skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Glæsilegri launakönnun SSF lokið

Glæsilegri launakönnun SSF lokið

Nú er Gallup að leggja lokahönd á úrvinnslu launakönnuar SSF. Hluti af fyrstu niðurstöðum var kynntur á formannafundi SSF í Hveragerði 16. nóvember. Eins og síðast var niðurstaðan algerlega frábær og var svörunin í kringum 80% sem tryggir að niðurstöður eru mjög áreiðanlegar. Samkvæmt könnuninni  hækkuðu meðallaun félagsmanna SSF um 135 þús.kr. eða um 14,6% á milli október 2021 og nóvember 2023.

Á tímabilinu frá síðustu könnun hafa kjarasamningsbundnar hækkanir launa sem voru þá í kringum 900 þ.kr. verið rúm 91 þús.kr. á mánuði. Niðurstaða könnunarinnar er því að meðallaun hafa hækkað um 4,3% meira en ætla mætti skv. kjarasamningum eða um rúm 2% á ári.

Einhverjir myndu kalla þetta launaskrið, en það má ekki gleyma því að hópurinn sem svarar er stöðugt að breytast. T.d. voru 71% þátttakenda með háskólamenntun nú, en tæp 66% 2021. Við vitum vel að fólki fækkar mun meira í neðri enda launastigans en í þeim efri, þannig að það er eðlilegt að meðallaun hækki eitthvað umfram kjarasamninga. Eiginlegt launaskrið er því ekki mikið innan fjármálafyrirtækjanna.

Önnur niðurstaða úr könnuninni er að hlutur kvenna innan SSF heldur áfram að minnka. Nú voru konur 56% þeirra sem svöruðu könnuninni en voru tæp 60% fyrir tveimur árum. Í launakönnuninni 2008 voru konur 72% þátttakenda. Starfsmenn fjármálafyrirtækja eru því ekki sama kvennastéttin og áður var.

Niðurstöður könnunarinnar verða birtar á heimasíðu SSF um leið og þær verða tilbúnar og við munum einnig draga í happdrættinu í næstu viku. Þá munum við halda áfram að birta fréttamola úr niðurstöðum á heimasíðunni á næstu vikum, ásamt fréttum af niðurstöðum formannafundar SSF.

Search