skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Samþykktir

Samþykktir SSF

I. Nafn og hlutverk
1. gr. Nafn samtakanna er: SSF, samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Heimili þess er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur SSF er:
a) Að gæta hagsmuna félagsmanna í hvívetna.
b) Að hafa forystu í starfs- og kjaramálum félagsmanna og vinna að því að bæta og samræma kjör þeirra í samvinnu við aðildarfélögin.
c) Að fara með fyrirsvar félagsmanna um kjarasamninga og aðrar ákvarðanir fyrir þeirra hönd skv. lögum, reglugerðum og öðrum fyrirmælum.
d) Að vinna að því að auka alhliða menntun, þekkingu og starfshæfni félagsmanna í kjara- og félagsmálum og starfstengdum efnum með blaðaútgáfu, fræðsluerindum, námskeiðum, eða á hvern þann hátt, sem heppilegur er talinn á hverjum tíma.
e) Að hafa samstarf við önnur launþegasamtök og koma fram fyrir hönd félagsmanna á innlendum og erlendum vettvangi.
f) Að hafa yfirumsjón með sjóðum SSF. Um sjóði þessa gilda nánari starfsreglur sem samþykktar skulu á þingi SSF.

II. Aðild
3. gr. Með fyrirtækjum er í samþykktum þessum átt við banka, sparisjóði, önnur fjármálafyrirtæki og þjónustustofnanir þessara aðila. Með félagsmönnum er í samþykktum þessum átt við alla sem rétt eiga til aðildar að SSF skv. 4. gr.

4. gr. Rétt til aðildar að SSF hafa:
a) Félög starfsmanna innan fyrirtækja. Ekki getur nema eitt félag við hvert fyrirtæki orðið aðili að SSF. Félagsaðild er bundin við 12 manna félög eða stærri. Verði félagar aðildarfélags færri en 10, breytist aðild í einstaklingsaðild. Aðild félaga starfsmanna nær til allra félagsmanna sem eru í viðkomandi félagi og eru einnig félagsmenn SSF á hverjum tíma, sbr. 5. gr.
b) Einstaklingar sem starfa við fyrirtæki, þar sem ekki eru félög og einnig þeir einstaklingar sem kjósa að vera ekki í félögum starfsmanna sbr. a) lið.
c) Starfsmenn skrifstofu SSF.

5. gr Aðalfélagar að SSF eru allir þeir sem 4. gr. nær til aðrir en þeir sem ráðnir eru til sumarafleysinga eða annarra afleysingastarfa, sem ætlað er að standi skemur en 4 mánuði. Þeir sem ekki eru aðalfélagar hafa ekki kosningarétt og kjörgengi skv. samþykktum þessum eða gildandi samkomulagi um kjarasamninga SSF.

6. gr. Félög sem eru aðilar að SSF skulu starfa samkvæmt samþykktum sem ekki brjóta í bága við grundvallaratriði í samþykktum SSF. Umsókn félags um aðild að SSF fylgi eftirtalin gögn:
a) Eintak af samþykktum félagsins.
b) Félagsmannatal þeirra, sem jafnframt eru félagsmenn SSF.
c) Nöfn stjórnarmanna og varastjórnar, svo og aðrar þær upplýsingar, sem stjórn SSF óskar eftir. Stjórn SSF tekur ákvörðun um inntöku nýrra félaga, en leita skal staðfestingar næsta þings SSF. Vilji einstaklingur, sem starfar hjá fyrirtæki þar sem ekki er félag starfsmanna, ganga í SSF, skal hann senda skriflega umsókn þar um til SSF. Umsóknina skal leggja fyrir á næsta stjórnarfundi sem haldinn er eftir að umsókn berst skrifstofu SSF. Stjórn SSF skal ákvarða svo fljótt sem verða má hvort umsókn um einstaklingsaðild er samþykkt eða henni synjað.

