skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Þú átt rétt á launaviðtali

Þú átt rétt á launaviðtali

Í kjarasamningi SSF segir um starfsmannaviðtöl (oft nefnd launaviðtöl í daglegu tali) að starfsmaður eigi rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári um störf sín og hugsanlega breytingu á starfskjörum. Jafnframt segir að veita eigi slíkt viðtal innan tveggja mánaða. Í launaviðtali er ekki einungis verið að semja um laun heldur einnig um vinnuframlag og mikilvægi starfsmannsins og horft til þeirra þátta er snúa að starfsumgjörð viðkomandi.

Starfsmannaviðtöl hafa verið við lýði hér á landi í þó nokkuð mörg ár en uppruna þeirra hér á landi má rekja til frumkvæðis nokkurra rótgróinna fyrirtækja í byrjun 9 áratugar síðustu aldar. Frumkvæðið var fólgið í því að fyrirtækin innleiddu hjá sér frammistöðumat sem var notað þegar kom að árangurs- eða frammistöðustjórnun hjá fyrirtækjunum. Með tilkomu þessarar þróunar hefur verið komið á mun sanngjarnari aðferð við að meta launakröfur viðkomandi starfsmanns frá því sem áður var þegar laun og launaþróun var ákveðin með einhliða ákvörðun stjórnenda án viðræðna. Reynslan sýnir að þeir sem nýta sér viðtölin eru talsvert líklegri til að hafa hærri laun en sá sem kallar ekki eftir þeim. Þá hafa verið gerðar kannanir hjá stéttarfélögunum sem sýna að launaviðtöl skili umtalsverðum árangri, m a í að jafna laun kynjanna. Árið 2008 gerði Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar könnun sem sýndi að yfir helmingur félagsmanna hafði á undanförnu ári farið í launaviðtal.

Vertu undirbúin(n)

Til að starfsmannaviðtalið gagnist sem best fyrir viðkomandi starfsmann er nauðsynlegt að koma undirbúin til fundarins. Mikilvægt er að starfsmaðurinn sé búinn að reyna að sjá fundinn fyrir sér, vera tilbúinn til þess að rökræða um sínar áherslur og setja niður á blað þá áherslupunkta sem hann vill koma á framfæri sem tengjast starfi viðkomandi eða launakröfum.

Hvernig ber að undirbúa sig? Eins og áður segir þá er gott að vera búin að sjá viðtalið fyrir sér og kortleggja það sem maður ætlar að koma á framfæri. Við undirbúning er gagnlegt að velta eftirfarandi punktum fyrir sér:

• Vertu búin að kynna þér launin þín, ráðningarsamning og meta markaðsvirði þitt. Hægt er að fara inn á launareiknivél inni á vefsvæði SSF þar sem hægt er að bera sín laun við laun í fjármálafyrirtækjum, skv launakönnunum SSF miðað við tilteknar forsendur.

• Hvert er markaðsvirði þekkingar þinnar, er eftirspurn eftir þinni þekkingu á vinnumarkaðinum, hvert er framboðið af þekkingu þinni og reynslu innan fyrirtækisins eða á vinnumarkaðinum?

• Hverjar eru launakröfur þínar? Hvað getur þú fallist á í laun? Hvað telur þú þig eiga skilið að fá í laun? Hverjar eru fjárhagslegar þarfir þínar?

• Getur þú rökstutt réttmæti launakrafna þinna?

• Vertu tilbúin að segja frá því hvernig þú hefur vaxið í starfi, hvernig þér hefur til tekist að leysa úrlausnarefni og hvar þú sjáir sjálfa þig innan fyrirtækisins eftir þrjú ár?

Minnisatriði fyrir viðtalið. Að undirbúningi loknum getur verið gott að leggja eftirfarandi punkta á minnið:

• Mundu að vera jákvæð og nálgast viðtalið með jákvæðu hugarfari

• Reyndu að slaka á og mæta afslöppuð. Það er ekkert óeðlilegt við það að vera stressuð fyrir og í viðtalinu

• Ef þess gefst kostur skaltu láta yfirmanninn um að vera fyrri til í að nefna tölu eða hlunnindi þegar kemur að umræðum um launakröfur

• Aldrei segja: „Ég verð að fá X háa upphæð í laun“. Það er eitt að vera kröfuhörð en illa fram settar launakröfur geta virkað sem tilætlunarsemi, vanþakklæti eða frekja

• Mundu eftir „GÆS“, „GÆS“ er skammstöfun fyrir einkunnarorð sjálfsstyrkingar „ég get, ég ætla og ég skal“

• Aldrei skal segja ósatt um fyrri laun sín, það getur veikt samningsstöðu þína

• Ágætt er að skrifa niður punkta eftir viðtalið, hvernig það fór fram, hverjar voru þínar kröfur, hver voru viðbrögðin o.s.frv. Þannig getur þú mætt enn betur undirbúin í næsta viðtal.

Grein 17 í kjarasamningi SSF. Ákvæði um starfsmannaviðtöl/launaviðtöl voru innleidd í kjarasamning SSF árið 2012 og tók gildi 1. feb. það ár. Greinin felur í sér að starfsmaður eigi rétt á viðtali við yfirmann sinn einu sinni á ári um störf sín og hugsanlega breytingu á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali skal það veitt innan tveggja mánaða.

Í fylgiskjali kjarasamningsins kemur fram eftirfarandi bókun sem leggur áherslu á að réttur til viðtals sé virtur:

Markmiðið með starfsmannaviðtali er að bæði yfirmaður og starfsmaður geti tjáð sig um starfið og tengd mál. Til að starfsmannaviðtalið verði sem gagnlegast er æskilegt að aðilar ræði þau málefni sem snúa að starfi starfsmanns, t. d. eftirfarandi umræðuefni:

  •  Helstu verkefni í starfinu
  • Starfið sjálft og vinnuálag. Þekking starfsmannsins, fjöldi verkefna, verkefnastjórnun og ánægja í starfi
  • Starfsumhverfi, starfsskilyrði og vinnuaðstaða
  • Samskipti við vinnufélaga, viðskiptavini og stjórnendur
  • Upplýsingaflæði
  • Starfsandinn á vinnustaðnum og endurgjöf næsta yfirmanns til starfsmanns
  • Starfsþróun og markmið
  • Núverandi starfssvið, námskeið og markmið t. d. til næstu 12 mánaða
  • Önnur starfskjör.

Starfsþróunarviðtöl

Svokölluð starfsþróunarviðtöl sem fyrirtækið ákveður einhliða að framkvæma ár hvert er ekki það sama og starfsmannaviðtöl (launaviðtöl). Starfsmenn sjálfir óska eftir starfsmannaviðtali við yfirmann sinn, samkvæmt kjarasamningum, þegar þeir telja þörf á að ræða starfið og starfskjör, þar með talin launakjör og eiga rétt á slíku viðtali einu sinni á ári. Aftur á móti þá eru starfsþróunarviðtöl einhliða ákvörðun fyrirtækisins sem sér um að boða starfsfólk sitt í slíkt viðtal.

Search