skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Verkefnin ráða vinnuumhverfinu

Verkefnin ráða vinnuumhverfinu

edda_hermannsd_Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, segir miklar breytingar fyrirhugaðar hjá bankanum nú í haust þegar hann kveður Kirkjusand og flytur höfuðstöðvar sínar í Íslandsbankaturninn í Smáralind í Kópavogi. 

Í turninum munu 650 starfsmenn starfa í 8.600 fermetrum og vinnuaðstaðan verður talsvert breytt frá því sem nú er. „Við munum taka upp verkefnamiðað vinnuumhverfi í nýju höfuðstöðvunum. Hver starfsmaður mun því ekki eiga fasta vinnuaðstöðu heldur velur hann sér vinnuaðstöðu sem hentar þeim verkefnum sem hann vinnur hverju sinni,“ segir Edda.

Segja má að verkefnamiðað vinnuumhverfi sé svar við hinu hefðbundna opna vinnurými sem algengt er á stórum vinnustöðum á Íslandi. Í opnu vinnurými á hver starfsmaður jafnan sína föstu vinnustöð óháð því hvers konar verkefni hann vinnur og hvort hann þurfi næði eða þurfi að eiga samskipti við aðra starfsmenn.

„Í verkefnamiðuðu vinnurými getur starfsmaður hins vegar stýrt vinnuaðstöðunni í samræmi við verkefnin hverju sinni,“ segir Edda. „Þannig verður t.d. þagnarrými í nýju höfuðstöðvunum sem minnir á bókasafn. Það rými er ætlað fyrir  verkefni sem krefst mikillar einbeitingar, ef starfsmenn þurfa að leysa verkefni saman þá geta þeir notað hópvinnurými og eins verða hefðbundnar vinnustöðvar í boði.“

Ný vinnuaðstaða Íslandsbanka er byggð upp að erlendri fyrirmynd. Bankarnir DNB í Noregi og ING í Hollandi hafa tekið upp verkefnamiðað vinnuumhverfi og er reynsla þeirra góð. Skipulagið þykir henta stórum vinnustöðum afar vel og hefur þótt styrkja samstarf á milli deilda og sviða. Þá þykir skipulagið gera umhverfið árangursríkara þar sem starfsmenn geta betur stjórnað því í hvernig umhverfi þeir leysa verkefni sín.

„Í Íslandsbankaturninum verður tryggt að nóg pláss verði fyrir alla starfsmenn,“ segir Edda. „Á hverri hæð verða á bilinu 110 til 120 starfsmenn og sæti fyrir um 190 starfsmenn. Þá eru talin með fjölnota rými eins og fundarherbergi, félagsrými og kaffistofur.“

 

Search