skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Séreignasparnaður starfsmanna fjármálafyrirtækja datt ekki af himnum ofan

Séreignasparnaður starfsmanna fjármálafyrirtækja datt ekki af himnum ofan

Það gleymist oft í umræðunni að flest réttindi á vinnumarkaði hafa kostað mikla baráttu í gegnum árin og sum þeirra eru endurgjald fyrir réttindi sem hafa horfið. Þannig er það með séreignasparnaðinn í kjarasamningum SSF sem er töluvert meiri en gildir almennt í kjarasamningum.

Þegar einka- og hlutafélagavæðing bankanna hófst á tíunda áratug síðustu aldar vildu stjórnendur þeirra og ríkissjóður losna við ýmsar ábyrgðir og skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda starfsfólks. Þar var fyrst og fremst um að ræða bakábyrgð fyrirtækjanna á skuldbindingum lífeyrissjóða. En þarna var líka um að ræða góð réttindi til makalífeyris og 95 ára regluna sem kvað á um að þegar summa lífaldurs og starfsaldurs varð 95 ár gat starfsfólk kosið að hefja lífeyristöku strax með 75% af lokalaunum.

Bankarnir vildu losna við allar þessar ábyrgðir og vildu kaupa réttindin af starfsfólkinu. Það tók dágóðan tíma að semja um verðmæti réttindanna og margir reiknimeistarar komu þar að. Að lokum náðist samkomulag um að þessi réttindi, umfram almenn réttindi í sameignarlífeyrissjóði, væru ígildi 7% launasummunnar og síðan hefur þetta hlutfall af launum verið greitt í séreignasjóði starfsmanna eftir 3ja ára starf skv. kjarasamningi SSF. Í upphafi voru greidd 2% fyrstu 3 árin sem hækkaði svo upp í 5,5% í kjarasamningunum 2019.

Það er því langt frá því að séreignasparnaðurinn hafi orðið til í venjulegum samningaviðræðum. Hann var verð þeirra réttinda sem starfsfólk á fjármálamarkaði missti á sínum tíma og margir eru á því að fyrirtækin hafi keypt þessi réttindi á undirverði.

Forysta SSF og félagsmenn allir hafa fram til þessa staðið vörð um þessi réttindi í séreign og munu gera það um alla framtíð.

Search