skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Undirbúningur kjaraviðræðna á fullu – átök ekki útilokuð

Undirbúningur kjaraviðræðna á fullu – átök ekki útilokuð

Það er félagsfólki SSF eflaust í fersku minni að lítið af kröfum samtakanna náðist fram í kjarasamningnum sem var gerður í janúar 2023. Þar keyrði samninganefnd SSF harklalega á SA-vegginn og eftir þá lotu var ljóst að árangur myndi ekki nást í samningaviðræðum nema með því að vera vel vopnum búin.

Fyrsta skrefið í nauðsynlegum vígbúnaði var að segja upp svokölluðu heiðursmannasamkomulagi um framkvæmd verkfalla á fjármálamarkaði. Samkomulaginu var sagt upp sl. sumar og er það því ekki í gildi lengur. Uppsögnin felur í sér að SSF býr ekki lengur við neinar takmarkanir á framkvæmd vinnudeilna eins og áður var.

Samhliða uppsögninni var skipaður hópur reyndra trúnaðarmanna SSF til þess að undirbúa jarðveginn fyrir möguleg átök. Verkföll eru ekki óskastaða fyrir neinn, en engu að síður sýnir reynsla síðustu samningaviðræðna að við verðum að vera undirbúin fyrir slíkt. Tónninn sem kemur úr Karphúsinu þessa dagana um sömu krónutöluhækkun fyrir alla og að allir eigi að fylgja þeirri línu sem kemur mögulega þaðan sýnir okkur líka að SSF þarf að búa sig undir það versta og vera tilbúin í átök ef svo ber undir.

Niðurstaða nýrrar launakönnunar SSF sýnir líka að félagsmenn eru á sama máli. Þegar spurt var um vilja til þess að fara í verkfall töldu 54% félagsfólks líklegt að það myndi vilja fara í verkfall á meðan 30% töldu það ólíklegt.

Starfshópur trúnaðarmanna hefur komið saman nokkrum sinnum á síðustu mánuðum til þess að kortleggja möguleika á aðgerðum, bæði stórum og smáum, til þess að auka þrýsting undir kröfur samtakanna. Það starf mun halda áfram á næstu vikum.

Eins og áður snúa kröfur SSF ekki í þá átt að fá meira út úr samningum en aðrir, samtökin fara fram á sambærilegar hækkanir og aðrir fá. Það hefur hallað verulega á okkar félagsfólk á tveimur síðustu samningstímabilum. Krónutöluleið lífskjarasamningsins bitnar illa á félagsfólki SSF, eins og öllum öðrum á vinnumarkaði með meðallaun og þar yfir. Hin hliðin á þeirri mynd er að fjármálakerfið hefur tekið á sig mun minni hlutfallslegar launahækkanir en aðrar greinar. Ekki verður annað séð en að unnið sé ötullega að því í Karphúsinu að halda þeim leik áfram.

Search