skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Hvað er SALEK og framhald kjaraviðræðna

Hvað er SALEK og framhald kjaraviðræðna

Friðbert Traustason

Friðbert Traustason

Á undaförnum misserum höfum við reglulega fengið fréttir frá forystumönnum ASÍ, BSRB og SA um svokallað Salek-samkomulag. Á vef ASÍ má lesa um Salek, en þar segir m.a. að „heildarsamtökin (regnhlífarsamtökin ASÍ og BSRB) vilji stuðla að því að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga“. Í yfirlýsingu aðila samkomulagsins er skýrt tekið fram að Salek er EKKI kjarasamningur, eða ígildi hans, og hvert stéttarfélag innan heildarsamtakanna hafi að sjálfsögðu áfram stjórn á eigin málefnum svo sem gerð kjarasamninga, enda slíkt lögbundið verkefni þeirra samkvæmt lögum um stéttarfélög númer 80/1938.

Í grein 2b í Salek-samkomulaginu eru meginmarkmið fyrir yfirstandandi gildistíma kjarasamninga. Þar segir: „Unnið er út frá sameiginlegum kostnaðarramma fyrir yfirstandandi samningstímabil, þar sem kostnaðaráhrif kjarasamninga mega ekki leiða til hærri niðurstöðu en 132 í árslok 2018“, miðað við vístöluna 100 í nóvember 2013. Þetta þýðir að kostnaður vegna umsaminna launahækkana + aðrar kjarabætur (t.d. framlög í sjóði) má ekki fara yfir 32% frá upphafi tímabils 2013 til ársloka 2018.

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa undirritað þetta Salek-samkomulag fyrir hönd allra aðildarfélaga SA, þar með talin Samtök fjármálafyrirtækja (SFF). Í janúar 2016 rituðu ASÍ og SA undir nýjan viðbótar kjarasamning á framangreindum grundvelli Salek (viðbót við maí samning 2015). Sá samningur færði öllum félagsmönnum ASÍ á almennum vinnumarkaði 6,5 – 7% kjarabætur til viðbótar því sem aðilar sömdu um í maí 2015.

Í grein 8 í kjarasamningi Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) segir: „Komi til þess að nefnd sú (skipuð af ASÍ/SA) sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nái samkomulagi um breytingar á samningum skal sambærileg breyting gilda um þennan samning“.

Ákvæðið í Salek-samkomulaginu um 32% kostnaðarramma frá lokum árs 2013 til loka árs 2018 byggir á niðurstöðu endurskoðunarnefndar sem ASÍ og SA settu á til að yfirfara hvort samningsforsendur 2015 hefðu gengið eftir. Kjarasamningur ASÍ og SA í janúar er niðurstaðan af vinnu þeirrar sömu nefndar.

Samninganefnd SSF á nú í viðræðum við samninganefnd fjármálafyrirtækjanna (SFF) um sambærilegar viðbótar kjarabætur og aðrir launamenn á almennum vinnumarkaði hafa samið um við sína viðsemjendur. Ákvæðin í grein 8 í kjarasamningi SSF frá 8. september 2015 eru skýr.

Friðbert Traustason, formaður SSF

 

Greinin birtist fyrst sem leiðari í SSF blaðinu í september 2016. 

Search