skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Mikið (og óþarft) launaskrið á fjármálamarkaði

Mikið (og óþarft) launaskrið á fjármálamarkaði

Nýjar tölur Hagstofu Íslands um launaþróun sýna að laun á fjármálamarkaði hækkuðu um 9,3% frá nóvember 2022 fram til sama tíma 2023. Eins og menn muna gerði SSF kjarasamning við SA í janúar í fyrra um 6,75% launahækkun með 66 þúsund kr. þaki. Mat okkar sem unnum við samningsgerðina var að um 40% félagsmanna SSF myndu lenda í skerðingu vegna þaksins og því var áætlað kostnaðarmat vegna samningsins um 6%. Launin í greininni höfðu hins vegar hækkað um 9,3% í nóvember, þ.e. um helming umfram áætlaða launahækkun. Það lítur því út fyrir að hluti félagsmanna hafi sótt sér bætur fyrir skerðinguna með launaskriði.

Í kjaraviðræðum síðustu vikna hefur verið mikið rætt um muninn á launahækkunum í kjarasamningum og launasvigrúm og hafa t.d. komið fram athugasemdir frá svonefndri Breiðfylkingu við að SA vilji draga áætlað launaskrið frá því kostnaðarmati sem gildir um kjarasamning Breiðfylkingarinnar (sjá grein á heimasíðu SSF).

Í kjarasamningum skiptir auðvitað miklu máli að meta svigrúm til launahækkana sem best, m.a. til þess að það sé hægt að ná markmiðum samninga um stöðugleika með sem bestum hætti. Hvað síðasta kjarasamning SSF og SA varðar er augljóst að svigrúmið var kolvitlaust metið, eins og samninganefnd SSF hélt reyndar fram allan tímann, tölur Hagstofunnar sanna allt um það.

Hefði ekki verið um þak á launahækkunum að ræða hefði launaskrið í greininni ekki orðið svona mikið. Launaskrið þýðir að öllu jöfun að sumir fá en aðrir ekki. Samningsbundar launahækkanir þýða að allir fá það sem samið er um. Loftfimleikakúnstir eins og launaþak að kröfu annarra hópa gagnast engum þegar til lengdar er litið. Það er öllum fyrir bestu að meta svigrúmið til launahækkana rétt þannig að allir sitji við sama borð.

Ari Skúlason,
Formaður SSF.

Search