skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

SSF 80 ára

SSF 80 ára

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) á 80 ára afmæli í dag (30. jan.) en samtökin sem þá hétu Samband íslenskra bankamanna (SÍB) voru stofnuð þann 30. janúar árið 1935 af starfsmönnum Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Nafnabreytingin úr SÍB í SSF átti sér stað árið 2007 eftir að félagsmönnum í fjármálageiranum, utan bankanna, hafði fjölgað mjög og þótti nýtt nafn gefa betri mynd af eðli og hlutverki stéttarfélagsins.

Fyrsti forseti SÍB var Haraldur Johannessen og aðrir í fyrstu stjórn voru Franz E. Andersen, Baldur Sveinsson, Einvarður Hallvarðsson og Elías Halldórsson. Stofnfélagar voru alls 128, þar af komu 75 frá Landsbanka og 53 frá Útvegsbankanum. SÍB hóf strax á stofnári að gefa út Bankablaðið en hlutverk þess var að vera vettvangur fyrir gagnlegar umræður um hagsmunamál félagsmanna sambandsins en jafnframt að flytja fróðleik um bankafræðileg efni, fréttir af félagsstarfsemi bankamanna í nágrannalöndunum, skáldskap, kímni og annað það, sem gott blað má prýða, eins og segir í fyrsta blaði Bankablaðsins.

SSF mun minnast afmælisins á ýmsan máta á afmælisárinu þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt er að afmælisárið verði samtökunum erfitt sökum anna við erfiða kjarasamninga og frekari hagræðingaraðgerða bankanna. „Það auðvitað skyggir verulega á afmælisdaginn að 43 starfsmönnum Landsbankans var sagt upp í gær og eðlilega verða því engin hátíðahöld í dag“ segir Friðbert Traustason, formaður SSF.

Afmælisárinu verður fagnað með ýmsum hætti en einna helst mætti nefna eflingu útgáfumála en samtökin stefna á að vera með yfirgripsmikla kynningu á félaginu, þróun þess og sögu. M.a. verður gefið út veglegt blað næsta vetur tileinkað afmælinu þar sem rætt verður við fjölda félagsmanna um störf þeirra, breytt starfsumhverfi og viðhorf almennings til starfsmanna fjármálafyrirtækja svo eitthvað sé nefnt. Þá verða einnig útgáfumál efld enn frekar, á heimasíðu og á samfélagsmiðlum.

Friðbert segir mikilvægt að halda upp á þessi merku tímamót í sögu fjáramálastarfsemi á Íslandi en SSF (áður SÍB) hefur fylgt starfsmönnum innan fjármálafyrirtækja í gegnum súrt og sætt, séð miklar breytingar verða á fjármálastarfsemi landsins m.a. vegna tækniframfara, búsetuþróunar, kreppu og góðæris.

„Rauði þráðurinn í sögu þessa félags er samheldni og samtakamáttur félagsmanna allt frá 1935 til dagsins í dag“ segir Friðbert að lokum.

Search