skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Ágrip úr sögu SSF

Ágrip úr sögu SSF

Hér má nálgast bókina ,,Ágrip úr sögu SSF 1935-2015″ sem kom út árið 2017 í tilfefni af 80 ára afmæli SSF:  Opna bók


1923: Norræn samvinna bankastarfsmanna hefst Samvinna norrænna bankastarfsmanna hófst með þingi í Gautaborg árið 1923 með þátttöku Dana, Norðmanna og Svía. Finnar bættust í hópinn 1932 og Íslendingar 1937 þegar þingið var haldið í Stokkhólmi. Þingið sóttu tveir fulltrúar af hálfu SÍB, Haukur Helgason og Þorgils Ingvarsson. Þingin féllu niður í heimsstyrjöldinni, en voru tekin upp að nýju eftir hana og var þingað í fyrsta sinn í Reykjavík árið 1949.

1930: Fyrsta reglugerðin um störf og launakjör bankastarfsmanna Þann 18. desember 1930 setti bankaráð Landsbankans fyrstu reglugerðina um störf og launakjör bankastarfsmanna, að undangengnum samningum við FSLÍ. Vorið 1945 settu bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn svo nýjar reglugerðir sem voru undirbúnar með viðræðum við viðkomandi stéttarfélög, ásamt forystumönnum sambandsfélaganna. Á árunum 1955-56 vann SÍB svo fyrst beint að undirbúningi reglugerðar um störf og kjör bankastarfsmanna, sem var gefin út síðla árs 1956.

1935: Samband íslenskra bankamanna stofnað Stofnfundur Sambands íslenskra bankamanna var haldinn 30. janúar 1935. Undirbúningsfundir höfðu verið haldnir haustið 1934 á vegum starfsmannafélaga Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Fyrsti forseti SÍB var kjörinn Haraldur Johannessen og aðrir í fyrstu stjórn voru Franz E. Andersen, Baldur Sveinsson, Einvarður Hallvarðsson og Elías Halldórssson. Stofnfélagar voru 128; 75 frá Landsbanka og 53 frá Útvegsbanka.

1935: Bankablaðið hefur göngu sína Fyrsta tölublað Bankablaðsins birtist í júlí 1935. Í ávarpi stjórnar hins nýstofnaða Sambands íslenzkra bankamanna á forsíðunni kemur m.a. fram að “Það á að verða vettvangur fyrir gagnlegar umræður um hagsmunamál vor. Þá á ennfremur að flytja fróðleik um bankafræðileg efni, fréttir af félagsstarfsemi bankamanna í nágrannalöndunum, skáldskap, kýmni og annað það, sem gott blað má prýða.”

1936: Fyrsta laugardagslokunin Lengi vel voru laugardagar virkir dagar í bönkunum. Fyrsta laugardagslokunin sem SÍB samdi um var laugardaginn fyrir páska árið 1936. Sú þróun að gefa frí á laugardögum hófst þó ekki að marki fyrr en á sjöunda áratugnum. 1967 voru bankar lokaðir á laugardögum frá miðjum maí og út september. Laugardagslokunin smájókst og 1970 var alfarið hætt að hafa banka opna á laugardögum og tekin upp fimm daga vinnuvika.

1938: Hugmynd um bankamannaskóla Sveinn Þórðarson kom fyrstur fram með hugmynd að stofnun bankamannaskóla í október 1938. Þó skrifað væri af og til um málið á næstu árum og fjallað um það á þingum SÍB varð bankamannaskóli ekki að veruleika fyrr en í lok sjötta áratugarins.

