skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Sorgardagur í sögu fjármálafyrirtækja

Sorgardagur í sögu fjármálafyrirtækja

Friðbert Traustason

Stjórn Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) segja fimmtudaginn, 26. september 2019, sorgardag í sögu íslenskra fjármálafyrirtækja. Um 150 félagsmenn SSF misstu vinnuna vegna umfangsmestu uppsagna innan íslenskra fjármálafyrirtækja frá hruni.

Friðbert Traustason, formaður SSF, segir að hugur stjórnar og starfsmanna skrifstofu SSF sé hjá starfsmönnum sem sagt er upp. „Hugur okkar er fyrst og fremst hjá þeim starfsmönnum sem eru að missa lífsviðurværi sitt. Margir sem þarna eiga í hlut hafa starfað lengi hjá fjármálafyrirtækjum. Þá þarf einnig að huga að þeim sem eftir eru og hafa verið að missa vinnufélaga sína og sitja eftir í gjörbreyttu vinnuumhverfi þar sem starfsöryggi verður að teljast mjög ótryggt eftir viðvarandi fólksfækkun hjá fjármálafyrirtækjum frá því 2008.“

Þá harmar stjórn SSF þá aðferðafræði sem viðhöfð hefur verið við hópuppsagnir Arion banka. Með hópuppsögnunum nú hefur verið rofin sú virðing sem starfsfólki og stéttarfélögum þeirra hefur verið sýnd í áraraðir. Sérstaklega verður að skoða í þessu tilfelli hvort lög um hópuppsagnir hafi verið brotin og lögbundnið verkferli sem lög um hópuppsagnir eiga að tryggja, en Arionbanki segi að víkja verði frá ef fyrirtæki eru skráð í Kauphöll. Það skal áréttað að SSF er ósammála þessum fullyrðingum Arionbanka og treystir því að Vinnumálastofnun sé á sama máli og SSF.

SSF minnir á að félagsmenn geta leitað til skrifstofu samtakanna til að fara yfir sín réttindi eða leita upplýsinga. Í þeim tilfellum þar sem grunur leikur á að eitthvað hafi mátt betur fara þá skoðar SSF slík mál sérstaklega og útvegar aðstoð lögmanns ef þörf er á.

Eftirfarandi atriði er mikilvægt að hafa í huga varðandi uppsagnir:

• Starfsmaður á rétt á viðtali um ástæður uppsagnar, óski hann þess (grein 12.2.4 í kjarasamningi).

Meginreglur viðtals vegna uppsagna eru þessar:

• Beiðni um viðtal skal koma fram innan fjögurra sólarhringa frá því uppsögn er móttekin.
• Viðtal skal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.
• Starfsmaður getur óskað þess þegar að loknu viðtali eða innan fjögurra sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skriflega.
• Fallist atvinnurekandi á þá ósk skal viðtalið eiga sér stað innan fjögurra sólarhringa þar frá.
• Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfsmanns um skriflegar skýringar, á starfsmaður innan fjögurra sólarhringa rétt á öðrum fundi með vinnuveitanda um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef starfsmaður óskar þess.

• Meginreglan varðandi Styrktar- og Menntunarsjóð SSF er að félagsmenn halda fullum réttindum í 6 mánuði eftir síðustu launagreiðslu. Styrktarsjóður SSF endurgreiðir til dæmis hluta kostnaðar vegna tíma hjá sálfræðingum og geðlæknum. Atvinnulausir félagsmenn SSF geta sótt um styrki í Menntunarsjóð SSF vegna náms sem þeir stunda í allt að 2 ár eftir starfslok, enda hafi þeir ekki verið í launuðu starfi á tímabilinu.

• SSF hvetur alla þá sem verða fyrir uppsögn að skrá sig sem fyrst hjá ráðningarstofum og óska eftir aðstoð þeirra við gerð ferilskrár og nýta aðra þá þjónustu sem mögulega er í boði. Sé tekið gjald fyrir gerð ferilskrár þá geta félagsmenn óskað eftir endurgreiðslu á þeim kostnaði hjá SSF.

• Við starfslok skal starfsmanni bjóðast sams konar líftrygging og starfsmaðurinn nýtur samkvæmt kjarasamningi SSF af hálfu þess vátryggingafélags sem fjármálafyrirtæki hefur samið við, án nýrra heilsufarsupplýsinga, skv. gjaldskrá vátryggingafélagsins fyrir einstaklingsbundnar líftryggingar.

•  SSF er í samstarfi við Nýttu kraftinn ehf. Fyrirtækið býður upp á Einstaklingsnámskeið fyrir atvinnuleitendur. Námskeiðið er sniðið að þörfum hvers og eins þátttakanda og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér þennan möguleika á www.nyttukraftinn.is . Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á [email protected] en SSF greiðir að fullu fyrir námskeiðið.

Search