skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Ekki heimilt að semja sig frá ákvæðum kjarasamnings

Ekki heimilt að semja sig frá ákvæðum kjarasamnings

Í 1. gr. laga laga nr. 55 frá 1980 kemur skýrt fram að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir.

Þessi ákvæði laga nr. 55/1980 eru áréttuð í kafla 13.3 í kjarasamningi SSF/SA, en þar segir í grein 13.3.1: “Kjör samkvæmt kjarasamningi þessum eru lágmarkskjör.”

Sjá nánar kafla 13.3: https://vefbirting.prentmetoddi.is/ssf/kjarasamningur2022/32/

Atvinnurekendum er því óheimilt að reyna að fá starfsfólk til þess að semja sig frá ákvæðum kjarasamnings. Nokkuð hefur borið á því að starfsfólk sem hefur fengið launaviðtal sé beðið um að afsala sér komandi kjarasamningsbundnum hækkunum og mögulega einhverjum fleiri atriðum, t.d. afmælisgreiðslum, til þess að fá launahækkun eftir samtalið. Þetta framferði brýtur algerlega í bága við lagabókstafinn og kjarasamninga þar sem sagt er með skýrum hætti að samningur um lakari kjör en kjarasamningur kveður á um skuli dæmast ógildur.

Það er því alveg á hreinu að starfsfólki er óheimilt að semja sig frá ákvæðum kjarasamnings, t.d. um almennar launahækkanir. Allt tal af hálfu atvinnurekenda um að slíkir samningar séu heimilir er því ekki sannleikanum samkvæmt.

Öll stéttarfélög á vinnumarkaði berjast af fullri hörku gegn “undirboðum”, hvort sem atvinnurekendur eða tilteknir starfsmenn reyna slík brot laga og kjarasamninga.

Search