skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Streita – þekkir þú einkennin?

Streita – þekkir þú einkennin?

Streituvaldar geta verið tvenns konar: Innri streituvaldar: Áhyggjur, óþarfa hugsanir, ótti eða kvíði. Ytri streituvaldar: Utanaðkomandi áreiti, verkefni og breyttar aðstæður.
Gott er að átta sig á eigin streituvöldum. Er það hugurinn eða er streitan utanaðkomandi álag eða aðstæður? Með því að þekkja andleg og líkamleg viðbrögð við streitu verðum við fær um að meta hvenær við erum „eðlilega stressuð“ og hvenær ástandið nálgast það að vera vandamál. Streitueinkenni eru vísbendingar um að kominn sé tími til að hægja á sér. Mikilvægt er að átta sig á streituvöldum í lífi sínu og komast að því hvort verið sé að skapa sér eigin streitu eða ekki. Gott er að gera greinarmun á því sem er mikilvægt, því sem við getum haft áhrif á og/eða hvort ástandið sé tímabundið eða viðvarandi.

Hversu oft…

…upplifir þú þig ekki hafa nægan tíma til að gera hluti sem þú hefur ánægju af?

…óskar þú þess að fá meiri stuðning/aðstoð í starfi?

…hefur þú ekki nægan tíma til að klára verkefni?

…átt þú í erfiðleikum vegna neikvæðra hugsana?

…upplifir þú fólk vænta of mikils af þér?

…finnur þú fyrir yfirþyrmandi tilfinningu?

…gleymir þú eða missir fókus vegna þess að það er of mikið að gera?

…upplifir þú þig undir álagi og pressu?

…upplifir þú erfiðleika í samskiptum inni á vinnustaðnum?

…finnst þér þú bera of mikla ábyrgð á öðrum?

…upplifir þú þig örmagna við lok dags?

Starfsmenn eru ólíkir og hafa mismunandi þolmörk og ólík bjargráð til að takast á við streitu í starfi. Eitthvað sem veldur mér streitu í starfi þarf ekki að valda öðrum streitu. Þegar verið er að rýna í streitu innan vinnustaða þarf að taka mið af heildinni og svo einstaklingum. Ef streitan liggur í samskiptum innan vinnustaðarins þarf stjórnandi að höggva á hnútinn. Ef streitan liggur í ómarkvissum starfslýsingum eða hlutverkum þarf að taka á því. Ef stjórnandinn er streituvaldur þarf að koma því áleiðis til yfirstjórnar og brjóta upp ástandið.

Search