skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

NÝTTU KRAFTINN

NÝTTU KRAFTINN

 

María Björk Óskarsdóttir og Sigríður Snævarr

Nýttu kraftinn er aðferðafræði og ráðgjöf sem þróuð var til að veita hvatningu og stuðning við einstaklinga sem leita sér nýrra tækifæra eða eru tímabundið utan vinnumarkaðar af ýmsum ástæðum s.s. vegna atvinnumissis, veikinda, náms, fæðingarorlofs og flutnings aftur til landsins. Fyrirtækið veitir einstaklingsmiðaða ráðgjöf við að hjálpa þeim inn á vinnumarkaðinn að nýju og efla sig sem einstaklinga. Tilgangur og boðskapur stofnenda gagnast einnig þeim sem eru í starfi en vilja breyta til og þeim sem nálgast tímamót t.d. starfslok.

Nýttu kraftinn var stofnað af þeim Maríu Björk Óskarsdóttur og Sigríði Snævarr. Við settumst niður með Maríu Björk og ræddum við hana um verkefnið, upphafið, framvinduna, framtíðina og verkefnin.

Tilurðin

Upphaf Nýttu kraftinn á rætur sínar að rekja til þess atvinnuleysis sem myndaðist við fjármálahrunið haustið 2008. „Ég var ein af þeim sem þá missti vinnuna í Landsbankanum og Sigríður Snævarr endurupplifði fjármálakreppuna miklu í Svíþjóð og Finnlandi árið 1992 þegar hún var sendiherra þar.”

María Björk

Hún vissi hvað langtímaatvinnuleysi gat haft slæm áhrif á fólk og hversu miklu máli það skipti að styrkja fólk í atvinnuleitinni. “Við Sigríður þekktumst nær ekkert á þessum tíma en henni var bent á mig og hafði samband með þá hugmynd að miðla af reynslu sinni og finna leiðir til að hjálpa atvinnuleitendum. Úr varð að við tókum saman höndum, þróuðum aðferðafræði og héldum tilraunanámskeið sem gekk vel. Við tókum því næsta skref, kynntum okkur og fyrirætlanir okkar fyrir stéttarfélögum, Vinnumálastofnun og fleiri hagsmunaaðilum  og stofnuðum í framhaldi Nýttu kraftinn í byrjun árs 2009. Við fórum af stað með námskeið fyrir hópa þar sem markmiðið var að hjálpa atvinnuleitendum að ná vopnum sínum og sjálfstrausti, hvetja það og styðja í leit að nýjum tækifærum með ýmsum leiðum út frá aðferðafræðinni okkar. Árangurinn var ótrúlega góður því flestum sem til okkar leituðu gekk mjög vel að takast á við erfiðar aðstæður, ná áttum og finna sér nýtt starf eða tækifæri þó það gæti það tekið mislangan tíma eftir aðstæðum hvers og eins. Við sáum fyrir okkur að vera bjóða upp á hópnámskeiðin í örfáa mánuði, héldum eins og aðrir að þá yrði nú allt komið í lag og engin þörf fyrir okkur lengur en svo var nú aldeilis ekki. Mál þróuðust þannig að vel á annað þúsund manns komu á hópnámskeið til okkar fram til ársins 2014 og við skrifuðum samnefnda bók Nýttu kraftinn sem kom út árið 2013 til að miðla enn frekar af reynslu okkar og hvatningu enda vorum við stöðugt að þróa okkur og bæta við“ segir María.

Í hverju er þjónustan fólgin í dag?

Árið 2014 breyttum við um takt og hættum með hópnámskeiðin. Sigríður fór aftur til sinna starfa í Utanríkisráðuneytinu en ég útfærði einstaklingsmiðuð námskeið og ráðgjöf, byggða á Nýttu kraftinn aðferðafræðinni. Á þessum tíma hafði atvinnuleysi sem betur fer minnkað mikið og þörfin orðin önnur – ekki sama þörf fyrir hóphvatninguna og stuðninginn sem atvinnuleitendur fengu hver frá öðrum á námskeiðunum. Með einstaklingsmiðaðri ráðgjöf gat ég kafað dýpra með hverjum og einum, veitt persónulegri ráðgjöf og leiðbeiningar. Eitthvað sem ekki var hægt að gera í stórum hópi.

