skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

„Vitleysishækkun“ og kemur sér illa

„Vitleysishækkun“ og kemur sér illa

Birtist í Morgunblaðinu, 13.02.2019

Gagnrýnir tímasetningu og framkvæmd launahækkunar bankastjóra

„Auðvitað á fólk erfitt með að melta svona ákvarðanir,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Tíðindi af launahækkunum Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hafa mælst illa fyrir í þjóðfélaginu, en laun bankastjórans námu 44 milljónum króna í fyrra. Hafa þau hækkað um 82% á skömmum tíma. Margir hafa bent á að umræddar hækkanir sendi kolröng skilaboð inn í yfirstandandi kjaraviðræður. „Það er alveg ljóst að svona launahækkanir, hvort sem það er þarna eða annars staðar, koma sér alltaf illa í svona viðræðum. Það er alveg sama hver á í hlut. Við munum nú alveg þegar ráðherrarnir fengu 45 prósent hækkun árið 2016, það er enn verið að ræða þá hækkun. Allar svona vitleysishækkanir setja strik í kjaraviðræður. Menn hljóta að geta gert þetta á lengra tímabili,“ segir Friðbert.

Þegar hann er spurður hvort þessi launahækkun hleypi illu blóði í starfsmenn fjármálafyrirtækja segir hann að vitað mál hafi verið að bankastjóri Landsbankans hafi verið á lægri launum en kollegar hennar og að einhvers konar jöfnun myndi eiga sér stað. „En þetta eru tíföld meðallaun gjaldkera í bankanum. Þeir hefðu mátt vita að þessi umræða myndi koma upp. Þegar ákvörðun um þessa launahækkun var tekin lá einnig fyrir að erfiðar kjaraviðræður væru fram undan. Auðvitað eiga menn að halda í sér.“ Friðbert hefur áður viðrað áhyggjur sínar af gangi kjaraviðræðna. Hann sagði í viðtali á síðum þessa blaðs í upphafi mánaðar að kjaradeila stéttarfélaganna fjögurra í ASÍ og SA, sem er til sáttameðferðar í Karphúsinu, liti allar aðrar kjaraviðræður á vinnumarkaði án sýnilegs árangurs. Þá gagnrýndi hann aðkomu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingar ráðherra við upphaf kjaraviðræðna, venjulega komi ríkið að kjaramálunum á síðustu stigum viðræðna. „Ég sé ekki betur en að allar kjaraviðræður séu eiginlega stopp út frá hugsanlegri aðkomu stjórnvalda. Það eru allir að bíða eftir öllum og enginn þorir að taka af skarið. Það þorir enginn að nefna launatölur því það er verið að bíða eftir tillögum um skattabreytingar, barnabætur og húsaleigubætur. Þessir fundir í Karphúsinu virðast því algerlega tilgangslausir,“ segir Friðbert en þriðji formlegi samningafundur SSF og Samtaka atvinnulífsins fer fram eftir hádegi í dag.

Search