skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Fæðingar- og foreldraorlof

Fæðingar- og foreldraorlof

Markmið
Markmið fæðingar og foreldraorlofs er að tryggja foreldrum sem besta möguleika til að vera samvistum við börn sín, einkum á fyrstu æviárum þeirra. Jafnframt að tryggja börnum rétt til að vera samvista við báða foreldra sína.

Núverandi fyrirkomulag
Frá og með 1. janúar 2018 verða mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds fyrir tiltekin tímabil vegna barna sem fæðast frá og með 1. janúar 2018 og síðar, þó aldrei hærri en kr. 520.000. Sjá nánar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs, www.faedingarorlof.is

Viðmiðunarþak sjóðsins skv. grein 6.2.1. í kjarasamningi SSF er því kr. 520.000,
520.000/0,8 = kr. 650.000
Allir sem hafa mánaðarlaun kr. 650.000 eða lægri halda því 100% launum í 6 mánaða fæðingarorlofi. Þeir sem eru með hærri mánaðarlaun en kr. 650.000 fá þá kr. 130.000 frá fyrirtækinu í 6 mánuði.

Í lögunum er kveðið á um þriggja mánaða sjálfstæðan rétt móður til fæðingarorlofs, þriggja mánaða sjálfstæðan rétt föður og sameiginlegan eða skiptanlegan rétt sem er þrír mánuðir. Sjálfstæði rétturinn er ekki framseljanlegur nema í undantekningartilvikum.

Lögin tryggja einnig sjálfstæðan rétt foreldris til 13 vikna foreldraorlofs til að annast barn. Þessi réttur er ekki framseljanlegur og nær til sömu tilvika og rétturinn til fæðingarorlofs. Rétturinn til foreldraorlofs skapast eftir sex mánaða samfellt starf, en fellur niður þegar barn hefur náð 8 ára aldri. Þó geta foreldrar átt rétt til töku foreldraorlofs allt að 8 ára aldri barns hafi rétturinn ekki verið fullnýttur og það greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm. Rétti til foreldraorlofs fylgir ekki réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.Lögin kveða á um skyldur starfsmanna til að tilkynna atvinnurekenda um töku fæðingar- eða foreldraorlofs. Þá skilgreina þau réttarstöðu foreldra í fæðingar- eða foreldraorlofi gagnvart atvinnurekenda og ávinnslu réttinda meðan á orlofstöku stendur.Þá kveða lögin sérstaklega á um réttarstöðu þungaðra kvenna, kvenna sem nýlega hafa alið börn og sem eru með börn á brjósti og skyldur atvinnurekenda gagnvart þeim.

Sagan
Árið 2000 voru samþykkt á Alþingi ný lög um fæðingar- og foreldraorlof . Helstu markmið með lögunum eru að tryggja rétt barns til að njóta samvista við báða foreldra og að gera körlum og konum mögulegt að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.
Árið 2004 var gerð breyting á viðmiðun við ákvörðun um greiðslu til foreldra í fæðingarorlofi sem fól í sér skerðingar frá því sem verið hafði, auk þess sem sett var þak á upphæð greiðslna í fæðingarorlofi. Á árinu 2006 voru aftur gerðar breytingar á lögum. Hugtakanotkun var breytt þannig að lögin ná til réttinda samkynhneigðra foreldra sem annarra. Fellt var út ákvæði um að umönnunargreiðslur til foreldra vegna langveikra barna væru ósamrýmanlegar greiðslum í fæðingarorlofi og heimild til töku foreldraorlofs rýmkuð. Hinn 1. janúar 2007 hækkaði mótframlag Fæðingarorlofssjóðs í lífeyrissjóð í 8% að lágmarki. Þá má nefna að umsýsla með Fæðingarorlofssjóði var færð til Vinnumálastofnunar. Í maí 2008 voru enn gerðar nokkrar lagfæringar á lögunum sem tóku gildi 1. júní. Mikilvægasta lagfæringin fólst í breytingu á viðmiðunartímabili vegna útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Breytingar voru gerðar á lögunum í desember 2008 þegar hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði var lækkað í kr. 400.000 til foreldra barna sem fædd eru eftir 1. janúar 2009. Breytingar voru að nýju gerðar á lögunum sem tóku gildi 1. júlí 2009 og fólu þær í sér að hámark greiðslna var lækkað í 350.000 kr. og heimild foreldra til að taka fæðingarorlof lengdi þar til barn hefur náð 36 mánaða aldri. Síðustu breytingar á lögunum voru síðan gerðar í desember 2009 sem taka gildi vegna barna sem fædd eru, tekin í fóstur eða ættleidd eftir 1. janúar 2010. Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði var lækkað í 300.000 kr.

 

Search