Í dag er ég sjálf einnig komin í 100% starf annars staðar en fæ alltaf öðru hverju beiðni um ráðgjöf í þessum efnum sem ég hef veitt eftir því sem ég hef svigrúm til í mínum frítíma á kvöldin og um helgar. Um er þá að ræða fjarþjálfun þar sem stuðst er við upphaflegu aðferðafræðina og felst í samskiptum, stuðningi, verkefnavinnu og leiðbeiningum við skjólstæðinginn sem fer fram í gegnum tölvupóst. Markmiðið er að viðkomandi fái yfirsýn, finni styrkleika sína, ástríðu, áhuga og opni á hugmyndir sem hjálpar til við þá vinnu sem er framundan.

Þetta hefur virkað vel því fólk þarf tíma til að vinna í sínum málum og koma sér á framfæri. Það er gott að fá leiðbeiningarnar í bútum eftir því hvar viðkomandi er staddur í ferlinu. Þeir sem hafa skráð sig í slíka fjarþjálfun hjá mér fá í upphafi sendan ítarlegan spurningalista sem mörgum hefur þótt krefjandi en um leið mjög gagnlegur þar sem að lykilatriðið er að kafa inn á við. Þegar að viðkomandi hefur gefið sér tíma til að fara vandlega í gegnum spurningarnar sendir hann mér svörin sín til baka. Þetta hjálpar til við að finna út í hvaða átt viðkomandi vill fara en margir eru mjög óvissir með það á svona tímamótum auk þess sem það skiptir öllu máli að vinna með styrkleikana, áhuga og ástríðu eins og áður segir.

Markviss og sterk ferilskrá er gríðarlega mikilvæg í atvinnuleitinni og vinn ég mjög vel í því með hverjum og einum að setja upp ferilskrá sem tekur á öllu því sem skiptir máli, setja upplýsingarnar fram á þann hátt að ferilskráin sé upplýsandi, aðgengileg og áhugaverð fyrir þann sem svo fær hana í hendur því hún þarf að ná í gegn á örfáum sekúndum enda yfirleitt mikill fjöldi sem sækir um hvert starf.

Þegar ferilskráin er komin þá hef ég sett fókusinn á kynningarbréfin sem þurfa að fylgja öllum umsóknum í dag en þau þurfa að fléttast vandlega við atvinnuauglýsingu (ef sótt er um auglýst starf) og ferilskrána. Hvert einasta kynningarbréf þarf að sérsníða og því afar mikilvægt læra réttu tökin á að gera góð kynningarbréf. Það er alltaf heilmikil vinna og ég vinn og kenni það raunhæft þ.e. tengt störfum sem viðkomandi hefur áhuga á að sækja um.

Nú svo er þá komið að undirbúningi og æfingum fyrir atvinnuviðtöl sem og fjölmargt annað sem ég ráðlegg með eftir þörfum auk þess sem viðkomandi fær sent heilmikið af gögnum frá mér til að vinna með sjálfur. Þá geymir Nýttu kraftinn bókin lykilatriði úr kennsluefninu sem stendur vel fyrir sínu þó svo að sumar dæmisögurnar séu barn síns tíma.

Hver er hættan þegar fólk verður atvinnulaust, er mikil hætta á að það ílengist atvinnulaust?

Já og nei, vil ég byrja á að segja. Það eru svo ótal margir þættir sem geta haft áhrif á það hvernig gengur og tímann sem það tekur að finna sér nýtt starf. Eitt er auðvitað virkni og frumkvæðið í að koma sér á framfæri, sækja um störf og hvernig maður styrkir sig ekki síst andlega og faglega á atvinnuleitartímanum. En það er ekki nóg að vera á fullu og sækja um út og suður ef maður er ekki búinn að vinna heimavinnuna sína sbr. það sem ég var að lýsa hér áðan og er t.d. fókusinn í ráðgjöfinni minni. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vita fyrir hvað maður stendur, þekkja styrkleikana og hvað maður raunverulega vill. Strá fræjum á rétta staði og koma sér og reynslunni markvisst til skila. En svo hafa ytri þættir áhrif líka t.d. hver er staðan í þeim atvinnugeira sem viðkomandi sækir inn á, hvernig er samkeppnin um störf þar o.s.frv. Ég myndi þó segja að nær allir sem eru í virkri atvinnuleit fái starf bara spurning um tíma. Aðalmálið er að gefast ekki upp og halda jákvæðninni því útgeislun og atgervi hafa líka áhrif.

