skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Lífeyrisréttindi félagsmanna SSF í áratugi (1929-2016)

Lífeyrisréttindi félagsmanna SSF í áratugi (1929-2016)

Lífeyrissjóður bankamanna (áður ESL) var stofnaður 1. janúar 1929 og er því meðal elstu tryggingasjóða landsmanna. Fyrstu drög að stofnun sjóðsins eru í lögum um Landsbanka Íslands frá árinu 1919 og er hann þar nefndur Styrktarsjóður. Saga lífeyrisréttinda nær því yfir 87 ár og lífeyrisréttindi starfsmanna bankanna, og síðar fyrirtækja í eigu bankanna, voru löngu tryggð áður en svokallaðir „almennir lífeyrissjóðir“ voru stofnaðir með kjarasamningum á árunum 1968-1970. Starfsmenn Búnaðarbanka (EBÍ) og Útvegsbanka (EÚÍ) stofnuðu síðan eigin sjóði í samvinnu við fyrirtækin á fjórða og byrjun fimmta áratugs síðustu aldar.

Starfsmenn bankanna höfðu byggt upp sína sjóði í 30 ár áður en samið var um stofnun fyrstu lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði (ASÍ/VSÍ).

Í dag gilda lög um lífeyrissjóði, sem sett voru 1997 (Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða 1997 nr. 129 23. desember). Í 2. grein laganna segir: „Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skal ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal vera a.m.k. 12% af iðgjalds- stofni.“

Félagsmenn SSF (starfsmenn banka, sparisjóða og annarra aðildarfyrirtækja) hafa alltaf (undanfarin 80 ár) haft betri ákvæði um lífeyrisréttindi en samið var um á vinnumarkaði (1968) og einnig betri réttindi en lög nr. 129/1997 tryggja að lágmarki. Önnur stéttarfélög á vinnumarkaði hafa undanfarin ár tekið lífeyrissamninga SSF sem góða fyrirmynd og reynt ítrekað að ná samningum um sambærileg kjör, en ekki tekist enn.

Uppbygging lífeyrissjóða bankanna og réttindi sjóðfélaga

Á seinni áratugum síðustu aldar voru réttindi allra bankasjóðanna nokkuð samhljóða: Á fyrstu 30 árunum var ávinnslan 2% á ári, næstu 5 árin var ávinnslan 3% á ári og síðustu 5 árin var ávinnslan aftur 2% á ári.

Þannig gátu starfsmenn náð 85% lífeyrisréttindum eftir 40 ára starf. En einnig gilti seinna svokölluð 95-ára regla sem tryggði allt að 75% réttindi frá 60 ára aldri, að því tilskyldu að samanlagður starfsaldur + lífaldur gæfi 95 eða hærri tölu.

Þrír sjóðir eru enn starfandi og greiða lífeyri í samræmi við þessar gömlu samþykktir, Lífeyrissjóður bankamanna (H-deild), Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbankans og Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbankans (vistaður hjá LSR). Þessir sjóðir eru lokaðir fyrir nýja starfsmenn og EÚÍ tekur ekki við iðgjöldum.

Lífeyrisiðgjöld og bakábyrgð fyrirtækjanna

Eftir að lífeyrissjóðir starfsmanna bankanna voru stofnaðir var fljótlega farið í sjóðasöfnun og lengst af var iðgjaldið 4% frá launamanni og 8% frá fyrirtækinu (bankanum). Meirihluti stjórnarmanna (tveir af þremur) komu frá bankanum á grundvelli þess að hver banki fyrir sig (og önnur aðildarfyrirtæki) voru með 100% bakábyrgð, sem tryggði starfsmönnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðanna, óháð ávöxtun og afkomu sjóðanna. Hvert fyrirtæki gerði sérstaka grein fyrir þessari bakábyrgð í sínum ársreikningum ár hvert. Lífeyrissjóðirnir greiddu lífeyrinn út og sendu síðan kröfu (bakábyrgð) á bankana í lok hvers árs. Að jafnaði kom 60% af lífeyrinum frá sjóðnum sjálfum, en það sem upp á 100%-in vantaði kom úr sjóðum hvers banka (fyrirtækis).

Aðild að hverjum lífeyrissjóði

Eins og áður sagði voru sjóðirnir þrír: starfsmenn Búnaðarbankans í EBÍ, starfsmenn Útvegsbankans í EÚÍ og starfsmenn Landsbankans í ESL. ESL var síðan breytt í Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka eftir stofnun Seðlabankans á 7. áratug síðustu aldar. Reiknistofa bankanna gerðist aðili að þeim sjóði 1974 og Visa (Valitor) uppúr 1980. Öll þessi fyrirtæki tóku ábyrgð á greiðslugetu sjóðanna með bakábyrgð á lífeyrisréttindum sinna eigin starfsmanna. Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka heitir nú Lífeyrissjóður bankamanna og er rekinn með tveimur aðskildum deildum, gömul lokuð Hlutfallsdeild og ný Aldursdeild.

Ákvæði um lífeyrisréttindi í kjarasamningi SSF (SÍB)

Allt fram til ársins 1977 var SSF (SÍB) starfandi sem kjarafélag, sem fór með sameiginleg málefni er sneru að þeim fyrirtækjum sem félagsmenn unnu hjá. SÍB gerði „Samkomulag um störf og launakjör starfsmanna bankanna,“ síðast 1. júlí 1976.

Með lögum númer 34/1977 um „kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins“ fékk stéttarfélagið fullan rétt sem stéttarfélag (byggt á lögum 80/1938), með verkfallsrétti og öðrum þeim réttindum sem stéttarfélögum eru tryggð í 80/1938.

