Lífeyris- og tryggingaréttindi
Lífeyrismál
Lífeyrismál – almennt
Félagsmenn SSF eru aðilar að mörgum lífeyrissjóðum. Til að gefa innsýn í hvernig það kerfi virkar eru hér birtar skilgreiningar á hlutfallsdeild og aldursdeild af vef Lífeyrissjóðs Bankamanna. Neðst er svo stutt útskýring á séreignarsparnaði sem greiðendur í stigadeild geta lagt fyrir.
Hlutfallsdeild (af vef lifbank)
Í Hlutfallsdeild er starsfmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 65 ára. Með því að starfa áfram og greiða iðgjöld til sjóðsins, er hægt að vinna sér inn viðbótarréttindi, hafi hámarksréttindum ekki verið náð. Sá sem náð hefur 60 ára aldri og hefur samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár, getur hætt störfum með rétti til eftirlauna. Einnig er sjóðfélaga sem orðinn er 60 ára heimilt að láta af störfum og hefja töku eftirlauna, þótt hann nái ekki 95 ára reglu, en þá með skerðingu eftirlaunanna, 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 65 ára aldri sé náð.
Upphæð eftirlauna er hundraðshluti af launum fyrir fullt starf í stöðu þeirri sem sjóðfélaginn gegndi síðustu fimm árin og skal endurmeta laun fyrstu fjögurra áranna til verðlags á því síðasta með vísitölu neysluverðs. Eftirlaunin nema 1,82% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár í fullu starfi, en hlutfallslega lægri fyrir lægra starfshlutfall, þar til 72,8% eftirlaunahlutfalli er náð.
Aldursdeild (af vef lifbank)
Í Aldursdeild er starfsmanni heimilt að láta af störfum með rétti til eftirlauna 67 ára gamall. Heimilt er að láta af störfum 65 ára og hefja töku lífeyris, en þá skerðast eftirlaunin um 0,6% fyrir hvern mánuð sem vantar á að 67 ára aldri sé náð. Í Aldursdeild gildir engin 95 ára regla eins og í Hlutfallsdeildinni. Sjóðfélagi sem orðinn er 67 ára og heldur áfram störfum, hækkar lífeyrinn um 0,6% fyrir hvern mánuð sem hann vinnur umfram 67 ára aldur.
Við útreikning eftirlauna er miðað við grundvallarlaun í janúar 1998 og eru þau uppreiknuð miðað við neysluvísitölu sem þá var 181,4 stig.
Upphæð eftirlauna í Aldursdeild er hundraðshluti grundvallarlauna og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda viðkomandi, margfölduðum með 1,6 samkvæmt 19. grein í 3. kafla Samþykkta sjóðsins.
Séreignarsparnaður
Félagsmaður SSF sem er aðili að aldursdeild fær eftir þriggja ára starf greidd 7% af launum frá vinnuveitanda inn í viðbótarlífeyrissparnað, en fram að þriggja ára starfstíma fær hann greitt 5,5% (var 2% til 31.12.2019) af launum í viðbótarlífeyrissparnað.
Auk þess getur starfsmaðurinn sjálfur lagt fram 2-4% af launum til viðbótar og fengið 2% mótframlag frá vinnuveitanda að auki.
Rétt er að hafa í huga áður en byrjað er að hefja töku viðbótarlífeyrissparnaðar að slíkur sparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti og einnig þarf að hafa í huga að tekjuskattur er greiddur við úttekt.
Tryggingar og bætur
Í 7. kafla kjarasamninga SSF kemur fram að félagsmenn SSF eru slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku sbr grein 7.1, og einnig njóta félagsmenn hóplíftryggingar sbr. grein 7.2.
Bótaupphæðir þessara trygginga breytast tvisvar á ári í samræmi við vísitöluhækkanir.
