skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Söfn varðveita muni vélafsafns Landsbankans

Söfn varðveita muni vélafsafns Landsbankans

Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans við afhendingu á National-peningakassanum í Árbæjarsafni.

Fjögur íslensk söfn munu varðveita alls 42 muni úr vélasafni Landsbankans. Öldungadeild Skýrslutæknifélags Íslands mun varðveita 9 gripi til viðbótar og Landsbankinn mun sjálfur varðveita 22 gripi.

Söfnin sem fá gripina til varðveislu eru Borgarsögusafn Reykjavíkur, Byggðasafn Vestfjarða, Skógasafn og Tækniminjasafn Austurlands.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, afhenti í gær Guðbrandi Benediktssyni, safnstjóra Borgarsögusafns Reykjavíkur, National-peningakassa sem var fluttur til landsins árið 1907 fyrir Sápuhúsið í Austurstræti en kassinn er annar af tveimur fyrstu National-peningakössum sem hingað komu. Útibússtjórar Landsbankans á Hvolsvelli og Egilsstöðum hafa afhent Skógasafni og Tækniminjasafni Austurlands gripi úr vélasafninu og gripirnir verða afhentir Byggðasafni Vestfjarða 28. apríl nk.

Tæknin hefur mótað bankann og bankastarfsemi

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:

„Tæknin hefur átt stóran þátt í að móta hvernig starfsemi innan Landsbankans er háttað og hvernig þjónustu bankinn veitir. Þannig hefur tæknin í senn mótað bankann og haft áhrif á samfélagið. Í vélasafni Landsbankans eru gripir sem hafa að mati sérfræðinga ótvírætt gildi fyrir viðskipta- og tæknisögu landsins. Það er því ánægjulegt að söfn víða um land hafi áhuga á að varðveita merkilegustu hlutina úr vélasafninu. Þannig eru þeir mun aðgengilegri en í geymslum bankans og fleiri fá notið þeirra.“

Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur:

„Það er hlutverk safnsins að huga að sem flestum þáttum í sögu Reykjavíkur og varpa ljósi á þróun hennar, menningu og atvinnulíf. Saga verslunar, viðskipta og bankastarfs er veigamikill hluti af sögu Reykjavíkur og er samofin þeim samfélagsbreytingum sem áttu sér stað, ekki síst á 20. öld. Það er því mikið fagnaðarefni fyrir Borgarsögusafn Reykjavíkur að fá þennan 110 ára kostagrip í munasafnið. Enn fremur fögnum við því þegar fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar huga að fortíðinni, varðveita söguna og efla þannig söguvitund.“

Merkir munir úr safni Westlunds

Margir af mununum sem söfnin fá til varðveislu eru úr vélasafni Ernst Josef Ossian Westlund, vélfræðings (1897-1970), sem Landsbankinn og Seðlabanki Íslands keyptu í sameiningu árið 1983. Westlund var sænskur að ætt en flutti hingað til lands í byrjun árs 1920. Hann stofnaði Ritvélaverkstæðið árið 1922 og var það fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Westlund var sannkallaður vélameistari en fékkst við ýmislegt fleira en vélar, t.d. sýndi hann sjónhverfingar á bæjarskemmtunum. Gekk hann þá undir nafninu D’Nultsewo (O. Westlund afturábak).

Samvinna við Þjóðminjasafnið

Landsbankinn samdi árið 2016 við Þjóðminjasafn Íslands um að safnið færi yfir vélasafn bankans og gerði tillögur um hvaða muni skyldi varðveita hjá opinberum söfnum eða hjá viðurkenndum áhugaaðilum. Alls voru 600 munir í vélasafninu, vélbúnaður sem notaður var í starfsemi bankans ásamt munum úr sögu verslunar á Íslandi.

Ólöf Vignisdóttir, safnafræðingur, var í kjölfarið ráðin til Þjóðminjasafnsins til að sinna verkefninu í samvinnu við sérfræðinga safnsins. Hún aflaði upplýsinga um gripina og lagði mat á varðveislugildi þeirra. Hún hafði síðan samband við 15 söfn víðsvegar um landið og höfðu fyrrnefnd fjögur söfn áhuga á að fá gripi úr vélasafninu. Í grein á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans, fjallar Ólöf um vélasafnið og þær aðferðir sem beitt var við mat á varðveislugildi gripanna.

Grein um vélasafnið eftir Ólöfu Vignisdóttur safnafræðing á Umræðunni.

 

Search