skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kjaraviðræður ganga hægt

Kjaraviðræður ganga hægt

Samninganefndir SSF og SA funduðu í húsakynnum Ríkissáttasemjara fimmtudaginn 25. júní.  Á þeim fundi kom skýrt í ljós hjá báðum samningsaðilum að kjarasamningarnir sem gerðir voru í maí/júní með ,,baksýnisspeglum“, ,,launaþróunartryggingu“ og mismunandi prósentuhækkunum launa eftir því hvort félagsmenn taka laun samkvæmt launatöflu SSF eða ekki ganga ekki.  Sá munur getur numið allt að 5% í launahækkunum á samningstímanum.  Undir slíka mismunun á kjörum félagsmanna með sömu heildarlaun, í töflu eða utan, getur samninganefnd SSF ekki skrifað, enda er útilokað að skýra það út hvernig og hvers vegna slíka mismunun á að framkvæma.

Eftir fundinn 25. júní bað samninganefnd SA (fjármálafyrirtækjanna) um frest til að reikna nákvæmlega út hvernig samningar geta hugsanlega gengið upp í launaumhverfi félagsmanna SSF.  Sú vinna er enn í gangi og niðurstaða ekki komin.

Ríkissáttasemjari lokar

Ríkissáttasemjari lokar í þessari viku og fram til 4. ágúst.  Þannig er gert hlé á öllum kjaraviðræðum sem Ríkissáttasemjari stýrir fram í ágúst.

Samninganefndir SSF og SA hafa nú orðið ásáttar um að fresta formlegum kjaraviðræðum fram til 4. ágúst 2015.  Samkomulag er um að nýr kjarasamningur muni eftir sem áður taka gildi frá og með 1. maí 2015, nema kjaradeilan fari í hart og hugsanlegar vinnudeilur.

f.h. samninganefndar SSF

Friðbert Traustason, formaður

Search