7. gr. Stjórnin getur vikið aðila (einstaklingi eða félagi) úr sambandinu, ef hann brýtur samþykktir þess. Til brottvikningar þarf samþykki 8 stjórnarmanna af 11. Ákvörðun um brott-vikningu skal tilkynna viðkomandi í ábyrgðarbréfi þar sem tilgreina skal ástæðu fyrir henni og hvenær hún taki gildi. Ákvörðun um brottvikningu skal leggja fyrir næsta þing SSF til fullnaðarákvörðunar. Til staðfestu brott-vikningar þarf 3/5 greiddra atkvæða. Aðili, sem vikið hefur verið úr SSF, á enga kröfu á hendur því né neitt tilkall til sjóða þess eða annarra eigna.

8. gr. Aðila, sem vikið hefur verið úr SSF, má taka inn að nýju, enda sé fullnægt þeim skilyrðum, sem stjórn þess eða þing SSF telur nauðsyn að setja hverju sinni.

9. gr. Úrsögn félags úr sambandinu er því aðeins gild, að hún hafi verið samþykkt á lögmætum aðalfundi félags og þess getið í fundarboði að tillaga um úrsögn úr sambandinu liggi fyrir. Gera skal stjórn SSF viðvart um tillöguna með minnst 4 vikna fyrirvara. Úrsögn tekur gildi að 4 mánuðum liðnum frá því að hún hlýtur samþykki og er viðkomandi félag gjaldskylt fyrir það tímabil. Félag sem segir sig úr SSF á ekki tilkall til sjóða eða annarra eigna félagsins.

III. Réttindi og skyldur aðildarfélaga.
10. gr. Félagsmenn er láta af starfi um stundarsakir vegna náms er varðar starf þeirra, glata ekki aðildarrétti sínum meðan á námi stendur.

11. gr. SSF skal halda skrá yfir alla félagsmenn sína. Á sama hátt haldi sambandið skrá yfir stjórnir aðildar-félaganna, fulltrúaráð og trúnaðarmenn á vinnustöðum.

12. gr. Aðildarfélög skulu að loknum aðalfundi sínum senda skrifstofu sambandsins:
a) Skýrslu stjórnar.
b) Ályktanir og samþykktir um kjaramál og önnur stéttar-málefni.

13. gr. Stjórnarmenn SSF og framkvæmdastjóri eiga rétt til að sækja almenna félagsfundi aðildarfélaga, þegar sérstaklega er fjallað um málefni SSF skv. auglýstri dagskrá og hafa þeir málfrelsi til jafns við aðra fundarmenn. Stjórn SSF er skylt að senda fulltrúa á fundi aðildarfélaga eða félagsstjórna ef þess er óskað.

14. gr. Ef stjórn SSF, þing eða formannafundur telja nauðsyn bera til að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu er skylt að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram. Kjörskrá við allsherjaratkvæðagreiðslu skal vera skrá yfir þá félagsmenn sem aðild eiga að SSF.

IV. Fulltrúakjör
15. gr. Aðildarfélögin hafa rétt og skyldu til að kjósa fulltrúa úr hópi félagsmanna SSF til setu á þingum SSF. Fulltrúar á þingi SSF skulu vera 65. Skulu þeir kosnir fyrir reglulegt þing, til þriggja ára, eigi síðar en í febrúarmánuði þingárs. Félögin kjósi varafulltrúa. Stjórn SSF ákveður skiptingu fulltrúa milli aðildarfélaga, þó þannig að fyrst fær hvert aðildarfélag einn fulltrúa og síðan fá aðildarfélögin fulltrúa í hlutfalli við uppgefna félagatölu SSF-félaga 1. nóvember árið fyrir þingár, að frádreginni félagatölu fyrir 1 þingfulltrúa. (Heildarfélaga-tala aðildarfélaga SSF deilt með fjölda þingsæta). Kjörbréf staðfest með undirskrift formanns og ritara aðildarfélags skal afhenda skrifstofu SSF tveimur vikum fyrir þingsetningu.

