skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

SSF SEGIR UPP SAMKOMULAGI UM KJARASAMNINGA BANKAMANNA

SSF SEGIR UPP SAMKOMULAGI UM KJARASAMNINGA BANKAMANNA

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hefur sagt upp samkomulagi frá 2004 við samningsaðila sína um kjarasamninga bankamanna.

Saga þessa samkomulags og undanfara þess er löng. Á árinu 1977 fékk stéttarfélagið SÍB öll réttindi og skyldur stéttarfélags með lögum nr. 34/1977 um starfsmenn banka í eigu ríkisins. Lögin náðu til starfsmanna ríkisbankanna þriggja (Landsbankans, Búnaðarbankans og Útvegsbankans) auk Seðlabankans. Starfsmenn annarra banka og sparisjóða fylgdu frá upphafi kjarasamningum ríkisbankanna, og ekkert samkomulag var í gildi um kjarasamninga fyrstu árin.

Eftir verkfall SÍB 1980 settust samninganefndir SÍB og fulltrúar allra bankanna saman til skrafs og ráðagerða um samkomulag um kjarasamninga félagsmanna SÍB sem allur hópur bankamanna og öll fyrirtækin myndu eiga aðild að. Fyrsta samkomulagið um kjarasamninga allra félagsmanna SÍB var svo gert og undirritað samhliða kjarasamningum 1981. Þar voru ákvæði um gerð kjarasamninga, vinnustöðvun, gerðardóm og ýmislegt annað nauðsynlegt.

Það samkomulag var að mestu óbreytt allt til ársins 2004, en þá var bara Seðlabankinn eftir sem féll undir lög 34/1977. Samningsaðilar, SÍB og samninganefnd bankanna, sáu þá að ekki gengi lengur að byggja samkomulag um kjarasamninga á lögum um starfsmenn banka í ríkiseign.

Í góðri trú, sem byggði á afar góðum samskiptum þessara aðila í áratugi, var því ákveðið að gera nýtt samkomulag um kjarasamninga starfsmanna bankanna (og sparisjóða) sem byggði á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Í þessu samkomulagi frá 2004 voru hömlur settar á rétt stéttarfélagsins SÍB (síðar SSF) varðandi vinnudeilur sem eru langt umfram það sem almennt gildir á íslenskum vinnumarkaði sbr. 6. og 7. grein samkomulagsins. Þetta samkomulag hefur oft verið kallað heiðursmannasamkomulagið.

Eftir að SA tók við lykilhlutverki í samningum við SSF eftir hrun hefur engu verið breytt um formleg samskipti aðila. SSF telur að þetta samkomulag sé barn síns tíma og að það skjóti skökku við að samskipti samtakanna við gagnaðila heyri ekki beint undir vinnulöggjöfina eins og gildir um önnur samskonar samskipti á almennum vinnumarkaði. SSF hefur því sagt samkomulaginu upp.

Auðvitað er það ekki meginmarkmið SSF að efna til vinnudeilna, en þessar nýju aðstæður gefa okkur mun meiri möguleika og sveigjanleika varðandi verkföll en fram til þessa. T.d. getum við hér eftir beitt beinskeittari og smærri verkföllum til þess að ná kröfum okkar fram

Search