skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kostnaðarhlutfall banka á Íslandi með því lægsta í Evrópu

Kostnaðarhlutfall banka á Íslandi með því lægsta í Evrópu

Af 40 löndum í Evrópu var kostnaðarhlutfall Íslenskra banka það þriðja lægsta 2021. Hæsta hlutfallið var í Sviss, 94,5%, og lægst í Tyrklandi 39,5%. Hlutfallið fyrir Ísland var 46,5% og meðalkostnaðarhlutfall landanna 40 var 60,5%. Kostnaðarhlutfallið í Bandaríkjunum var um 63% á árinu 2021.

Hlutfallið sýnir rekstrarkostnað banka sem hlutfall af summu hreinna vaxtatekna og annarra rekstrartekna. Teljari og nefnari eru fyrst reiknaðir út fyrir hvert land fyrir áður en hlutfall er fundið. Hafa ber í huga að bankar sem notaðir eru í útreikningnum gætu verið mismunandi.

Þessar tölur passa vel við tölur Hagstofu Íslands um framleiðniþróun í fjármálakerfinu. Þær tölur sýna að á tímabilinu frá 2015 til 2022 jókst framleiðni vinnuafls í íslenska fjármálakerfinu um rúmlega 63%, eða um 7,3% á ári að meðaltali. Á sama tíma jókst framleiðni vinnuafls í hagkerfinu öllu um 10,5%, eða um tæplega 1% á ári.

Það má nefna þrjár stórar ástæður fyrir þessari gífurlegu framleiðniaukningu. Í fyrsta lagi tækniþróun, en hún er hvergi hraðari hér á landi en í fjármálakerfinu. Í öðru lagi þá staðreynd að fjármálafyrirtækin hafa tekið á sig mun minni hlutfallslegar launahækkanir á síðustu árum en aðrar greinar. Í þriðja lagi má svo nefna mikla fækkun starfsfólks, en ætla má að starfsfólki hafi fækkað um u.þ.b. fjórðung á þessu tímabili á meðan starfsemin er nokkurn veginn sú sama. Álag á stærstan hluta starfsfólks hefur því aukist mikið þar sem mun minni hópur er að afkasta eins og áður var, og vel það.

Search