skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

ÞING SFF 2022 – ÁLYKTANIR NEFNDA

ÞING SFF 2022 – ÁLYKTANIR NEFNDA

Eins og félagsmönnum er kunnugt þá lauk þingi SSF fyrir helgi.  Á þinginu er stefna SSF mörkuð til næstu þriggja ára í senn með ályktunum þings og fara þær hér á eftir.  Ný stjórn var kjörin og óskum við henni til hamingju með kjörið (sjá frétt frá 19. mars þar um).

Nýr formaður SSF er Ari Skúlason og tekur hann við keflinu af fráfarandi formanni til 27 ára, Friðberti Traustasyni sem við þökkum frábær störf.  Óskum Ara til hamingju með formannssætið og velfarnaðar í starfi.

 

Við þökkum þingfulltrúum öllum frábært starf á þinginu sem og þingforsetunum Helgu Jónsdóttur og Sigurjóni Gunnarssyni og þingriturunum Gísla Loga Logasyni og Margréti B. Marteinsdóttur.

Fundargerð þingsins verður birt á vefsíðu SSF um leið og hún er tilbúin og þar geta félagsmenn kynnt sér betur það sem fram fór á þinginu.

Nefndir lögðu fram eftirfarandi ályktanir á 48.  þingi SSF á Selfossi 17.-18. mars 2022 sem voru allar samþykktar:

Stefnumótun fyrir SSF – Allsherjarnefnd 1

Fyrir þinginu lágu stefnumótunartillögur sem hafði verið unnið að á vegum stjórnar samtakanna í tæpt ár. Segja má að í þessu starfi hafi verið fjallað um nær allt í stefnu og starfi samtakanna og öllum steinum velt. Meginþættir þessarar stefnumótunar voru eftirfarandi og sýna áherslur samtakanna á næstu árum.

 • Greina launauppbyggingu
 • Gefa út stefnu um fjarvinnu
 • Uppfæra tækniþróunarákvæði kjarasamnings
 • Koma á virkum samskiptavettvangi við/fyrir trúnaðarmenn
 • Endurskilgreind ritnefnd setji fram og fylgi eftir skýrri útgáfuáætlun
 • Skilgreina umbótaverkefni og fá aðkeypta aðstoð til að vinna verkefnið með skrifstofu
 • Efla skrifstofu

Fjallað var um stefnuna í Allsherjarnefnd 1 og var hún samþykkt þar. Þá samþykkti Allsherjarnefnd 1 að:

 • beina því til stjórnar að halda rafrænan fund áður en gengið er til kosninga um kjarasamninginn þar sem innihald þeirra er kynnt félagsmönnum og þeim gefið tækifæri til að spyrja út í einstök atriði. Að auki skuli haldinn annar fundur að lokinni undirritun kjarasamnings þar sem niðurstöður eru kynntar félagsmönnum.

Allsherjarnefnd 2

Þessi nefnd fjallaði um heimavinnu og fjarvinnustefnu fyrir SSF. Nefndin samþykkti að:

 • beina því til fjármálafyrirtækja að þau setji sér fjarvinnustefnu í samráði við SSF, sem sett verði inn sem liður í kjarasamningi. SSF útbúi umgjörðina um fjarvinnustefnu.
 • beina því til samninganefndar að fjármálafyrirtæki geri samning við starfsmenn og hafi til hliðsjónar sniðmát SA um fjarvinnu og Vinnueftirlitsins.
 • beina því til samninganefndar að sett verði í kjarasamning liður um að gerður sé fjarvinnusamningur milli vinnuveitanda og starfsmanns.
 • beina því til samninganefndar að fjármálafyrirtæki geri að markmiði félagsins að starfsfólk sé jafnsett í fjarvinnu og á starfsstöð hvað varðar aðstöðu, búnað o.s.frv.
 • beina því til fjármálafyrirtækja að öryggi starfsmanna verði tryggt í samræmi við öryggisstefnu fyrirtækis, hver eiga viðbrögð starfsmanns að vera við öryggisbrest í fjarvinnu.

Fjárhagsnefnd

Nefndin samþykkti að félagsgjald til SSF verði óbreytt eða 0,7% af heildarlaunum og þar af renni 0,05% til Grunnsjóðs sem var áður 0,15%. Áfram verður gert hlé á greiðslum til Vinnudeilusjóðs.

Nefndi lagði fram fjárhagsáætlun fyrir SSF og sjóði SSF fyrir árin 2022-2025, sem þingið samþykkti, sem og óbreytt laun stjórnar þetta stjórnartímabil.

Fræðslunefnd

Fræðslunefndin fjallaði um fræðslu og samskiptamál samtakanna. Nefndin samþykkti að:

 • beina því til stjórnar að blaðaútgáfa verði hér eftir eingöngu á rafrænu formi.
 • trúnaðarmenn fái fróðleiksmola mánaðarlega um t.d. kjör, réttindi og annað áhugavert efni. Með því viljum virkja trúnaðarmenn í starfi félagsins sem og að gera þá og SSF sýnilegri.
 • beina því til stjórnar að trúnaðarmannanámskeið á vegum SSF verði haldin 1-2 á ári fyrir alla trúnaðarmenn óháð reynslu. Einnig verði styttri námskeið og fræðsla haldin rafrænt.
 • beina því til stjórnar að námsstyrkur á hverju misseri verði áfram 80% af námskeiðsgjöldum, þó aldrei hærri en 175.000kr.

Kjaranefnd

Nefndin samþykkti að :

 • beina því til saminganefndar að lögð verði áhersla á prósentuhækkun launa.
 • beina því til samninganefndar að ljúka vinnu við að útbúa ramma í kringum fastlaunasamninga með tilliti til vinnuframlags og fjölda vinnustunda.
 • beina því til samninganefndar að auka vinnutímastyttingu.
 • beina því til samninganefndar að semja um hækkun iðgjalds vinnuveitanda í samtryggingarlífeyrissjóð.
 • beina því til samninganefndar að semja beint við fjármálafyrirtækin án aðkomu þriðja aðila.

 

Search