skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kjarasamningsviðræður SSF og SA tefjast enn

Kjarasamningsviðræður SSF og SA tefjast enn

Samninganefnd SSF fundaði með samninganefnd SA (bankanna) föstudaginn 5. júní. SA lagði þar fram sama tilboð og almennt liggur nú fyrir eftir undirritun kjarasamninga milli SA og ASÍ félaganna SGS, LÍV (VR) og Flóa.

Útfærsla launahækkana í þeim samningum er sérkennileg þar sem persónubundnar hækkanir á síðasta ári (2014) og fyrir hluta samningstímans eru í raun teknar uppí umsamdar launahækkanir á árunum 2015-2016. Þetta kalla SA og ASÍ félögin „launaþróunartryggingu“.

Fulltrúar SSF bentu á þá annmarka sem „launaþróunartryggingin“ hefur, m.a með tilliti til jafnlaunaátaks síðustu missera (2014-2015), mismunandi skilgreiningu heildarlauna (viðmið við launatöflu eða „föst laun“) o. fl.

Samninganefnd SSF er ekki tilbúin að skrifa undir kjarasamning til þriggja ára þar sem starfsmönnum með sambærileg laun eru tryggðar misháar launahækkanir einungis vegna skilgreiningar á heildarlaunum, sem hvert og eitt fyrirtæki innan kjarasviðs SSF hefur einhliða ákveðið útfærslu á.

Umræðan um kjarasamninginn mun því taka lengri tíma.

Þau stéttarfélög sem hafa samið (um 70.000 félagsmenn ASÍ) munu skila niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu um samningana þann 22. júní  n.k. Við sjáum til hvernig viðræður SSF og SA ganga næstu daga, en eftir því sem nær dregur niðurstöðu úr framangreindri atkvæðagreiðslu verður mikilvægara að sjá niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar áður en lengra er haldið.

Það er ljóst að nýr kjarasamningur SSF mun gilda frá 1.5.2015 þó svo samningaviðræður taki lengri tíma, alveg fram til loka júní.

Hér geta félagsmenn skoðað kjarasamninginn, sem gerður var milli SA og ASÍ-félaganna, og útskýringar SA á þeim (yfirlýsingu ríkisstjórnar o. fl.).

http://www.sa.is/frettatengt/frettir/samid-til-langs-tima-a-almennum-vinnumarkadi/

Fyrir hönd samninganefndar SSF,

Friðbert Traustason.

Search