1944: Byggingarfélag bankamanna stofnað Mikill húsnæðisskortur var á fjórða áratugnum og frá upphafi var rætt um það innan SÍB að stofna byggingarfélag bankamanna til að vinna bót á húsnæðisvanda bankamanna. Í janúar 1942 synjaði bæjarráð erindi sambandsins um lóðir á Melunum á þeim forsendum að svæðið hefði ekki verið skipulagt. Styrjöldin og dýrtíð sem henni fylgdi settu húsnæðismálin í biðstöðu. Byggingarfélag bankamanna var svo stofnað 6. október 1944 og var Jón Grímsson kjörinn fyrsti formaður þess. Eftir að styrjöldinni lauk stuðlaði byggingarfélagið að innflutningi svokallaðra sænskra húsa í Vogahverfið í Reykjavík.

1946: Kona fyrst kjörin formaður SÍB Engin kona átti sæti í stjórn SÍB fyrr en Kristín M. Kristinsdóttir var kjörin formaður árið 1946. Hún var kjörin meðstjórnandi 1947 og 1949. Ekki áttu aðrar konur sæti í stjórn SÍB fyrr en Helga Kristinsdóttir var kosin í stjórn árið 1963. Á 37. þingi SÍB árið 1991 var svo Anna G. Ívarsdóttir kjörin formaður, en hún hafði áður setið í stjórn sambandsins og verið varaformaður í tvö ár.

1948: SÍB breytt í fulltrúaráð starfsmannafélaga fjármálafyrirtækja Eftir stofnun SÍB var sambandið í reynd sameiginlegt starfsmannafélag þeirra tveggja banka sem áttu þá aðild. Eftir stríð voru bankarnir orðnir ellefu og fundir orðnir mjög fjölmennir. Á aðalfundi árið 1948 var ákveðið breyta fyrirkomulaginu þannig að SÍB yrði fulltrúaráð starfsmannafélaganna og að félögin kysu einn fulltrúa fyrir hverja tíu félagsmenn.

1953: Norræna bankamannasambandið stofnað Á ársþingi norrænna bankastarfsmanna í Osló árið 1952 báru fulltrúar Svía fram tillögur um breytingar á skipulagi samstarfsins í þá veru að stofnað skyldi norrænt bankamannasamband. Á fundinum í Kaupmannahöfn ári síðar var samþykkt lagafrumvarp um að stofna Norræna bankamannasambandið, NBU, og var það gert þann 24. ágúst 1953. Fyrsti formaður sambandsins var kjörinn L. H. Christensen, þáverandi fomaður danska sambandsins. Fulltrúar SÍB á stofnfundinum voru Einvarður Hallvarðsson, Garðar Þórhallsson og Guðjón Halldórsson

1956: Reglugerð um störf og launakjör bankamanna SÍB kom að undirbúningi reglugerðar um störf og launakjör bankamanna árið 1956. Krafa um samræmd kjör á milli bankanna var sterk á stríðsárunum, en þá ákváðu bankaráðin einhliða launakjör starfsmanna. SÍB mótmælti harðlega dýrtíðarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar árið 1943 og sagði í ályktun sambandsins að stríðsgróðinn hefði nær allur fallið í hlut atvinnurekenda. Reglugerðin 1956 var fyrsti vísir breyttra viðhorfa sem reyndust vera aðdraganda kjarasamninga uppúr miðjum áttunda áratugnum.

1959: Sparisjóðirnir fá inngöngu Í lok sjötta áratugarins stækkaði sambandið umtalsvert. Á aðalfundi í október 1959 var staðfest innganga starfsfólks Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og starfsmannafélaga Verslunarsparisjóðsins, Samvinnusparisjóðsins og Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Sparisjóðirnir gerðust þá jafnframt aðilar að Bankamannaskólanum.

1959: Skóli fyrir bankamenn SÍB vann að því frá árinu 1938 að stofnaður yrði skóli fyrir bankamenn. Ríkisbankarnir þrír, Landsbanki, Útvegsbanki og Búnaðarbanki, tóku loks höndum saman árið 1959 og stofnuðu bankamannaskóla. Gunnar H. Blöndal starfsmaður Búnaðarbanka Íslands var fyrsti skólastjóri bankamannaskólans. Fyrst um sinn var starfsemi skólans miðuð við það að veita nýjum starfsmönnum bankanna fræðslu.

