skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

LAUNAVIÐTALIÐ – ER EKKI RÉTT AÐ FÁ ÞAÐ STRAX?

LAUNAVIÐTALIÐ – ER EKKI RÉTT AÐ FÁ ÞAÐ STRAX?

Er það núna sem ég þarf að biðja um hærri laun? Eða er kannski betra að bíða? Það getur verið erfitt að finna réttan tíma fyrir spjall um laun við yfirmanninn.

En í rauninni er mjög góður tími núna. Það eru augljóslega peningar þarna úti í augnablikinu sem félagsmenn gætu allt að einu reynt að ná í. Benda má á að fjölmargar fjármálastofnanir hafa nýlega birt mjög góðar afkomutölur og væntingar eru góðar um tímana framundan.

SSF samdi í  upphafi ársins um nýjan kjarasamning sem meðal annars tryggði fjármálastarfsmönnum 6,75% launahækkun á þessu ári, þó með 66 þús. kr. þaki.

Margt bendir þó til þess að enn gætu verið peningar til. Þá er horft til launaskriðs, sem er hugtak yfir launaþróun fyrirtækja – til viðbótar þeim launahækkunum sem samið er um við samningaborðið.

Það er viðtekin staðreynd að launaskrið er meira á uppgangstímum eins og núna. Þetta þýðir að það eru peningar til að semja um í fyrirtækjunum og því ætti starfsfólk ekki að halda aftur af sér við að reyna að fá hærri laun.

Það þarf að vanda sig við að fá launahækkun út úr samtali við yfirmann sinn og nauðsynlegt að undirbúa sig vel. Launaviðræður er ekki eitthvað sem maður gerir með vinstri hendi. Gott er að afla sér meiri  upplýsinga, m.a. í launareiknivél SSF og tölum úr síðustu launakönnun á heimasíðu SSF. Launareiknivélin er reyndar stundum erfið þegar valið er þröngt, en í könnuninni sjálfri má finna góðar tölur um ákveðin störf á bls. 174-175.  Launakönnunin er reyndar orðin tveggja ára gömul, en ný verður gerð í nóvember 2023.  Það má að lágmarki hækka tölur úr síðustu launakönnun um 90 þ.kr. til þess að fá stöðuna í dag. Finna má launakönnunina frá 2021 með því að smella á neðangreinda slóð.

https://www.ssf.is/wp-content/uploads/2021/11/4030586_SSF_181121.pdf

Mikilvægt er að undirbúa yfirmanninn í tíma undir kröfur til hans og væntingar til launaviðræðna svo ekki verði um óvænt áhlaup að ræða. Skyndilausnir eru sjaldgæfar í kjaraviðræðum. Þetta er oft ferli sem tekur langan tíma! Þess vegna þarf stundum að leita að einhverjum óformlegum tilefnum til að sá fræum og vekja athygli á því sem þú vilt semja um. Eftir það þarft þú að koma með einhverjar metnaðarfullar og raunhæfar kröfur.

Í viðræðunum sjálfum er mikilvægt að það sért þú en ekki yfirmaðurinn sem kemur með tillögur þannig að það séu óskir þínar og kröfur sem verði upphafspunktur samningaviðræðna. Starfsfólk þarf einnig að vera búið undir að allar samningaviðræður byrja á neitun. Það má hins vegar ekki slá því föstu að nei sé endanlegt og að ekki sé hægt að breyta því. Það er mikilvægt að fólk sýni bjartsýni og þrautseigju og forðist að verða persónulegt, til dæmis með því að láta í ljós reiði eða gremju. Þú þarft að standa á þínum kröfum og ekki agnúast út í yfirmanninn. Einbeittu þér að því að komast að því hvað þarf til þess að þú fáir óskir þínar uppfylltar.

Svekkelsi er óþarft þó þú gangir ekki út af skrifstofu yfirmannsins með möguleika á hærri launum í fyrsta skipti sem þú reynir. Samræður um laun eru ferli sem tekur tíma. Það þýðir að þú munt jafnvel upplifa að vera neitað nokkrum sinnum áður en þú færð jákvætt svar. Ef þú færð já strax upphafi er auðvitað möguleiki á því að þú hafir selt þig of ódýrt.

Allt starfsfólk í fjármálageiranum á rétt á árlegu starfsmannaviðtali við yfirmann til þess að ræða breytingu á starfskjörum skv. gr. 1.6 í kjarasamningi, svo það er um að gera að byrja.

Search