V. Þing SSF
16. gr. Þing SSF fer með æðsta vald í öllum málum og telst fullgilt sé til þess boðað í samræmi við samþykktir SSF. Stjórn, varastjórn og starfsmenn SSF eiga rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti, en atkvæðisrétt hafa ekki nema kjörnir fulltrúar. Að auki er stjórn SSF heimilt að bjóða gestum að sitja þingið sem áheyrnarfulltrúar.

17. gr. Reglulegt þing skal halda þriðja hvert ár. Stjórn SSF skal kalla saman aukaþing þegar henni þykir nauðsyn eða ef meirihluti félagsmanna í SSF krefjast þess skriflega.

18. gr. Þing SSF skal boða með tveggja mánaða fyrirvara. Aukaþing má boða með skemmst 5 daga fyrirvara.

19. gr. Skýrslu stjórnar SSF, endurskoðaða reikninga, sjálfstæðar tillögur eða mál, sem stjórnin eða aðildarfélög óska að leggja fyrir þing svo og dagskrá, skal senda þingfulltrúunum eigi síðar en 10 dögum fyrir þing. Tillögur einstakra þingfulltrúa eða breytingartillögur við fyrrgreind mál skulu lagðar þannig fyrir á þinginu, að unnt sé að fjalla um þær í þeirri þingnefnd, sem málið tilheyrir.

20. gr.
a) Stjórn SSF skal mánuði fyrir þingbyrjun skipa þrjá félagsmenn í kjörbréfanefnd til að rannsaka kjörbréf og skal hún skila áliti á fyrsta þingfundi.
b) Stjórn SSF skal skipa 5 manna kjörnefnd eigi síður en 3 mánuðum fyrir þingsetningu. Kjörnefnd skal skipuð 5 fullgildum félagsmönnum. Ákveði félagsmaður sem skipaður hefur verið í kjörnefnd að bjóða sig fram til stjórnarsetu skal skipa annan í hans stað. Kjörnefnd skal í samvinnu við starfsmenn skrifstofu SSF auglýsa eftir framboðum til stjórnar, kynna frambjóðendur og kalla eftir upplýsingum um þá sem tilnefndir eru sem fastafulltrúar í stjórn félagsins. Framboð til stjórnar skal berast kjörnefnd eigi síðar en 1 mánuði fyrir þingsetningu.

21. gr.
Dagskrá reglulegs þings skal vera m.a.:
1. Þingsetning.
2. Nafnakall fulltrúa.
3. Kjörbréf lögð fram til samþykktar.
4. Kosning starfsmanna þingsins.
a) Forseta og varaforseta.
b) Tveggja þingritara og tveggja til vara.
5. Kosning fastanefnda þingsins.
a) Kjörnefnd (5), skipuð af stjórn SSF þremur mánuðum fyrir þingsetningu sbr. 20. gr.
b) Laganefnd (5), ef tillögur um breytingar á samþykktum liggja fyrir.
c) Fjárhagsnefnd – ótiltekið.
d) Allsherjarnefnd – ótiltekið.
e) Kjaranefnd – ótiltekið.
f) Fræðslunefnd – ótiltekið.
6. Lögð fram skýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar.(sjá gr. 24)
7. Tillögur um breytingar á samþykktum kynntar.
8. Tillögur sem borist hafa teknar til umræðu og vísað til nefnda.
9. Umræður og afgreiðsla nefndarálita.
10. Fjárhagsáætlun og ákvörðun um gjald til SSF næstu þrjú árin.
11. Kjör stjórnar, tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara auk annarra trúnaðarmanna.
12. Önnur mál.

22. gr. Þingfundum skal stjórnað samkvæmt almennum þingsköpum. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum.