1965: Fimm daga vinnuvika Sex daga vinnuvika tíðkaðist lengi í íslensku samfélagi, hjá bankamönnum sem öðrum launamönnum. Tryggvi Árnason hreyfði við kröfunni um fimm daga vinnuviku í Bankablaðinu árið 1964. Skriður komst á málið og laugardagsfrí var fyrst tekið upp til reynslu sumarið 1965 og fengu bankamenn frí fjóra laugardaga á því sumri. Smám saman jókst laugardagslokunin og þann 1. mars 1970 gekk í gildi laugardagslokun í bönkum og sparisjóðum allt árið.

1966: SÍB fær fast aðsetur Fyrstu þrjá áratugina eða svo hafði SÍB ekki fast aðsetur fyrir starfsemi sína. Árið 1961 var hafinn undirbúningur að því tryggja sambandinu húsnæði. Skipuð var húsbyggingarnefnd og á næstu tveimur árum var safnað fé í húsbyggingarsjóð með framlögum bankamanna. Í apríl 1965 var samið um kaup á efstu hæð hússins að Laugavegi 103. Húsnæðið var svo tekið í notkun þann 3. október 1966.

1967: Fræðslumót bankamanna Þrátt fyrir að Bankamannaskólinn hefði tekið til starfa töldu bankamenn fulla þörf á því að miðla upplýsingum sín á milli. Efnt var í fyrsta sinn til svokallaðs fræðslumóts bankamanna á Akureyri 1967. Um var að ræða helgarráðstefnu og urðu þær fleiri á næstu árum. Einnig voru haldin vornámskeið á Akureyri 1973 og að Bifröst 1974. Þá var efnt til kjararáðstefnu í Reykjavík 1970 og sama ár var haldið í Reykjavík sérstakt mót með ungu bankafólki.

1967: Samband íslenskra sparisjóða stofnað Samband íslenskra sparisjóða var stofnað 27. apríl 1967. Eftir að SÍB öðlaðist samningsrétt 1977 fór samband sparisjóðanna með samningsumboð fyrir hönd einstakra sjóða gagnvart starfsfólki þeirra. Frá 1982 hefur samband sparisjóðanna farið með samningsumboð gagnvart öllu starfsfólki sjóðanna og átt aðild að samninganefndum bankanna.

1972: SÍB tekur við útgáfu Bankablaðsins Árið 1971 var ákveðið á þingi SÍB að sambandið skyldi taka við útgáfu Bankablaðsins. Starfsmaður SÍB, Sigurður Guttormsson, tók við ritstjórn af Bjarna G. Magnússyni sem hafi gengt því starfi allt frá árinu 1944 án þess að þiggja nein laun fyrir. Mun hann hafa litið á þetta sem hugsjónastarf, en hann sá um skrif og efnisútvegun auk auglýsingasöfnunar og fjármálastjórnar fyrir Bankablaðið í sjálfboðavinnu í heil 28 ár.

1973: Reiknistofa bankanna tekur til starfa Haustið 1973 hóf Reiknistofa bankanna starfsemi. Forstjóri var ráðinn Einar Pálsson. Leigusamningur var gerður við IBM um tækjakaup og var aðaltölva stofunnar með 148 kílóbæta minni. ‘i dag er tölvukostur Reiknistofunnar mældur í hundruðum gígabæta.

1977: Nýr samningur um starf og skipulag Bankamannaskólans Þáttaskil urðu í menntun bankamanna árið 1977 er gerður var nýr samningur um starf og skipulag Bankamannaskólans sem þá hafði starfað í tæpa tvo áratugi. Skólinn var efldur verulega með fjölgun kennslustunda og fór kennsla fram í vinnutíma í stað kvöldkennslu eftir vinnu áður. Jafnframt fjölgaði kennslugreinum og framhaldsnám var tekið upp. Ráðinn var nýr skólastjóri, Þorsteinn Magnússon, viðskiptafræðingur.

