skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

NÝJAN SVOKALLAÐAN LÍFSKJARASAMNING – NEI TAKK!

NÝJAN SVOKALLAÐAN LÍFSKJARASAMNING – NEI TAKK!

Rétt fyrir jól var haldin mikil flugeldasýning í Karphúsinu þar sem fámennur hópur forystufólks innan ASÍ sagðist stefna að því að loka kjarasamningum sem fyrst í anda lífskjarasamningsins og ætti sú niðurstaða að gilda fyrir allan vinnumarkaðinn.

Með lífskjarasamningnum varð til félagsskapurinn „Bestu vinir bankanna“. Með krónutöluhækkunum tryggir þessi félagsskapur að bankarnir sleppa með mun minni hlutfallshækkanir en aðrar atvinnugreinar. Þannig hefur það verið tvo samninga í röð. Félagsskapurinn „Bestu vinir bankanna“, sem inniheldur SA og stærstu félög og samtök innan ASÍ, ætlar sér nú að endurtaka þann leik. Bankarnir eiga að sleppa ódýrar en aðrir, og auðvitað án þess að skila mismuninum til viðskiptavina. Allur mismunurinn fer í hagnað og þaðan til eigenda bankanna þar sem stærsti eigandinn er ríkissjóður.

Það er algerlega ljóst að félagsmenn SSF hafa engan vilja til þess að vera með í lífskjarasamningaleik einu sinni enn og það er ljóst að það sama gildir um fleiri samtök á vinnumarkaðnum. Þeir sem stóðu að flugeldasýningunni fyrir jól hafa ekkert umboð til þess að semja fyrir allan vinnumarkaðinn. Þetta fólk getur samið fyrir sína hópa, en aðrir hópar sem á eftir koma hafa jafn dýrmætan samningsrétt og þeir sem semja fyrst og þeirra félagsmenn eiga ekki síður rétt á eðlilegum launahækkunum og aðrir.

Niðurstöður nýrrar launakönnunar SSF sýna að félagsmenn hafa ekki áhuga á krónutöluhækkunum og að þeir eru tilbúnir að fylgja eðlilegum kröfum sínum eftir með aðgerðum ef svo ber undir.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks SSF óska ég félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir þau sem liðin eru.

Ari Skúlason, formaður SSF.

Search