skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Nýtt útibú Arion banka opnað á Siglufirði

Nýtt útibú Arion banka opnað á Siglufirði

Arion banki opnaði nýtt útibú við Túngötu 3 á Siglufirði þann 23. nóvember sl. Nýja útibúið er byggt á grunni starfsemi Sparisjóðs Siglufjarðar. Einnig hefur útibú Sparisjóðs Skagafjarðar á Sauðárkróki sameinast starfsemi útibús Arion banka á staðnum. Sú fjarvinnsla sem AFL sparisjóður sinnti fyrir Arion banka á Siglufirði er nú hluti af viðskiptaumsjón og lífeyrisþjónustu bankans. Þar með er samruna AFL sparisjóðs og Arion banka lokið.

Starfsfólk Arion banka á Siglufirði tóku á móti viðskiptavinum í hinu nýja útibúi við Túngötu 3, Siglufirði.

Starfsfólk Arion banka á Siglufirði tóku á móti viðskiptavinum í hinu nýja útibúi við Túngötu 3, Siglufirði.

Alls starfa um 30 manns hjá Arion banka í Fjallabyggð.

Oddgeir Reynisson hefur verið ráðinn útibússtjóri Arion banka í Fjallabyggð, en Arion banki starfrækir útibú bæði á Siglufirði og Ólafsfirði. Oddgeir er viðskiptafræðingur að mennt. Síðastliðin átta ár starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá fjarskiptafyrirtækinu NOVA og árunum 2001-2007 sinnti hann ýmsum stjórnunarstörfum hjá Emblu, Medcare og Flögu. Á árunum1995-2001 var Oddgeir fjármálastjóri hjá Nesskipum. Oddgeir er kvæntur Herdísi Guðmundsdóttur og saman eiga þau þrjú börn. Fjölskyldan mun setjast að á Siglufirði, þaðan sem Herdís er ættuð.

Helgi Jóhannsson, sem verið hefur útibússtjóri Arion banka í Ólafsfirði frá árinu 2012, þegar bankinn sameinaðist Sparisjóði Ólafsfjarðar, mun gegna starfi þjónustustjóra Arion banka á Ólafsfirði. Þjónustustjóri bankans á Siglufirði er Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, sem áður starfaði hjá Sparisjóði Siglufjarðar.

Svæðisstjóri Arion banka á Norður- og Austurlandi er Jónas Björnsson.

Rúmlega 80 starfsmenn hjá Arion banka á Norður- og Austurlandi

Starfsemi Arion banka á Norður- og Austurlandi er umtalsverð og er bankinn með stærri atvinnurekendum á svæðinu. Arion banki starfrækir nú fimm útibú á Norðurlandi; á Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og tvö í Fjallabyggði, þ.e. á Siglufirði og Ólafsfirði. Að auki rekur bankinn útibú á Egilsstöðum. Arion banki starfrækir einnig fjarvinnslu á Siglufirði og Akureyri, m.a. í tengslum við lífeyrisþjónustu bankans. Alls vinna rúmlega 80 starfsmenn hjá Arion banka á Norður- og Austurlandi.

Search