Árið 1977 eru lang flestir félagsmenn SSF starfandi hjá fyrirtækjum sem greiddu í lífeyrissjóðina þrjá, sem að framan eru taldir. Starfsmenn sparisjóðanna áttu lang flestir aðild að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, ýmist LSR eða sjóðum sveitarfélaganna. Þeir nutu því sambærilegra lífeyrisréttinda og starfsmenn bankanna.

Utan þessara sjóða, sem tryggðu allt að 85% lífeyrisréttindi eftir 40 ára starf, voru starfsmenn Alþýðubankans, Iðnaðarbankans og Verslunarbankans. SSF (SÍB) fór strax í þá vinnu að tryggja öllum félagsmönnum sömu (sambærileg) réttindi til lífeyris, og það tókst með kjarasamningum 1980. Þá kom inn grein í kjarasamning SSF (12.7.1) sem segir (sagði): „…. Aðrir bankar með 8 starfsmenn eða fleiri tryggi áfram sambærileg réttindi og bætur til handa sínum starfsmönnum og starfsmenn ríkisbankanna njóta.“

Með þessu ákvæði voru lífeyrisréttindi félagsmanna SSF samræmd, greitt var í ýmsa lífeyrissjóði (10% iðgjald), en hvert fyrirtæki ráðstafaði síðan bakábyrgð til að standa undir viðbótarréttindum (allt að 85-56 = 29%) á sérstakan reikning í ársreikningi fyrirtækisins hvert ár. Þessi kjarasamningur stóð óhreyfður og án athugasemda þangað til Íslandsbanki var stofnaður 1990.

Ágreiningur Íslandsbanka og SSF (SÍB) fyrir Félagsdóm

Við stofnun Íslandsbanka árið 1990 kom upp ágreiningur milli nýja bankans og stéttarfélagsins um hvernig túlka bæri ákvæðin í grein 12.7.1. Ekki náðust samningar um túlkun ákvæðisins og endaði deilan því fyrir Félagsdómi. Niðurstaða dómsins 22. apríl 1992 var á þá leið að starfsmenn Íslandsbanka hf. eigi rétt á sambærilegum lífeyrisréttindum og bótum og starfsmenn ríkisbankanna nutu almennt þann 1. ágúst 1980.

Þar sem starfsmenn Íslandsbanka greiddu ýmist í Lífeyrissjóð verslunarmanna eða EÚÍ á þessum tíma var niðurstaðan sú að stofnaður var sérstakur Eftirlaunasjóður starfsmanna Íslandsbanka (ESÍ) og greiddi bankinn reglulega inn í þann sjóð til að tryggja þau réttindi sem Félagsdómur kvað upp um. Sá sjóður var enn starfandi við fall bankans 2008, en seinna var samið um að flytja réttindi úr honum yfir í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Eignir sjóðfélaga í þessum sjóði (til viðbótar réttindum í LIVE og EÚÍ) voru rúmlega 7 milljarðar.

Nýr samningur (nýtt fyrirkomulag) í gildi hjá Íslandsbanka

Í samningum við Íslandsbanka á árunum 1992-1994 (í kjölfar Félagsdóms) kom strax upp sú ósk bankans að semja um nýtt lífeyriskerfi fyrir alla nýja starfsmenn bankans og einnig fyrir þá sem vildu flytja úr gamla (bakábyrgðarkerfinu/85%) yfir í nýtt. Strax kom fram áhugi beggja samningsaðila um að tryggja lágmarksábyrgð (lífeyri, makalífeyri, örorkulífeyri og barnalífeyri) í samtryggingu með 10% iðgjaldinu (4+6), en að umframréttindi færu í söfnun séreignar í nafni hvers og eins starfsmanns.

Tryggingafræðingarnir Bjarni Þórðarson (fyrir hönd bankans) og Bjarni Guðmundsson (fyrir hönd SSF) tóku að sér að reikna út hvað ákvæðið: „sambærilegum lífeyrisréttindum og bótum og starfsmenn ríkisbankann nutu almennt þann 1. ágúst 1980“ kostaði raunverulega há iðgjöld. Þessir ágætu tryggingafræðingar náðu ekki samhljóða lendingu og því varð niðurstaðan sú að fá þriðja aðila, Talnakönnun með Benedikt Jóhannesson og Vigfús Ásgeirsson, til að reikna aftur og leggja fram tillögu að sátt.

Niðurstaða þeirra, sem sátt náðist um, var að eftir 3 ára starf hjá bankanum (og forverum hans) fengju starfsmenn 7% framlag frá bankanum í séreignarsjóð, til viðbótar 10% iðgjaldinu í samtryggingar lífeyrissjóð. Samtals 17% iðgjald þar sem bankinn greiðir 13% og starfsmaðurinn 4%.

Bankar í eigu ríkisins gerðir hf

Undirbúningur að því að gera ríkisbankana að hlutafélögum hófst innan Landsbankans 1995 (Búnaðarbanka aðeins síðar). Sérstök nefnd þingmanna stýrði málinu ásamt starfsmönnum viðskiptaráðuneytis og bankans. Í upphafi árs 1997 leitaði bankinn til fulltrúa starfsmanna, stéttarfélagsins og Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka og viðraði þá hugmynd Landsbankans og ósk að semja á svipuðum nótum og SSF (SÍB) hafði gert við Íslandsbanka um nýtt fyrirkomulag lífeyrisiðgjalda og réttinda.

Friðbert Traustason, formaður SSF

Greinin birtist fyrst í SSF blaðinu í nóvember 2016

Search