skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Verkföll yfirvofandi hjá finnskum fyrirtækjum í fjármálaþjónustu

Verkföll yfirvofandi hjá finnskum fyrirtækjum í fjármálaþjónustu

Heikki Jokinen / www.proliitto.fi

Umræður um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn fjármálafyrirtækja eru að sigla í strand. Verkalýðsfélagið Pro hefur lýst yfir verkfallsaðgerðum í mars og apríl í þeim tilgangi að flýta fyrir samningaumræðum.

Helsta ástæðan fyrir þráteflinu í samningaumræðum er ósveigjanleg krafa atvinnurekenda um einhliða stjórnun á vinnutíma, þ.m.t. helgarvinnu. Krafa um launahækkun hefur heldur ekki hlotið hljómgrunn.

Antti Hakala, forstöðumaður fjármálageira stéttarfélagsins Pro segir að félagið sé reiðubúið að gera samning um helgarvinnu á tilteknum vinnustöðum sem byggist á þörfum bæði atvinnurekanda og starfsmanna. Atvinnurekendur vilja hins vegar ekki samþykkja það fyrirkomulag og kjósa sjálfir að ráða því hvort unnið sé um helgar.

– Meirihluti félaga í stéttarfélaginu Pro eru reiðubúnir til að vinna um helgar. Til þess að koma til móts við kröfur viðskiptavina ætti að vera hægt að finna lausn innan fyrirtækja í samráði við starfsmenn, segir Hakala.

Samningaviðræður síðan í október

Viðræður um nýja kjarasamninga fyrir fjármálageirann hafa átt sér stað frá því í október sl. en engin niðurstaða hefur náðst hingað til. Núgildandi kjarasamningur rann út í nóvember 2017.

Sáttasemjari finnska ríkisins, Minna Helle, hefur reynt að ná sáttum milli deiluaðila frá því í desember sl. en þær umræður hafa ekki leitt til niðurstöðu sem báðir aðilar geta sætt sig við. Hún tilkynnti í marsbyrjun að hún myndi eingöngu halda kjaraviðræðum áfram ef báðir aðilar væru tilbúnir að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum.

Stéttarfélagið Pro hefur lýst því yfir að það vilji halda áfram viðræðum um kjarasamninga og það hefur boðað til verkfalla í þeim tilgangi. Verkföllin ná til OP Financial Group 26.-29. mars og Danske Bank ásamt fleiri bönkum 9.-12. apríl.

Stéttarfélagið Nousu, sem er í forsvari fyrir starfsmenn Nordea bankans hefur sent frá sér verkfallsviðvörun vegna Nordea bankans 3-6. apríl nk.

Tvisvar hefur verið gripið til verkfallsaðgerða meðal bankastarfsmanna, í desember og í janúar.

Fulltrúar stéttarfélaga og atvinnurekenda munu funda næst í húsnæði ríkissáttasemjara föstudaginn 16. mars.

Stéttarfélagið Pro undirbýr nú samstöðuaðgerðir í öðrum geirum. Félagið er aðili að 60 kjarasamningum í iðnaði-, þjónustu- og upplýsinga- og samskiptatæknigeirunum.

Stéttarfélagið Pro er stærsta stéttarfélag í einkageiranum fyrir skrifstofufólk og jafnframt stærsta aðildafélagið í finnska starfsgreinasambandinu (the Finnish Confederation of Professionals STTK).

Search