skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Áfram uppsagnir í nafni hagræðingar

Áfram uppsagnir í nafni hagræðingar

Stjórn Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hefur áhyggjur af stöðugum uppsögnum innan fjármálageirans. Íslandsbanki sagði upp og gerði starfslokasamninga við 24 starfsmenn nú í september.

Uppsagnir starfsmanna fjármálafyrirtækja eru í engum takti við afkomu fyrirtækjanna undanfarin misseri. Hagnaður bankanna er ágætur miðað við aðstæður og batnar enn frekar nú þegar þjóðfélagið kemst út úr takmörkunum á frelsi einstaklinga og fyrirtækja. Ein aðal ástæða betri afkomu fjármálafyrirtækja eru afar hógværir kjarasamningar sem SSF gerði við viðsemjendur sína, SFF og SA.

Friðbert Traustason, formaður SSF, segir að hugur stjórnar og starfsmanna skrifstofu SSF sé hjá starfsmönnum sem sagt hefur verið upp. „Hugur okkar er fyrst og fremst hjá þeim starfsmönnum sem eru að missa lífsviðurværi sitt.“ SSF hvetur starfsfólk sem fengið hafa uppsagnarbréf að leita til skrifstofu SSF eftir aðstoð og kynna sér vel úthlutunarreglur Styrktar- og menntunarsjóðs SSF.

Eftirfarandi atriði er mikilvægt að hafa í huga varðandi uppsagnir:

Starfsmaður á rétt á viðtali um ástæður uppsagnar óski hann þess (grein 12.2.4 í kjarasamningi). Athugið að ósk um viðtal þarf að berast innan fjögurra sólarhringa frá því að uppsögn er móttekin og skal viðtal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Meginreglur viðtals vegna uppsagna eru þessar:

  • Beiðni um viðtal skal koma fram innan fjögurra sólarhringa frá því uppsögn er móttekin.
  • Viðtal skal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.
  • Starfsmaður getur óskað þess þegar að loknu viðtali eða innan fjögurra sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skriflega.
  • Fallist atvinnurekandi á þá ósk skal viðtalið eiga sér stað innan fjögurra sólarhringa þar frá.
  • Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfsmanns um skriflegar skýringar, á starfsmaður innan fjögurra sólarhringa rétt á öðrum fundi með vinnuveitanda um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef starfsmaður óskar þess.

Meginreglan varðandi Styrktar- og Menntunarsjóð SSF er að félagsmenn halda fullum réttindum í 6 mánuði eftir síðustu launagreiðslu. Styrktarsjóður SSF endurgreiðir til dæmis hluta kostnaðar vegna tíma hjá sálfræðingum og geðlæknum. Atvinnulausir félagsmenn SSF geta sótt um styrki í Menntunarsjóð SSF vegna náms sem þeir stunda í allt að 2 ár eftir starfslok, enda hafi þeir ekki verið í launuðu starfi á tímabilinu.

SSF hvetur alla þá sem verða fyrir uppsögn að skrá sig hjá Hagvangi, en SSF er með sérstakan samning við fyrirtækið sem felur í sér skráningu í atvinnuleit, aðstoð, ráðgjöf og gerð ferilskrár. SSF greiðir að fullu fyrir þá aðstoð.

Við starfslok skal starfsmanni bjóðast sams konar líftrygging og starfsmaðurinn nýtur samkvæmt kjarasamningi SSF af hálfu þess vátryggingafélags sem fjármálafyrirtæki hefur samið við, án nýrra heilsufarsupplýsinga, skv. gjaldskrá vátryggingafélagsins fyrir einstaklingsbundnar líftryggingar.

SSF er í samstarfi við Nýttu kraftinn ehf. Fyrirtækið býður upp á Einstaklingsnámskeið fyrir atvinnuleitendur. Námskeiðið er sniðið að þörfum hvers og eins þátttakanda og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér þennan möguleika á www.nyttukraftinn.is . Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á [email protected] en SSF greiðir að fullu fyrir námskeiðið.

Search