skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Landsbankinn hlýtur gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn

Landsbankinn hlýtur gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn

Landsbankinn hefur hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn. Bankinn hlaut gullmerkið einnig árið 2015, fyrstur banka á Íslandi.

Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC veitist fyrirtækjum þar sem launamunur kynja er innan við 3,5%. Með viðurkenningunni er því staðfest að launamunur kynja hjá Landsbankanum er innan þeirra marka.

Hreiðar Bjarnason, staðgengill bankastjóra, segir:
„Í Landsbankanum er unnið eftir skýrri og metnaðarfullri jafnréttistefnu. Að fá gullmerki Jafnlaunavottunar PwC, annað árið í röð, er mikilvæg viðurkenning á að bankinn fylgi skýrri stefnu í jafnréttismálum. Við erum stolt af þessum árangri og við ætlum áfram að vera í fararbroddi á þessu sviði.“

Skýr jafnréttisstefna frá árinu 2010

Árið 2010 setti Landsbankinn sér það markmið að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans skyldi ekki vera undir 40%. Það markmið hefur náðst. Í framkvæmdastjórn bankans eru nú þrjár konur og þrír karlar. Í bankaráði eru fjórir karlar og þrjár konur, þ.m.t. formaður bankaráðs.

Í jafnréttisstefnu bankans kemur m.a. fram Landsbankinn stefni að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna, að störf flokkist ekki sem karla- eða kvennastörf og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt störf.

Í Jafnlaunaúttekt PwC er gerð grein fyrir mun á grunnlaunum, föstum launum og heildarlaunum eftir kyni. Tekið er mið af aldri, starfsaldri, menntun, starfaflokki, stöðu í skipuriti og vinnustundum.

Þann 1. desember sl. störfuðu alls 1.082 hjá Landsbankanum í 1.011 stöðugildum, þar af eru 64% konur en 36% karlar.

 

Frétt: Landsbankinn

Search