skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Samfélagssjóður Valitor veitir 9 styrki

Samfélagssjóður Valitor veitir 9 styrki

Samfélagssjóður Valitor veitti 9 styrki  að heildarupphæð kr. 8.000.000 í maí, en hlutverk sjóðsins er að styðja við vandlega valin málefni, sem bæta mannlíf og efla.

Meðfylgjandi mynd er frá athöfn 18. maí sl. þegar styrkirnir voru afhentir:
f.v. Jóhann Sigurðsson og Jóhannes G. Bjarnason f.h. Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri, Þóra Sigurðardóttir, f.h. Hallfríðar Þóru Tryggvadóttur, Ásta Rún Valgerðardóttir, Steinunn B. Sveinbjörnsdóttir f.h. Bjargráðs, María Árnadóttir f.h. Ástu K. Pjetursdóttur, Guðrún Óskarsdóttir f.h. Sölva Kolbeinssonar, Emma R. Antonsdóttir og Óttar Gíslason f.h. Spark -Team, Gísli J. Johnsen og Kristján Arason, f.h. Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, Kristján Þ. Harðarson, framkvæmdastjóri Valitor Ísland og Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Að þessu sinni hlutu eftirtalin verkefni og aðilar styrk úr sjóðnum:

Ásta Kristín Pjetursdóttir til að stunda bakkalárnám í víóluleik við Konunglega danska konservatoríið.

Ásta Rún Valgerðardóttir vegna barnabókarinnar ,, Fjölskyldudagur í leikskólanum”  sem fjallar um að allar fjölskyldur eru einstakar á sinn hátt. Styrkurinn er veittur til útgáfu og til að gefa bókina til sem flestra leikskóla.

Bjargráður, félag læknanema til að fara í alla framhaldsskóla landsins og kenna grunnatriði í endurlífgun.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar til kaupa á bátagöllum og hjálmum fyrir björgunarbáta sveitarinnar.

Hallfríður Þóra Tryggvadóttur til að stunda meistaranám í leikhússtjórnun og framleiðslu við Columbia University í New York.

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri til kaupa á ferðafóstru sem er gjörgæslueining í sjúkraflug fyrir mikið veika nýbura.

Sölvi Kolbeinsson til að stunda bakkalárnám í jazz saxófónleik við Jazz Institut Berlin sem er sameiginleg djassdeild Hanns Eisler tónlistarháskólans og Universität der Künste.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands – Spark Team til að hanna, þróa og smíða eins manns rafmagnsknúinn kappakstursbíl frá grunni.

Þjóðargjöf til Norðmanna til að taka þátt í að gefa Norðmönnum fyrstu heildarútgáfu Íslendingasagna á norsku í tilefni af áttræðisafmælum norsku konungshjónanna.

Stjórn sjóðsins afhenti styrkina, en hana skipa Guðmundur Þorbjörnsson, stjórnarformaður Valitor,  Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri  Valitor Ísland.

Sjóðurinn var stofnaður fyrir 25 árum og hafa frá upphafi verið veittir samtals 192 styrkir til einstaklinga og samtaka, sem láta til sín taka á sviði menningar-, mannúðar, samfélags- og velferðarmála. 

Tekið er við umsóknum fyrir næstu úthlutnun til 1. apríl 2018.

Search