VI. Fjármál
23. gr. Í upphafi reglulegs þings leggur stjórn SSF fram fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár. Fjárhagsár SSF miðast við áramót. Reikningsskil skulu gerð árlega, reikningar yfirfarnir og eignir kannaðar af skoðunarmönnum SSF. Jafnframt skulu reikningar SSF endurskoðaðir árlega af löggiltum endurskoðanda. Reikningar SSF skulu vera aðgengilegir félagsmönnum á Mínum síðum SSF að lokinni endurskoðun og undirritun stjórnar SSF.

24. gr. Hver félagsmaður SSF greiði mánaðarlega félagsgjald til SSF. Þing SSF ákveður upphæð þessa gjalds að fengnum tillögum fjárhagsnefndar.

25. gr. Kostnaður við þinghald og formannafundi greiðist af SSF, þar með talin fargjöld fulltrúa búsettra utan Reykjavíkur og nágrennis.

VII. Stjórn SSF
26. gr. Kjörtímabil stjórnar er milli reglulegra þinga. Stjórn skal kjósa bundinni kosningu og skriflega ef fleiri eru í kjöri en kjósa skal. Kjörgengir í stjórn eru allir fullgildir félagsmenn í SSF.
Félagsmaður getur einungis boðið sig fram til tveggja embætta. Stjórnina skipa 9 aðalmenn. Kjósa skal formann og varaformann hvorn fyrir sig, en síðan 7 meðstjórnendur úr hópi þeirra félagsmanna sem boðið hafa sig fram til stjórnarsetu samanber 20. grein samþykkta SSF.
Kjörnefnd skal sjá um framkvæmd kosninga.
Stjórnin kýs féhirði og ritara úr sínum hópi. Ef einhver formanna lætur af störfum á kjörtímabilinu kýs stjórnin 1. varaformann úr sínum hópi.

27. gr. Stjórn SSF stjórnar málefnum þess milli þinga. Stjórnin annast rekstur SSF og hagar störfum sínum í samræmi við samþykktir þess.

28. gr. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum og skal þá að jafnaði einn stjórnarmanna vera í hverri nefnd. Einnig er stjórninni heimilt að skipa einstaka félagsmenn til að annast afmörkuð verkefni fyrir hennar hönd.

29. gr. Formaður kallar saman stjórnarfundi. Ritari sér um ritun fundargerða á stjórnarfundum og undirritar þær með formanni. Féhirðir sér um fjárreiður SSF og varðveislu sjóða. Hann hefur umsjón með gerð ársreikninga og skilum á þeim til endurskoðunar.

30. gr. Stjórnarfundi skal kalla saman svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði vetrarmánuðina. Ennfremur ef tveir stjórnarmenn æskja þess og þá innan viku frá því að sú ósk berst formanni. Dagskrár sé getið með fundarboðum.

31. gr. SSF er aðili að norrænum Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja NFU og einnig alþjóðlegum samtökum starfsmanna við þjónustustörf UNI, og tekur þátt í störfum þeirra.

VIII. Ákvæði vegna laga um kjarasamninga
32. gr. Eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir lok gildistíma kjara-samnings skal stjórn SSF skipa a.m.k. sjö menn í samninganefnd SSF: Formaður og varaformenn SSF skulu vera sjálfkjörnir í samninganefnd. Þegar fjallað er um þýðingarmiklar ákvarðanir skal hafa náið samstarf við ein-stök aðildarfélög og boðar stjórn SSF formenn félaganna til funda í því skyni.

33. gr. Stjórn SSF og samninganefnd er heimilt að skipa undir-nefndir til þess að starfa að einstökum verkefnum við undirbúning samninga og samningagerð.

34. gr. Sameiginlegur fundur aðal- og varastjórnar SSF og samninganefndar ásamt formönnum aðildarfélaga, tekur ákvörðun um uppsögn eða endurskoðun kjarasamninga. Um boðun verkfalls skal fara fram atkvæðagreiðsla samkvæmt lögum nr. 80/1938. Um framkvæmd slíkrar atkvæða-greiðslu skal fara eftir sömu reglum og gilda um atkvæða-greiðslu um kjarasamning.

