skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Mótmæla breytingum á reglugerð um almenn verðbréfaréttindi og fjárfestingarráðgjafaréttindi

Mótmæla breytingum á reglugerð um almenn verðbréfaréttindi og fjárfestingarráðgjafaréttindi

SSF hefur sent frá sér umsögn vegna draga að reglugerð um almenn verðbréfaréttindi og fjárfestingarráðgjafaréttindi (nr. 325/2019). Samtökin höfðu fyrst aðkomu að málinu á fyrri stigum eða í júlí 2019 en málinu var síðan fylgt eftir í vikunni með umsögn sem send var inn á samráðsgátt.

Þar er harðlega gagnrýnt að samtökin hafi ekki haft beina aðkomu að málinu þar sem breytt fyrirkomulag varðar félagsmenn í SSF. Í umsögninni ítrekar SSF fyrri afstöðu sína varðandi gildi eldri réttinda og því beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að tryggja að eldri réttindi haldi gildi sínu að fullu þrátt fyrir að nýtt fyrirkomulag verði tekið upp við próf í verðbréfaviðskiptum. „Sé um að ræða nýja þætti í náminu sem nauðsynlegt sé að votta með einhverskonar prófum þá verði þeim sem vinna samkvæmt eldri réttindum gert mögulegt að standast þær kröfur í gegnum endurmenntun þar sem sérstaklega er tekið á þeim tilteknu þáttum.“

Þá telur SSF að með nýjum laga- og reglugerðarákvæðum sé verið að innleiða  mjög íþyngjandi kröfur um endurmenntun, bæði fyrir þá sem sækja sér réttindi eftir gildistöku nýju ákvæðanna og þeirra sem eru með eldri réttindi. Í umsögninni kemur fram að SSF telur „fyrirkomulagi endurmenntunar sem kynnt er í reglugerðinni verður varla lýst með öðrum orðum en að um sé að ræða „tilviljanakennda endurmenntun“, þar sem ekki er um að ræða sérsniðin námskeið sem taka á nýjum kröfum á starfssviðinu heldur er um að ræða einhverskonar almenna þekkingarleit. Nú er það svo að þeir sem sinna þeim störfum sem gera kröfu um þau réttindi sem um ræðir hafa undirgengist afar yfirgripsmikið próf í verðbréfaviðskiptum auk þess sem flestir eru langskólagengnir, oft með 5 ára eða lengra háskólanám að baki. Því verður vart séð að slík tilviljanakennd endurmenntun sé markviss leið til að viðhalda þekkingu á því starfssviði sem um ræðir.“

SSF gerir jafnframt athugasemdir við framlögð drög af þeirri ástæðu að ljóst megi vera að íþyngjandi ákvæði um endurmenntun muni auka kostnað starfsmanna verulega. „Þannig er kostnaður við 3-4 klukkustunda endurmenntunarnámskeið oft á bilinu 40-50.000 kr. og lítið, ef eitthvað, framboð af styttri námskeiðum. Árlegur kostnaður þess sem vill viðhalda vottuninni gæti því verið á þessu bili.“ SSF áréttar frá fyrri umsögn varðandi kostnað við endurmenntun að það eigi samhliða að vera skýrt í reglugerð/lögum að sá kostnaður falli alfarið á vinnuveitanda og telur rétt að horft verði til fyrirkomulags við Vottun fjármálaráðgjafa í þeim efnum. Þá er mikilvægt að endurmenntun fari alfarið fram á vinnutíma enda sé um að ræða réttindi sem eru beintengd starfi viðkomandi, sem ekki er eðilegt að gerð verði krafa um að sé sinnt utan vinnutíma“ segir í umsögninni.

Að lokum áréttar SSF að með íþyngjandi kröfum um endurmenntun og óskýrum ákvæðum um gildi eldri réttinda sé mögulega verið að ganga gegn eignarrétti og atvinnufrelsi margra félagsmanna SSF. „Mörg dæmi eru um það í íslensku samfélagi að menntunarkröfum fyrir tiltekin störf hafi verið breytt en þrátt fyrir það hafa eldri réttindi haldið gildi sínu að fullu. Verði þau ákvæði laga/reglugerðar sem hér um ræðir samþykkt óbreytt áskilur SSF sér rétt til að skoða nánar hvort verið sé að ganga á lögvarin réttindi félagsmanna og grípa til viðeigandi aðgerða.“

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Search