skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Samþykktir

Samþykktir Menntunarsjóðs SSF

1.gr.
Nafn sjóðsins
Sjóðurinn heitir Menntunarsjóður SSF. Sjóðurinn var stofnaður samkvæmt ákvörðun þings SSF 2001. Sjóðurinn er í vörslu Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (hér eftir SSF). Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Verkefni sjóðsins
Markmið Menntunarsjóðs SSF er að efla félagsmenn í starfi og gera þá að verðmætari starfsmönnum með því m.a. að endurgreiða námskostnað að hluta eða í heild. Sjóðnum er ætlað að veita styrki vegna kostnaðar við menntun, símenntun og endurmenntun. Einnig við nám/námskeið sem nýtist í starfi og/eða til félagsstarfa að mati stjórnar.

3. gr.
Réttur til styrkja
Rétt til að sækja um styrki til sjóðsins eiga: Fullgildir félagsmenn SSF skv. samþykktum SSF. Atvinnulausir félagsmenn SSF sem hafa verið samfellt félagsmenn í 3 ár geta sótt um styrki vegna náms sem þeir stunda í allt að 2 ár eftir starfslok enda hafi þeir ekki verið í launuðu starfi á tímabilinu. Umsóknum um styrki úr sjóðnum skal skilað í því formi sem sjóðstjórn ákveður ásamt nauðsynlegum gögnum er tryggja réttmæti greiðslna. Réttur til greiðslu úr sjóðnum fyrnist á 12 mánuðum eftir námslok.

4. gr.
Stjórn og rekstur
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og eru tveir kosnir á þingi SSF og einn skipaður af stjórn SSF. Jafnframt skal þing SSF kjósa tvo varamenn. Kjörtímabilið er sama og til stjórnar SSF. Stjórnin skal rita gerðarbók og rita allar samþykktir sínar í hana. Stjórn sjóðsins fer með framkvæmdavald í málefnum hans milli sambandsþinga. Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og skal honum haldið aðgreindum frá fjárhag SSF og fjárhag annarra sjóða í eigu eða á vegum SSF. Sjóðurinn greiðir allan kostnað sem af rekstri hans leiðir. Daglegur rekstur sjóðsins skal vera á skrifstofu SSF. Ekki er greidd þóknun fyrir stjórnarsetu í stjórn sjóðsins.

5. gr.
Tekjur og ávöxtun eigna
Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundnar greiðslur atvinnurekenda eins og þær eru ákveðnar í kjarasamningi félagsmanna á hverjum tíma.
b) Vaxtatekjur og önnur framlög og styrkir. Eignir sjóðsins skulu varðveittar í traustum, skráðum verðbréfum og bankainnstæðum. Sjóðnum er óheimilt að kaupa fasteignir og taka eða veita lán. Stjórn sjóðsins er heimilt að fela utanaðkomandi aðila ávöxtun hans.

6. gr.
Ársreikningur og endurskoðun
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af skoðunarmönnum SSF og löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Hann skal lagður fram samhliða reikningum SSF.

7. gr.
Slit sjóðsins
Nú er SSF lagt niður án þess að önnur hliðstæð samtök komi í þess stað og skal sjóðnum þá slitið. Eignir sjóðsins skulu þá renna til þeirra starfsmannafélaga, sem aðild eiga að SSF þegar það er lagt niður, í réttu hlutfalli við fjölda félagsmanna í hverju félagi á þeim tíma. Þar skal eignunum ráðstafað í samræmi við ákvæði 2. gr. Starfsmannafélag eða einstaklingur sem segir sig úr SSF á ekki tilkall til eigna sjóðsins.

8. gr.
Breytingar á starfsreglum
Starfsreglum þessum má aðeins breyta á þingi SSF. Um breytingar á þeim gilda sömu reglur og um breytingar á samþykktum SSF.

9. gr.
Nánari starfsreglur
Sjóðstjórn setur nánari starfsreglur skv. samþykktum þessum, sem samþykktar skulu af stjórn SSF og formannafundi.

10. gr.
Gildistaka
Starfsreglur þessar öðlast þegar gildi.

Samþykkt svo á 43.þingi SSF 2007.
Endurskoðað á 44. þingi SSF 19. mars 2010.

Search