Beint í efni

12. september 2025

LAUNAVIÐTAL ER ÞITT TÆKIFÆRI TIL UMBÓTA

Nú þegar ný launakönnun er handan við hornið er ekki úr vegi að rifja eitt og annað upp.

Samkvæmt niðurstöðum launakönnunarinnar frá 2023 höfðu 61,9% svarenda ekki óskað eftir launaviðtali á síðustu 12 mánuðum fyrir könnunina. 31,4% óskuðu eftir launaviðtali og fengu það og 73,4% þeirra sem óskuðu eftir launaviðtali fengu jákvæða niðurstöðu þar sem kjör breyttust mjög til hins betra.
Oft ber umræða um launaviðtalið með sér neikvæðar skoðanir innan raða félagsmanna SSF, en niðurstöður fyrri kannana benda til þess að þeir sem fara þessa leið ná oftar en ekki einhverjum árangri.

En er það núna sem ég þarf að biðja um hærri laun? Eða er kannski betra að bíða?

Það getur verið erfitt að finna réttan tíma fyrir spjall um laun við yfirmanninn. En í rauninni er hvaða tími sem er góður tími. Það þarf bara að passa upp á að vanda sig og auðvitað er nauðsynlegt að undirbúa sig vel vilji maður fá launahækkun út úr samtali við yfirmann sinn.
Launaviðræður er ekki eitthvað sem maður gerir með hangandi hendi. Gott er að afla sér upplýsinga, lesa sér örlítið til og skoða launaþróun síðustu missera.

Mikilvægt er að undirbúa yfirmanninn undir kröfur til hans og væntingar til launaviðræðna með góðum fyrirvara, svo ekki verði um óvænt áhlaup að ræða. Skyndilausnir eru sjaldgæfar í kjaraviðræðum. Þetta er oft ferli sem tekur langan tíma og þess vegna þarf stundum að leita að einhverjum óformlegum tilefnum til að sá fræum og vekja athygli á því sem þú vilt semja um. Eftir það þarft þú að setja fram metnaðarfullar en um leið raunhæfar kröfur.
Í viðræðunum sjálfum er höfuðatriði að það sért þú, en ekki yfirmaðurinn, sem kemur með tillögur þannig að það séu þínar óskir og kröfur sem verði upphafspunktur samningaviðræðnanna. Launþeginn þarf einnig að vera búinn undir að samningaviðræðurnar byrja á neitun. Það má hins vegar ekki slá því föstu að nei sé endanlegt svar og það sé óbreytanlegt. Það er mikilvægt að fólk temji sér bjartsýni og þrautseigju og forðist að verða persónulegt, til dæmis með því að láta í ljós reiði eða gremju. Þú þarft að standa á þínum kröfum og ekki agnúast út í yfirmanninn.

Einbeittu þér að því að komast að því hvað þarf til þess að þú fáir óskir þínar uppfylltar. Svekkelsi er óþarft þó þú gangir ekki út af skrifstofu yfirmannsins með möguleika á hærri launum í fyrsta skipti sem þú reynir. Samræður um laun eru ferli sem tekur tíma og það getur þýtt að þú munt jafnvel upplifa neitun nokkrum sinnum áður en þú færð jákvætt svar. Ef þú færð já strax upphafi er auðvitað möguleiki á því að þú hafir selt þig of ódýrt!

Allt starfsfólk í fjármálageiranum á rétt á árlegu starfsmannaviðtali við yfirmann til þess að ræða breytingu á starfskjörum skv. gr. 1.6 í kjarasamningi, svo það er um að gera að byrja að undirbúa sig.

Fljótlega munum við setja inn á vefinn kynningar- og leiðbeiningaefni um launaviðtalið fyrir félagsmenn til að styðjast við.

Dagsetning
12. september 2025
Deila