1977: Verkfallshótun knýr fram samningaviðræður Þrátt fyrir að SÍB hefði um miðjan áttunda áratuginn bætta stöðu með formlegum samningsrétti gekk illa að fá fulltrúa bankanna að samningaborðinu. Samningum, sem gerðir höfðu verið sumarið 1976, var sagt upp 31. mars 1977 og tók uppsögnin gildi 1. júlí. Þar kom að á fundi stjórnar SÍB og formanna starfsmannafélaganna þann 3. október var samþykkt að boða til verkfalls þann 26. október. Verkfallshótunin virðist hafa dugað til að knýja fram samningaviðræður, því nýr samningur var undirritaður þann 1. nóvember.

1977: Söfnun upplýsinga um röðun í launaflokka eftir kynjum hefst Árið 1977 hófst á vegum SÍB kerfisbundin söfnun upplýsinga um röðun fólks í launaflokka eftir kynjum. Konur voru þá nær tveir þriðju hlutar starfsfólks bankanna en höfðu rúmlega fimmtungi lægri laun. Konum fór þó fjölgandi í stöðum yfirmanna á næstu árum. Kristín Steinsen í Útvegsbankanum varð fyrsta konan til að setjast í stól aðstoðarbankastjóra árið 1988.

1977: Samningur um trúnaðarmenn Þann 8. september 1977 var undirritaður samnignur um trúnaðarmenn SÍB og aðildarfélaga þess milli samninganefndar bankanna og sambandsins. Þar var réttarstaða trúnaðarmanna áréttuð og og hlutverk þeirra í bönkunum skilgreint. Skrifstofa SÍB jók jafnframt upplýsingaþjónustu við trúnaðarmenn og efndi til námskeiða fyrir þá. Uppbygging trúnaðarmannakerfis SÍB hafði mikið að segja í breyttu starfsumhverfi sambandsins sem stéttarfélags í kjölfar samningsréttarins.

1978: NBU þing á Íslandi Norræna bankamannasambandið, NBU, hélt þing sitt í fyrsta sinn á Íslandi sumarið 1978. Þingfulltrúar voru rúmlega sjötíu frá öllum Norðurlöndunum, en félagsmenn í öllum norrænu bankamannasamböndunum voru þá 116.338 talsins. Fræðsluráðstefna var svo haldin hér á landi árið 1988 á vegum NBU og þing Norræna bankamannasambandsins var haldið aftur í Reykjavík haustið 1992 með þátttöku tæplega 90 erlendra fulltrúa auk hinna innlendu.

1980: Fyrsta allsherjarverkfall bankamanna Fyrsta allsherjarverkfall bankamanna skall á 8. desember 1980 og stóð til 12. desember sama árs. Átökin reyndu mjög á samstöðu bankamanna og skipulag SÍB. Aðdragandinn var sá að kjarasamningur, er var undirritaður 3. október þá um haustið, var felldur með 60% greiddra atkvæða. Var ákveðið á fundi stjórnar SÍB, samninganefndar og formanna starfsmannafélaganna 17. nóvember að boða til verkfalls þann 3. desember. Ríkissáttasemjari lagði þá fram sáttatillögu og frestaði verkfallinu til 8. desember. Sáttatillagan var felld og verkfallið skall á 8. desember. Samningar tókust loks 12. desember að loknum miklum fundahöldum. Árangurinn varð umtalsverð kjarabót fyrir bankamenn auk ýmissa félagslegra réttinda.

