Beint í efni

Veikindi

Veikindaréttur skv. kjarasamningi

Ef starfsmaður veikist og getur af þeim sökum ekki sótt vinnu skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum og verður þá ákveðið hvort læknisvottorðs skuli krafist.

Lágmarks veikindaréttur fastráðinna starfsmanna er 3 mánuðir á fullum launum og þar á eftir 3 mánuðir á hálfum launum.  Athugið að við 10, 15 og 20 ára starfsaldur lengist veikindarétturinn (starfsaldur þar sem greitt hefur verið félagsgjald til SSF), sjá nánar í kjarasamningi SSF.

Skýringartafla fyrir veikindarétt:

Lausráðnir starfsmenn
1 mánuður á óskertum launum + 1 mánuður á hálfum launum

Fastráðnir starfsmenn
3 mánuðir á óskertum launum + 3 mánuðir á hálfum launum á 12 mánaða tímabili
Eftir 10 ára starf
4 mánuðir á óskertum launum + 4 mánuðir á hálfum launum á 12 mánaða tímabili
Eftir 15 ára starf
6 mánuðir á óskertum launum + 6 mánuðir á hálfum launum á 12 mánaða tímabili
Eftir 20 ára starf
12 mánuðir á óskertum launum

Ef til þess kemur að veikindaréttur félagsmanns klárast, eða lækkar í hálf laun, þá á viðkomandi rétt á sjúkradagpeningum úr Styrktarsjóði SSF, sjá nánar í úthlutunarreglum sjóðsins.

Nánar má lesa um veikindaforföll og veikindarétt í Kjarasamningi SSF og Trúnaðarmannahandbók SSF.

Veikindi barna

Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. 

Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við. Sama á við um börn undir 16 ára aldri þegar veikindin eru það alvarleg að þau leiði til sjúkrahúsvistar í a.m.k. einn dag.

Með foreldri er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann, sem er framfærandi barns og komi þá í stað foreldris.

Sjúkradagpeningar

Vinsamlega gætið þess að fylla umsókn vel og skilmerkilega út og flýtið þannig fyrir afgreiðslu með réttum upplýsingum.

Sótt er um sjúkradagpeninga á mínum síðum á vef SSF.

VIRK

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun með aðild allra helstu samtaka stéttarfélaga og atvinnurekenda á vinnumarkaði.

Efnisval

  • Veikindaréttur skv. kjarasamningi
  • Veikindi barna
  • Sjúkradagpeningar
  • VIRK