skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

SSF skoðar lögmæti hópuppsagna

SSF skoðar lögmæti hópuppsagna

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá er lögmaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) að skoða hvort brotið hafi verið gegn lögum um hópuppsagnir við framkvæmd uppsagna í Arionbanka sem tilkynnt var um 26. september. SSF telur að mjög hafi skort á að ákvæði laganna um samráð hafi verið uppfyllt, en þar er gert ráð fyrir aðkomu starfsmanna og trúnaðarmanna fyrirtækis sem áformar hópuppsagnir að ákvarðanatöku og undirbúningi slíkra aðgerða. Tilgangur samráðsins er að milda megi áhrif hópuppsagna og auðvelda flutning starfsmanna í önnur störf og endurhæfingu þeirra fyrir ný störf.

Einnig er í skoðun hver staða trúnaðarmanns er við þessar aðstæður gagnvart lögum og reglum er gilda um fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöll og þeirri þagnaskyldu sem hvílir á aðilum sem fá í hendur innherjaupplýsingar.  Tiltekið er í lögum um hópuppsagnir að trúnaðarmanni starfsmanna sé gefin kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin. Jafnframt er tiltekið í lögunum að trúnaðarmanni sé gefin sá kostur að leita til sérfræðings til aðstoðar við samráðið.

SSF telur að hópuppsögn geti ekki tekið gildi fyrr en 30 dögum eftir að tilkynnt er um slíka aðgerð til Vinnumálastofnunar og því taki réttaráhrif uppsagnar ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2019.  Hefur félagið sent Vinnumálastofnun erindi til að fá þeirra afstöðu á þessum ágreiningi.

Bréf SSF til Vinnumálastofnunar.

Search