1982: Flutt á fæðingarstað forsetans SÍB flutti skrifstofur sínar frá Laugavegi 103 að Tjarnargötu 14 vorið 1982. Þar skapaðist gott rými til fundahalda og aukins félagsstarfs. Í boði á Bessastöðum í tilefni af NBU þingi hér á landi kom frú Vigdís Finnbogadóttir forseti viðstöddum á óvart með því að tilkynna að hún hefði fæðst og búið um skeið í húsinu að Tjarnargötu 14. Afhenti hún sambandinu póstkort og bréf sem hún hafði fengið send er hún dvaldi þar í foreldrahúsum. Þau eru nú varðveitt á skrifstofu SÍB.

1985: Rafeindatæknin leysir gjaldkeravélar af hólmi Fyrstu beinlínutækin voru tengd í stóru ríkisbönkunum í september 1985. Áður hafði svipuð tækni verið tekin upp í Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum. Þar með leysti rafeindatæknin af hólmi gjaldkeravélar, innfærsluvélar, gagnaskráningarvélar og önnur tæki gamla tímans. Þetta hafði talsverð áhrif á störf bankamanna, einkum gjaldkeranna, og fluttust margir þeirra til í starfi. Bankamannaskólinn efndi til námskeiða í hinni nýju tækni.

1989: Bankakerfið stokkað upp Á miðju ári 1989 var tilkynnt að Iðnaðarbanki, Alþýðubanki og Verslunarbanki hefðu keypt hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands hf. og að á grunni þessara fjögurra banka yrði stofnaður nýr banki, Íslandsbanki hf., í ársbyrjun 1990. Jafnframt varð sú breyting í bankakerfinu á sama tíma að Landsbanki Íslands keypti hlut Sambands íslenskra samvinnufélaga í Samvinnubankanum. Á skömmum tíma fækkaði bönkunum því úr sjö í þrjá og bankamenn að vonum uggandi um störf sín. SÍB lagði mikla áherslu á að haft yrði samráð um allar skipulagsbreytingar er varðaði starfsmenn.

1993: Fjöldauppsögnum mótmælt Við samruna bankanna 1990 var ekki gripið til beinna uppsagna, en smám saman jukust kröfur um sparnað í ríkisbönkunum. Landsbankinn greip til fjöldauppsagna árið 1993. SíB mótmælti þeim sem ólögmætum og siðlausum og aflaði sér verkfallsheimildar. Var efnt til útifundar á Lækjartorgi þar sem um tvöþúsund bankamenn sýndu samstöðu. Á 38. þingi SÍB þetta vor var sýnt fram á að útlánatöp fremur en launakostnaður væru meginástæða rekstrarvanda bankanna. Á fyrstu fimm árunum eftir uppstokkunina fækkaði bankamönnum um fimmtung.

1993: Aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði Bankarnir höfðu sjálfir greitt bankamönnum bætur í atvinnuleysinu þar sem þeir áttu ekki aðild að Atvinnuleyistryggingasjóði. Breyting varð á því 1. júlí 1993 þegar Samband viðskiptabanka ákvað að hætta greiðslu bóta í kjölfar nýrra laga sem kváðu á um fulla aðild þess að sjóðnum. SÍB sótti þá um aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði og fékk skömmu siðar. Þann 1. október fengu 89 bankamenn greiðslur úr sjóðnum og fór fjölgandi árið eftir og jafngilti það rúmlega þremur af hundraði félagsmanna SÍB.

1994: SÍB tekur við rekstri Bankamannaskólans Í tengslum við kjarasamning í ársbyrjun 1994 var gert samkomulag um að SÍB tæki að sér rekstur Bankamannaskólans. SÍB flutti skrifstofur sínar í sambýli við skólann að Snorrabraut 29. Bankamannaskólinn hafði nánast lagt niður starfsemi á þessum tíma og var engin hefðbundin fræðsla í skólanum veturinn 1993-1994. Var ákveðið að fræðslunefnd skyldi bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd fræðslunnar framvegis og ráðinn var starfsmaður til skólans.

Hér er hægt að sækja kafla um SSF úr bókinni “Með oddi og egg” sem er saga stéttarfélaga á Íslandi útgefin 2004. Tengill

Search