skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

SAMNINGAR GANGA HÆGT

SAMNINGAR GANGA HÆGT

Það fór væntanlega ekki framhjá neinum að vaxtahækkunin 23. nóvember hafði mjög mikil áhrif á samningaviðræður á vegum sáttasemjara. Bæði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) og formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) voru sammála um að vaxtahækkunin hefði stöðvað góðan gang í viðræðum og að þeim verði væntanlega slitið. Trúi því  hver sem vill, kærleikar hafa ekki verið miklir við borðið fram að þessu.

Þetta mun væntanlega tefja málin eitthvað, en það er erfitt að meta hversu mikið. Ég held að fáir hafi reiknað með að samningar næðust á næstu vikum hvort sem er.

SA mun ekki ræða í alvöru við aðra á meðan stóru aðilarnir eru við borðið. Við höfum hins vegar ítrekað farið fram á beinar viðræður við fjármálafyrirtækin áður en við göngum til viðræðna um eiginlegan kjarasamning. Það er mjög margt sem við teljum að þurfi að ræða vel innan greinarinnar áður en við förum að stóra borðinu. Bæði Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) og bankarnir hafa verið treg fram að þessu að gefa ákveðin svör. SA eru augljóslega með samningsumboð fyrir bankana og fleiri fjármálafyrirtæki og SFF og fjármálafyrirtækin skýla sér á bak við það. Það eru nokkuð margar vikur síðan SSF setti fram beiðni  um beinar viðræður við fjármálafyrirtækin og SFF og við bíðum enn eftir svari. Hugsanlega þurfum við að taka einhver skref gagnvart SA til þess að geta vísað málinu í hús hjá sáttasemjara.

Meginkröfur okkar sem komu frá þingi SSF í mars eru í aðalatriðum skýrar og hafa verið birtar fyrir löngu. Þær eru þessar en listinn er ekki enn orðinn tæmandi:

 • Áhersla á prósentubreytingar launa
 • Ljúka vinnu við að útbúa ramma í kringum fastlaunasamninga
 • Frekari stytting vinnutíma og breytt útfærsla
 • Aukið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð
 • Semja beint við fjármálafyrirtækin
 • Lenging orlofs  í 30 daga fyrir alla
 • Skýrari ákvæði um heimavinnu, t.d. réttindi, tryggingar o.s.frv.
 • Samstarf um tæknibreytingar á fjármálamarkaði
 • Full laun fyrir alla í fæðingarorlofi
 • Frí á gamlársdag
 • Árangurstenging launa og hlutdeild starfsmanna í hagnaði
 • Aukin framlög í Menntunar- og Styrktarsjóð SSF

Þann 10. nóvember sl. var haldinn fundur formanna/stjórna aðildarfélaga og reyndari trúnaðarmanna innan SSF en þar var farið ítarlega yfir kröfur SSF og leitað eftir frekari hugmyndum og útfærslum. Við erum enn að vinna úr þeim upplýsingum sem komu fram á þeim fundi. Við stefnum að því að halda opinn kynningarfund í netheimum þegar við erum búin að vinna úr þeim pakka. Hvenær sá fundur verður haldinn fer dálítið eftir því hvað er að gerast almennt í viðræðum annarra hópa. Mögulega verður fundurinn haldinn tímanlega fyrir jól, en það er einnig mögulegt að við bíðum þar til í upphafi nýs árs.

Eins og allir vita hefur staðan innan ASÍ verið flókin á síðustu mánuðum og ekki enn séð hvaða áhrif það hefur á framgang viðræðna um kjarasamninga, jafnvel fyrir okkar samtök SSF, sem er ekki aðili að ASÍ. Eins og staðan er núna eru samflot verslunarmanna og hluti starfsgreinasambandsins saman í viðræðum og samtímis fara einnig fram viðræður Eflingar og SA. Samflot iðnaðarmanna og tæknifólks innan ASÍ eru einnig í viðræðum hjá sáttasemjara þannig að sá hópur gæti einnig tekið forystu í að koma á kjarasamningi, sérstaklega ef illa gengur á öðrum vígstöðvum. Óvissan er því mikil og eftir að stýrivextir voru hækkaðir fóru menn að tala um undirbúning aðgerða til þess að fylgja kröfum sínum eftir. Veður skipast hins vegar skjótt í lofti í kjaraviðræðum. Snemma morguns daginn eftir vaxtahækkanir bauð forsætisráðherra samningsaðilum á fund og lofaði aðkomu að málinu. Á morgunfundi Viðskiptaráðs á nákvæmlega sama tíma lýsti fjármálaráðherra yfir stuðningi við vaxtahækkanir Seðlabankans. Viðræður héldu síðan áfram allan daginn, að einhverju leyti um skammtímasamning. Undir kvöld sleit VR svo viðræðum fyrir sína hönd, að sögn vegna ummæla fjármálaráðherra fyrr um morguninn. Það kemur væntanlega einhverjum spánskt fyrir sjónir að annar aðilinn slíti viðræðum út af ummælum aðila úti í bæ sem er ótengdur málinu, jafnvel þó um fjármálaráðherra sé að ræða. Þegar þetta er skrifað, seinnipart föstudags 25. nóvember, lítur út fyrir að öllum viðræðum hafi verið frestað fram til þriðjudags og væntanlega ætlar fólk að ráða ráðum sínum í millitíðinni.

Það má því enn búast við því að veturinn framundan verði erfiður.

Ari Skúlason, formaður SSF.

Search