skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Staða kjaraviðræðna óljós

Staða kjaraviðræðna óljós

Kjaraviðræður ganga hægt eins og allir vita sem hlusta á fréttir úr Karphúsinu við Borgartún. Tvö fjölmennustu stéttarfélög landsins (og tvö lítil) ákváðu að vísa kjaraviðræðum til Ríkissáttasemjara í lok desember á þeim forsendum að ekkert hefði gengið að ræða við atvinnurekendur (SA) án verkstjórnar sáttasemjara. Þessir aðilar hafa fundað sex sinnum án nokkurs sýnilegs árangurs. Eftir sjötta fundinn sagði einn formaður viðkomandi félags meðal annars ,,Þetta er verulega rólegt finnst mér en auðvitað eru menn að ræða saman og á meðan það er, er sjálfsagt að halda áfram“ (visir.is þann 30.1.2019)

Þessar viðræður í Karphúsinu lita allar aðrar kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði, þar sem u.þ.b. 80 kjarasamningar eru lausir. Eins og gefur að skilja fer mikil orka í að finna lausn á kjaradeilu þar sem nú þegar er hótað átökum, þar á meðal verkföllum.

Einnig er aðkoma ríkisstjórnar Íslands, og yfirlýsingar ráðherra við upphaf kjaraviðræðna, nokkuð önnur en við höfum búið við og kynnst í kjaraviðræðum síðustu árin. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að ríkið muni koma með einhver útspil á næstu dögum, sem gætu liðkað til við gerð kjarasamninga, en enginn veit (nema ráðherrar) hvert það útspil verður. Eina útspil ríkisstjórnar sem heyrst hefur er að hækka skatta verulega í formi veggjalda á suður- og vesturlandi. Meðan þessi boð um útspil ríkisstjórnar liggja í loftinu og enginn veit hvað innihalda er engin von til að gengið verði frá kjarasamningum.

Viðræðum SSF og SA (SFF) verður að sjálfsögðu haldið áfram þó stóru málin, kjarabætur, launahækkanir og vinnutími komi inn á borð á seinni stigum viðræðna.

Search