skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Stafræn hæfniþróun hjá starfsmönnum Danske Bank

Stafræn hæfniþróun hjá starfsmönnum Danske Bank

Grein eftir Sjur Frimand-Anda í tímaritinu FinansFokus 9. mars 2018.

Þýðing: Anna Heiða Pálsdóttir.

Danske Bank leggur áherslu á hæfniþróun sem gerir starfsmönnum bankans betur kleift að sinna störfum sínum. – Með notkun alþjóðlegs, rafræns hæfniþróunarkerfis geta starfsmenn valið þá hæfni sem þeir kjósa að þróa með sér, segir Kristin Valen Kvåle, mannauðs- og þróunarstjóri hjá Danske Bank í Noregi.

Tímaritið FinansFokus gerði nýlega könnun meðal sjö fyrirtækja í fjármálageiranum. Könnunin fór fram í janúar 2018 með tölvupósti sem sendur var til fjögurra banka og þriggja vátryggingafélaga: DNB, Danske Bank, Gjensidige, Storebrand, Handelsbanken, Nordea, Danske Bank og If. DNB, Gjensidige, Storebrand, Danske Bank og Handelsbanken hafa veitt ítarleg svör við spurningum en Nordea og Ef hafa svarað almennt. Við ætlum að fjalla um svörin frá fyrstu fimm fyrirtækjunum og að þessu sinni beinum við sjónum okkar að Danske Bank.

– Hvers konar hæfni munuð þið leita eftir á árinu 2018 og hvað hyggist þið ráða marga starfsmenn á árinu?

Kristin Valen Kvåle, mannauðs- og þróunarstjóri hjá Danske Bank í Noregi.

– Við munum ráða um það bil 100 manns á árinu. Sú færni sem við leitum að er mismunandi eftir því um hvaða svið bankans er að ræða en líkt og önnur fyrirtæki í þessum geira sjáum við fram á að auka stafræna þekkingu á öllum sviðum. Hvert sem starfið er leitum við alltaf að fólki sem býr yfir bæði góðri fagkunnáttu og persónulegum hæfileikum. Sem dæmi um hið síðarnefnda eru „people skills“ sem okkur finnst afgerandi til þess að geta veitt viðskiptavinum okkar góða ráðgjöf.

– Hversu margir starfsmenn hættu störfum hjá ykkur vegna breytinga á árinu 2017?

– Við vorum með engin formleg breytingaferli á árinu 2017.

– Hversu marga starfsmenn réðuð þið í fyrra og hvaða hæfni bjuggu þeir einstaklingar helst yfir?

– Við réðum um það bil 100 nýja starfsmenn hjá Danske Bank í fyrra og færni þeirra var á ýmsum sviðum hvað varðar menntun, reynslu og sérþekkingu.

– Hvaða tækifæri bjóðið þið upp á fyrir starfsmenn til þess að auka hæfni sína?

– Við bjóðum upp á ýmis þróunartækifæri fyrir starfsmenn. Við leggjum áherslu á hæfniþróun sem gerir starfsmenn betur í stakk búna til að sinna sínum verkefnum. Hjá Danske Bank erum við með alþjóðlegt, rafrænt hæfniþróunarkerfi sem er aðgengilegt öllum starfsmönnum. Þar geta starfsmenn valið þá hæfni sem þeir kjósa að þróa með sér og þar fá þeir marga möguleika til að auka þekkingu sína og hæfni. Við kunnum líka vel að meta þau tækifæri til hæfniþróunar sem bjóðast með samvinnu og þekkingarmiðlun milli hinna ýmsu sviða bankans og við erum stöðugt að fjölga möguleikum á því sviði.

– Hversu margir af starfsmönnum bankans nýttu sér einhvers konar endurmenntun á árinu 2017?

– Þar sem við notum að mestu leyti okkar eigin fræðslukerfi og önnur tækifæri til hæfniþróunar eru einstaklingsmiðuð, höfum við ekki tölulegar upplýsingar um það. Við erum hæfnidrifið fyrirtæki og því teljum við að starfsmenn tileinki sér aukna hæfni í daglegu starfi. Það þýðir að einstaklingur þróist með því að fást við ný verk, vinna verkefni með öðrum deildum eða greina atvinnugeira sem hafa ekki áður verið skoðaðir, bara til að nefna nokkur dæmi. Markmiðasetning starfsmanna í þróunarsamtölum við yfirmenn sína fellur einnig vel að þessari hugsun.

– Hversu hárri upphæð hafið þið ráðstafað í hæfniþróun á ári á tímabilinu 2015-2017?

– Við erum ekki með þá upphæð á hreinu þar sem við höfum ekki stofnað sérstakan kostnaðarflokk fyrir þau útgjöld. Hæfniþróun er nauðsynleg til að tryggja að við náum markmiðum okkar og hún er því samofin öllu því starfi sem fram fer í fyrirtækinu.

 

Search