skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kjarasamningar 2024 – hver er staðan?

Kjarasamningar 2024 – hver er staðan?

Hvað samningamál varðar hefur framgangur verið lítill í þessari viku og allt virðist ganga frekar hægt í augnablikinu.

Sl. föstudag spurðist út að samkomulag um launahækkanir hefði náðst á milli svokallaðrar breiðfylkingar og SA. Sá hópur virðist ekki hafa þokast meira áfram í þessari viku. Það mikilvægasta sem á eftir að gera er að ná samkomulagi um forsendur á bak við samninginn, t.d. tryggingar (rauð strik) í fjögurra ára samningi. Væntanlega er verið að ræða þá hlið núna og svo er aðkoma stjórnvalda enn frekar óljós.

Ég hef verið með í hópi iðnaðarmanna í ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og verkfræðinga sem hefur verið í samhliða viðræðum við SA og opinbera launagreiðendur. Allir í þessum hópi hafa verið sammála um þá meginlínu að hreinar krónutöluhækkanir komi ekki til greina. Mér finnst því líklegt að dvöl þessa hóps í Karphúsinu hafi hjálpað til við að prósentuhækkanir komu inn í myndina.

Allt sem rætt er í húsinu er háð trúnaði, en ég get bent á að Morgunblaðið sagði frá því sl. þriðjudag að
verið sé að ræða blandaða leið prósentuhækkana og krónutöluhækkana, þar sem laun hinna lægstlaunuðu myndu taka krónutöluhækkunum en aðrir fengju 3-4% hækkun að jafnaði næstu 4 árin.

Mér sýnist ljóst að SA stefni enn og aftur að því að búa til ramma gagnvart ákveðnum hópi sem erfitt verði fyrir aðra hópa að ganga að eða vinna úr. Viðræður okkar hóps við atvinnurekendur um launaliðinn hafa þannig gengið erfiðlega. Hvað SSF hópinn varðar virðast þeir sem eru í fararbroddi í viðræðunum sammála um að bankarnir eigi einu sinni enn að sleppa mun ódýrar frá samningunum en aðrar atvinnugreinar.

Þó ég sé inni í þessum vinnuhópi er alls ekki markmiðið að klára samning um leið og hin stéttarfélögin í hópnum. SSF tekur niðurstöðuna þegar hún kemur og óskum þá eftir viðræðum við okkar gagnaðila. Hingað til hafa einu samskiptin á þeim vettvangi verið nokkrir upplýsingapóstar sem ég hef sent á þau án þess að fá nokkur efnisleg viðbrögð.

Nú hafa allir stóru bankarnir birt uppgjör fyrir 2023 og þeir eru greinilega ekki á flæðiskeri staddir. Sameiginlegur hagnaður þeirra var 83,5 ma.kr. og jókst hann um 24% frá 2022. Bankarnir stefna að því að greiða tæpa 42 ma.kr. í arð á þessu ári og þar verður ríkissjóður langstærsti móttakandinn. Það er nokkuð ljóst að stór ástæða fyrir miklum hagnaði bankanna er hversu létt þeir hafa sloppið frá launabreytingum síðustu ára miðað við önnur fyrirtæki.

Samkvæmt uppgjörunum voru meðalmánaðarlaun pr. ársverk í bönkunum þremur 1.230 þús. kr. Það er nokkuð hærra en meðallaun samkvæmt launakönnun SSF frá því í nóvember 2023 sem sýndi meðalmánaðarlaun upp á 1.057 þús.kr. Meðallaun pr. ársverk skv. ársreikningum eru reyndar frekar ónákvæm stærð.

Fyrir okkur hjá SSF er lítið annað að gera en að bíða og fylgjast vel með, taka þátt í vinnuhópnum og reyna svo að vinna vel út frá þeirri niðurstöðu sem fæst í stóru samningunum á almenna markaðnum, hvenær sem það svo verður.

Ari Skúlason,
Formaður SSF

Search