     Umsóknarfrestur

Sumar- og haustmisseri.

Umsóknir um styrki skulu hafa borist fyrir 15. janúar vegna náms sem lokið er á sumar- og haustmisseri. Greitt er tveimur vikum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.

Vormisseri.

Umsóknir um styrki skulu hafa borist fyrir 15. júní vegna náms sem lokið er á vormisseri. Greitt er tveimur vikum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.

4.     Fullgild umsókn

Umsókn í Menntunarsjóð SSF samanstendur af:

a)     skilmerkilega útfylltu umsóknareyðublaði eins og það er hverju sinni á Mínum síðum SSF og sem skilað er rafrænt innan tilskilins frests.

b)    frumriti greiðslukvittunar vegna námsgjalda, sent rafrænt með umsókn.

c)     staðfestingu á námslokum eða námsframvindu vegna náms sem lokið er á hverri önn, sent rafrænt með umsókn.

** Í þeim tilfellum sem fylgigögn (s.s. námsvottorð/einkunnir) eru ekki tilbúin við sendingu umsóknar skulu þau hafa borist skrifstofu SSF innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, ella fellur úthlutun niður.

5.     Styrkhæft nám og greiðslur

a)     Nám sem stundað er samhliða starfi og veitir fullgildar námseiningar á framhaldsskóla- eða háskólastigi. Hámarksfjárhæð hvers styrks á misseri er helmingur skólagjalda, allt að  kr. 150.000,-

b)    Tungumálanám sem ekki er einingametið samkvæmt lið a) getur mest fengið styrk sem nemur helmingi skólagjalda en þó eigi hærri upphæð en sem nemur kr. 30.000,-

c)     Námskeið í námstækni, framkomu, ræðumennsku og sambærileg námskeið sem nýtast til félagsstarfa að mati stjórnar. Hámarksfjárhæð hvers styrks á misseri er helmingur námskeiðsgjalda, allt að kr. 150.000,-

d)    Endurmenntunarnámskeið sem ekki falla undir liði a-c) en tengjast beint starfi viðkomandi félagsmanns. Rökstuðningur þess efnis þarf að fylgja umsókn. Hámarksfjárhæð hvers styrks á misseri er helmingur námskeiðsgjalda, allt að  kr. 150.000,-

6.     Óstyrkhæfur kostnaður

a)     Einungis eru veittir styrkir vegna námsgjalda en ekki vegna annars kostnaðar sem til fellur við námið s.s. bókakostnaðar eða ferðakostnaðar.

b)    Tómstundanám og tómstundanámskeið hvers konar er ekki styrkhæft.

c)     Stjórn sjóðsins er heimilt að hafna umsókn um styrk sé tilgangur hennar andstæður markmiðum eða tilgangi sjóðsins.

d)    Styrkir eru aldrei greiddir vegna reikninga sem eru eldri en 12 mánaða. Sama á við um nám og námskeið sem lokið hefur verið fyrir meira en 12 mánuðum.

7.     Sérreglur

a)     Sumarstarfsmenn og aðrir sem ekki falla undir lið 2 (Gildir frá 1. maí 2015)

Hafi félagsmaður greitt félagsgjald samfellt í 2 mánuði á hann rétt á styrk allt að helmingi af námsgjöldum, sjá nánar lið 5 um styrkhæft nám og greiðslur, að hámarki kr. 25.000,- á hverju almanaksári.

b)     Félagsmenn sem taka sér launalaust leyfi

Félagsmenn sem taka sér launalaust leyfi frá störfum en snúa til baka til starfa að loknu námi í allt að 12 mánuði,  hafa eftir tveggja mánaða starf og fastráðningu að loknu námi sama aðgang að styrkjum úr sjóðnum og þeir félagsmenn sem stunda nám samhliða starfi enda hafi þeir amk. þriggja ára samfellda starfsreynslu skv kjarasamningi SSF við upphaf náms, sýni gilda námsframvindu á tímabilinu og sæki um styrk þegar þeir eru fastráðnir til starfa aftur hjá fyrirtæki sem er aðili að kjarasamningi SSF. Ákvæði þetta gildir einu sinni fyrir hvern einstakling.

c)     Atvinnulausir félagsmenn

Atvinnulausir félagsmenn SSF geta sótt um styrki vegna náms sem þeir stunda í allt að 2 ár eftir starfslok enda hafi þeir ekki verið í launuðu starfi á tímabilinu. Umsókn skal fylgja afrit af uppsagnarbréfi og afrit úr staðgreiðsluskrá RSK fyrir tímabilið frá starfslokum.

d)     Félagsmenn sem láta af störfum eiga fullan rétt í sjóðinn í næstu úthlutun eftir síðustu launagreiðslu.

e)    Ef skerða þarf styrki sjóðsins vegna fjárhagsstöðu þá hefur stjórn heimild til að lækka hámarksfjárhæð.

 

Samþykkt á fundi stjórnar Menntunarsjóðs SSF  þann 1. september 2015 og gildir frá 1. september 2015.

Stjórn Menntunarsjóðs SSF

Smelltu hér til að prenta úthlutunarreglur Menntunarsjóðs

Search