35. gr. Takist samkomulag um kjarasamning skal samninganefnd SSF undirrita það með fyrirvara um endanlegt sam-þykki að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Niðurstaða allsherjaratkvæðagreiðslu er bindandi fyrir stjórn SSF. Allir aðalfélagar SSF, sem eiga í kjaradeilu, hafa atkvæðisrétt. Allsherjaratkvæðagreiðslu skal lokið innan þriggja vikna frá undirritun kjarasamnings. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg og leynileg. Við breytingu á kjarasamningi á samningstímanum er ekki skylt að hafa allsherjaratkvæðagreiðslu.

36. gr. Þriggja manna yfirkjörstjórn, er stjórn SSF skipar, skal hafa yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna SSF. Yfirkjörstjórn staðfestir kjörskrá, sem gerð er eftir félagaskrá SSF. Yfirkjörstjórn úrskurðar um kjörskrárdeilur. Jafnskjótt og atkvæðagreiðslu er lokið, skulu atkvæði og kjörgögn send til yfirkjörstjórnar og fer talning fram undir stjórn hennar. Yfirkjörstjórn úrskurðar um öll vafaatriði sem rísa kunna við atkvæðagreiðslur. Úrskurður yfirkjörstjórnar er endanlegur.

IX. Formannafundir
37. gr. Þegar stjórn SSF telur þess þörf og eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári, skal kalla saman fund formanna allra aðildarfélaganna, eða varamanna þeirra. Auk formanna á stjórn SSF, ásamt samninganefnd, sæti á þessum fundum.

38. gr. Formannafundir hafa það hlutverk að fylgjast með störfum stjórnar SSF, vera henni til ráðuneytis og styrkja tengslin milli aðildarfélaganna og stjórnar SSF.

39. gr. Formaður SSF boðar til formannafunda. Einnig ef þrír formenn aðildarfélaga æskja þess og skal þá boða til fundar innan viku frá því að sú ósk berst formanni SSF. Stjórn SSF er heimilt að setja nánari reglur um störf á formannafundum.

X. Heiðursmerki
40. gr. Heiðursmerki SSF er merki SSF úr gulli. Heiðursmerki má veita þeim aðilum, íslenskum eða erlendum sem unnið hafa gott starf í þágu félagsmanna SSF. Stjórn SSF ákveður veitingu heiðursmerkja og skal ákvörðunin um það vera einróma samþykkt af stjórninni. Skrifstofa SSF skal færa sérstaka “gullbók” þar sem skráð eru nöfn og helstu æviatriði þeirra, er gullmerkið hljóta.

XI. Breytingar á samþykktum
41. gr. Samþykktum SSF er aðeins hægt að breyta á þingi SSF og öðlast tillögur til breytinga því aðeins gildi að þær séu samþykktar með minnst 2/3 greiddra atkvæða. Tillögum til breytinga á samþykktum skal skilað til stjórnar SSF í síðasta lagi tveim vikum áður en þing er sett og skulu þær liggja frammi á skrifstofu SSF.

42. gr. SSF verður því aðeins slitið, að þing SSF og aukaþing, sem haldið sé innan tveggja mánaða frá lokum þings SSF samþykki slitin með 2/3 greiddra atkvæða. Til aukaþingsins fari fram nýtt fulltrúakjör í aðildarfélögunum. Um eignir SSF við slit þess fer eftir því sem meirihluti tveggja þinga SSF ákveður.

43. gr. Samþykktir þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri samþykktir SÍB.
Samþykkt á aukaþingi SÍB 19. apríl 1978.
Samþykktum breytt á 35. þingi SÍB 1985,
á 36. þingi 10. apríl 1987,
á 37. þingi 12. apríl 1991,
á 38. þingi 26. apríl 1993,
á 39. þingi 24. mars 1995,
á 40. þingi 21. mars 1998,
á 43. þingi 18. apríl 2007.
Samþykktum breytt á 44. þingi SSF 19. mars 2010,
á 45. þingi SSF 15. mars 2013.

Search