skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

UM ORLOF

UM ORLOF

Nú þegar líður að sumarfríum er gott að fara yfir nokkur atriði varðandi orlofsmál. Fyrst ber að nefna að það tímabil sem starfsmaður er að vinna sér inn orlofsrétt er kallað orlofsár og er samkvæmt kjarasamningi SSF frá 1. maí til 30. apríl. Í kjarasamningi SSF (kafla 4) er lágmarksorlof 24 vinnudagar. Starfsmaður, sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári, skal fá orlof í tvo vinnudaga fyrir hvern unninn mánuð. Þeir sem starfað hafa í 5 ár samkvæmt kjarasamningi SSF fá leyfi í 27 daga og þeir sem hafa starfað í 10 ár fá 30 daga. Starfsmaður sem öðlast hefur lengri orlofsrétt hjá öðrum vinnuveitanda en fjármálafyrirtæki fær hann að nýju eftir þriggja ára starf. Varðandi lengingu orlofs eftir 5 og 10 ár þá tekur sú lenging aðeins gildi ef starfsaldrinum er náð fyrir 1. maí það ár sem orlof er tekið.

Dæmi: Anna hefur unnið í 5 ár í banka þann 30. apríl 2018 og á hún því 27 daga orlof sumarið 2018. Jón hinsvegar, hefur unnið í 4 ár og 11 mánuði þann 30. apríl 2018 og hann á því ekki 27 daga orlofsrétt fyrr en sumarið 2019.

Nokkurs misskilnings hefur gætt varðandi orlofstíma og lengingu orlofs sem tekið er utan hefðbundins orlofstíma. Í kjarasamningi SSF (grein 4.4) kemur fram að hefðbundinn orlofstími sé frá 15. maí til 30. september ár hvert. Ef geymt orlof er hinsvegar tekið á tímabilinu frá 1. október til 14. maí lengist það orlof um ¼ hluta. Þegar orlof er flutt á milli orlofsára þá fæst ekki lenging á þá orlofsdaga.

Dæmi: Anna hafði unnið sér inn 24 orlofsdaga þann 30. apríl 2017. Hún tók aðeins 15 daga sumarfrí sumarið 2017 þar sem hún ætlaði í utanlandsferð þá um haustið. Utanlandsferðin var vikuferð í desember en þar sem orlofið var tekið utan hefðbundins orlofstíma dugðu 4 orlofsdagar á móti 5 frídögum frá vinnu. Anna á því 5 daga í ótekið orlof þann 30. apríl 2018 og á því samtals 29 orlofsdaga sumarið 2018.

Rétt er að benda á að starfsreglur fjármálafyrirtækja geta takmarkað heimild starfsmanna til að taka orlof utan hefðbundins orlofstíma, að sama skapi er rétt að starfsmenn kynni sér reglur vinnuveitanda varðandi flutning orlofs á milli orlofsára.  

Starfsmaður og yfirmaður hafa samráð um það hvenær orlof skal tekið (grein 4.5). Nú er það svo að ástæðan fyrir því að starfsmenn fá orlof er þörfin fyrir hvíld. Því hefur SSF lagt áherslu á að félagsmenn taki minnst þriggja vikna samfellt sumarfrí þannig að um raunverulega hvíld sé að ræða.

Veikist starfsmaður í orlofi telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður veikindi sín með læknisvottorði.

Eins og fram hefur komið fer lengd orlofs fyrst og fremst eftir starfsaldri hjá þeim fyrirtækjum sem greiða laun samkvæmt Kjarasamningi SSF og er því mikilvægt að samanlagður starfsaldur sé rétt skráður hjá vinnuveitanda. Starfsmaðurinn sjálfur ber ábyrgð á því að svo sé. Alla jafna er auðsótt að fá útgefið starfsvottorð frá fyrri vinnuveitanda (fjármálafyrirtæki skv. kjarasamningi SSF) sem síðan er skilað til launadeildar hjá núverandi vinnuveitanda.

Search