Hvernig þjónustu veitið þið þeim sem eru að hætta sökum aldurs, er mikil hætta á að það fólk verði óvirkt í þjóðfélaginu og teljið þið það vera vaxandi hóp fólks?
Við Sigríður sáum nokkuð fljótt ótal margt sammerkt með þeim einstaklingum sem stóðu tímabundið utan atvinnumarkaðar og þeim sem voru við starfslok vegna aldurs. Það að detta skyndilega út úr sinni hefðbundnu rútínu og félagslífi er tengist flestum vinnustöðum hefur mikil áhrif. Sá sem er í þeim sporum þarf að skipuleggja tímann sinn upp á nýtt, búa til nýja “stundaskrá” sem ýtir m.a. undir frumkvæði, fjölbreytni, virkni og félagsskap því það er svo auðvelt hjá báðum hópum að tíminn bara flæði áfram ef ekkert er ákveðið.

Einstaklingar sem standa á tímamótum starfsloka eru auðvitað mjög misjafnir, sumir geta ekki beðið eftir því að hætta til að fara að sinna öðrum hugðarefnum á meðan að aðrir eru alls ekki tilbúnir að hverfa af vinnumarkaði og hafa ekkert undirbúið. Heilsufar skiptir að sama skapi miklu máli. Hafi maður góða heilsu er skynsamlegt að byrja að undirbúa starfslokin smám saman eftir því sem líður að tímamótunum t.d. með því að huga að verkefnum sem maður vill sinna, koma sér upp áhugamálum eigi maður þau ekki fyrir, tryggja líkamlega virkni, félagslíf og samskipti svo dæmi sé tekið. Í þessu getur svo margt falist og alveg eins og með mikilvægi þess að atvinnuleitendur líti inn á við og gefi sér tíma til að velta styrkleikunum fyrir sér, ástríðu og áhugamálum sem og í hvaða átt viðkomandi vill fara þá gildir það sama um einstaklinga sem eru að hætta sökum starfsaldurs. Það hafa nefnilega allir val og það er svo margt hægt að gera og mikilvægt að gera sig gildan, vera þátttakandi í samfélaginu.

Það er aldrei of seint að setjast aftur á skólabekk og læra meira sér til skemmtunar sem og að láta drauma rætast þegar annríkið minnkar. Sjálfboðastarf er gott dæmi um verkefni sem margir eldri borgar hafa tekið sér fyrir hendur. Það gefur viðfangsefni, ábyrgð og félagsskap um leið og það er svo verðmætt að geta miðlað af reynslu og láta gott af sér leiða.

Í Nýttu kraftinn bókinni er sérstakur kafli sem er sérsniðinn að þessum tímamótum “þriðja aldrinum” en einnig er hægt að lesa bókina alla og pikka út eftir því sem við á hjá manni.

Þjóðin eins og heimurinn allur er að eldast enda lífsgæðin betri og fólk lifir lengur. Það þýðir auðvitað þær kynslóðir sem sigla inn í sín starfslok á næstu árum geta auðveldlega átt mjög góð 10-20 ár eftir að hefðbundnum vinnumarkaði lýkur og því spurning hvernig viðkomandi vill verja þeim tíma. Hér í gamla daga lagðist fólk bara í kör en það er alls ekki málið í dag. Það getur þó verið afar auðvelt passi maður ekki sjálfur upp á virknina, skipuleggi sig til að halda höfðinu í lagi, hafi gaman og njóti. Það er svo margt í boði í samfélaginu t.d. eru bókasöfnin algjör perla með reglulega viðburði sem almennt eru ókeypis sem, mikill kraftur í félagsstarfi aldraðra en svo er líka dásamlegt að vera duglegur að rækta fjölskyldu, vini og gamla vinnufélaga – gera sig gildandi og taka frumkvæði.

Eins og áður segir að þá er sér kafli um starfslok í bókinni en það hefur ekki reynt mikið á að fólk sæki í ráðgjöf tengt starfslokunum en Nýttu kraftinn aðferðafræðin hefur upp á margt að bjóða ekki síst varðandi nálgun, hugmyndir og hugsunarhátt.

Hægt er að kynna sér betur starfsemi Nýttu kraftinn og ráðgjöfina á heimasíðunni www.nyttukraftinn.is

Search