Sérstaklega er áréttað að líkamstjón sem leiðir til örorkumats verður að tilkynna til viðkomandi tryggingafélags innan árs frá tjóndegi. Ef það er ekki gert fellur bótaskylda tryggingafélags niður.
Tölur sem eru í gildi eru eftirfarandi (sjá nánar í texta í áðurnefndum greinum kjarasamnings):
Tryggingafjárhæðir samkvæmt kjarasamningum SSF, uppfærðar fjárhæðir miðað við apríl 2024 og breytast mánaðarlega m.v. vísitölu neysluverðs.
Vísitala neysluverðs í febrúar 2024 er 615,4 stig
Einhleypur barnlaus og ekki fyrir foreldri að sjá 2.306.877
Einhleypur barn/börn 7.407.100
Hinn látni í hjúskap/sambúð 10.196.007
Lætur eftir sig börn innan 18 ára 3.391.565 (hvert barn)
Varanleg hámarksörorka 68.268.914
Vinnuréttur
SSF gerir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA). Fyrir hrun gerði SSF (SÍB þar á undan) kjarasamninga við samninganefnd bankanna, en fljótlega eftir hrun fóru bankarnir að gefa SA fullt umboð til þess að gera kjarasamninga við SSF. SSF er því hluti af almenna markaðnum svokallaða við gerð kjarasamninga.
Kjarasamningur SSF ber þó enn keim af þeim tíma sem SÍB samdi beint við banka í eigu ríkisins, sérstaklega ef horft er til réttindahluta samningsins þar sem réttindi eru oft með svipuðum hætti og á opinbera vinnumarkaðnum og þannig stundum betri en gengur og gerist á almenna markaðnum.
Eftir að SSF sagði upp samkomulagi um kjarasamninga bankamanna sumarið 2023 eru samtökin algerlega undir íslensku vinnulöggjöfinni eins og gildir um öll stéttarfélög á Íslandi.
Auðvelt er að glöggva sig á réttarstöðu félagsmanna í SSF með því að rýna í kjarasamninginn. Sé það ekki nóg er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu SSF og spyrjast fyrir um þau atriði sem vafi kann að ríkja um.
Til þess að fræðast almennt um vinnurétt á Íslandi má skoða vinnuréttarvef ASÍ þar sem fjallað er ítarlega um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, ráðningarsamninga og flest annað sem tengist íslenskum vinnumarkaði, auk þess sem lítillega er fjallað um alþjóðlegan vinnurétt.
Á Vinnuréttarvef ASÍ er fjallað um öll helstu réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda með vísan til laga, dóma og kjarasamninga. Þar er reynt er að haga framsetningu þannig að umfjöllunin sé aðgengileg bæði fyrir launafólk sem vill skoða réttarstöðu sína, atvinnurekendur og lögfræðinga. Byrjað er á því að fjalla um stofnun ráðningarsambands, launin og öll helstu réttindi og skyldur aðila meðan ráðningarsamband varir. Síðan er fjallað um lok ráðningarsambands sem getur orðið með ýmsum hætti og þá hver réttarstaða launafólks er í framhaldinu. Flest gildir þetta um félagsmenn SSF eins og önnur stéttarfélög, en sums staðar er réttur félagsmanna SSF betri, t.d. hvað varðar uppsagnarfresti og veikindarétt.
Á hverju ári fellur hér á landi fjöldi dóma á sviði einstaklingsbundins vinnuréttar bæði héraðs- og hæstaréttardómar. Af hálfu ASÍ er reynt að uppfæra vinnuréttarvefinn með tilliti til þess, bæði til fyllingar og breytinga eftir því hvað við á. Það sama gildir um dóma EFTA-dómstólsins, dómstóls Evrópusambandsins og niðurstöður Eftirlitsstofnunar ESA en allt getur þetta haft áhrif á þróun vinnuréttar hér á landi og réttarstöðu launafólks.
Efnisval
- Lífeyrismál
- Tryggingar og bætur
- Vinnuréttur