skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kosning trúnaðarmanna SSF

Kosning trúnaðarmanna SSF

Trúnaðarmaðurinn – Þinn maður á réttum stað

trúnaðarmannakosningTrúnaðarmaðurinn er tengiliður starfsfólks og atvinnurekandans. Honum er ætlað að auðvelda samskipti milli þessara aðila, enda á hann að eiga greiða leið að upplýsingum. Það að vera trúnaðarmaður krefst mikillar ábyrgðar og er krefjandi starf en á sama tíma mjög gefandi og skemmtilegt.

Kosning trúnaðararmanna

Dagana 16. og 17. febrúar n.k. skal kjósa trúnaðarmenn fyrir SSF og aðildarfélögin. Þeir eru kosnir til tveggja ára í senn, ásamt varatrúnaðarmanni.

Trúnaðarmenn eru kosnir af og úr hópi félagsmanna SSF á hverjum vinnustað þar sem 5 eða fleiri starfa.

Núverandi trúnaðarmaður skal auglýsa eftir framboðum á hverjum vinnustað.  Framkvæma skal leynilega kosningu ef framboðin er fleiri en tiltekin fjöldi starfandi trúnðaramanna á hverjum stað. Sá hlýtur kosningu sem flest atkvæði fær. Ef einungis einn er í framboði er hann sjálfkjörinn. Ef enginn gefur kost á sér má líta svo á að allir starfsmenn séu í framboði.

Nokkur atriði til að hafa í huga

Á hverjum vinnustað, þar sem starfandi eru a.m.k. 5 félagsmenn, er starfsmönnum  heimilt að velja sér trúnaðarmenn SSF og starfsmannafélags fyrir þann vinnustað. Fjöldi þeirra er ákveðinn í samráði við SSF, hlutaðeigandi starfsmannafélag og viðkomandi fyrirtæki.

Trúnaðarmaður gætir þess að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum, vinnuvernd, öryggi, hollustuhættir og kjarasamningar.

Trúnaðarmaður gerir sitt besta til að skapa og viðhalda góðri samvinnu innan fyrirtækisins og leitast við að leysa hugsanleg ágreiningsefni. Þegar ágreiningur rís um samningsbundin kjör starfsmanna, réttindi eða skyldur, koma kjörnir trúnaðarmenn starfsmanna fram fyrir hönd starfshópa og aðstoða einstaklinga eftir því sem óskað er af starfsmanni eða banka.

Formaður starfsmannafélags, í samráði við stjórn þess og trúnaðarmannaráð, fylgist með og hefur tillögurétt um launabreytingar og framkvæmd kjarasamninga. Fulltrúar starfsmannafélags eiga rétt á að koma á fundi bankastjórnar til þess að ræða málefni starfsmanna.

Fundir bankastjórnar, mannauðsstjóra, starfsmannastjóra og fulltrúa starfsmanna, um almenn hagsmunamál starfsfólks, skulu haldnir þegar annar hvor aðili óskar.

Ef trúnaðarmaður getur ekki leyst úr ágreiningsmáli stendur hann ekki einn.  Hann fær stuðning frá samstarfsmönnum sínum og getur leitað til stjórnar starfsmannafélagsins og til SSF.

Um störf og skyldur trúnaðarmanna er fjallað í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80 frá 1938.

Hvert er hlutverk trúnaðarmannsins?

·         Miðlar upplýsingum um félagstengd réttindi.

·         Hefur formlegt umboð hópsins til að vera ráðgjafi og/eða milligöngumaður.

·         Fylgist með málum sem geta haft áhrif á starf eða starfsumhverfi samstarfsmanna og gætir hagsmuna þeirra.

·         Heldur góðu sambandi við starfsmenn og yfirmenn og ræðir við þá um sitt verksvið.

·         Tekur með ýmsum hætti frumkvæði í málum sem geta stuðlað að því að viðhalda og efla liðsanda á vinnustað, svo sem með hvatningu og með því að koma í veg fyrir einelti.

·         Er í hlutverki leiðsögumannsins – ratar í völundarhúsi kjarasamninga og þekkir leiðir til að finna svör ef vantar.

Til hvers þarf trúnaðarmann?

·         Hann gætir þess að kjarasamningar séu haldnir og réttur starfsmanna sé virtur.

·         Hann hefur þekkingu á túlkun kjarasamninga, og veit hvert þarf að snúa sér til þess að fá úrlausn.

·         Hann er kjörinn til þess að aðstoða þegar ágreiningur rís um samningsbundin kjör starfsmanna, hvort sem óskað er af starfsmanni eða yfirmanni.

·         Eins og kunnugt er getur verið erfitt að biðja um leiðréttingu á eigin málum. Látið trúnaðarmanninn vita af vandamálum ykkar og hann hjálpar ykkur að fá úrlausn.

·         Ef starfsmaður er kallaður til fundar við yfirmann og starfsmaðurinn má ætla að fundarefnið snerti störf eða kjör hans með einhverjum hætti, hvort sem um er að ræða ráðningar- eða kjarasamningsbundin kjör eða réttindi skv. lögum og reglugerðum, þá er honum heimilt að hafa trúnaðarmann með sér á þann fund.

Mikilvægt er að gagnkvæmt traust og trúnaður ríki.

SSF minnir á að kosningar trúnaðarmanna fara fram dagana 16.-17. febrúar 2016. Nánar verður hægt að fylgjast með framboðsreglum, kjöri og atkvæðagreiðslu á vef samtakanna, www.ssf.is

Kveðja,

Skrifstofa SSF

Search