skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Sparisjóður Suður Þingeyinga veitir samfélagsstuðning

Sparisjóður Suður Þingeyinga veitir samfélagsstuðning

Sparisjóður Suður- Þingeyjarsýslu

Fréttatilkynning

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var haldinn á Húsavík 2. maí sl. þar kom fram að rekstur sparisjóðsins gekk vel á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta var 83 mkr. skattar tæpar 13 mkr og hagnaður eftir skatta rúmar 70 mkr. Útlán jukust um 250 mkr. á síðasta ári sem er rúmlega 6% aukning frá fyrra ári. Heildareignir Sparisjóðs Suður-Þingeyinga voru í árslok 2016 um 7 milljarðar kr. og bókfært eigið fé 572 milljónir kr. og jókst um 105 mkr. á árinu. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var í lok árs 17,7%.

Fjármálaeftirlitið hefur nýlega lokið mati á eiginfjárþörf Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og er eiginfjárkrafa samkvæmt því mati 11,94%. Við þá kröfu bætast síðan eiginfjáraukar sem innleiddir eru í áföngum og verða að fullu komnir í gildi frá og með 1. janúar 2019. Þann 1. mars sl. var búið að innleiða eiginfjárauka sem nema 4,25% af eiginfjárgrunni og er heildarkrafa um eigin fé sjóðsins því nú 16,19%.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga ráðstafar jafnan hluta af hagnaði sínum til samfélagsmála á starfssvæði sjóðsins, enda slíkt lögbundið. Fram kemur í ársreikningi að sjóðurinn ráðstafaði á árinu 2016 2,8 mkr. til ýmissa samfélagsmála á starfssvæðinu. Á aðalfundi sjóðsins nú voru veittir tveir 500.000 kr. styrkir. Annars vegar til Íþróttafélagsins Völsungs sem varð 90 ára á árinu og er eitt af fyrirmyndarfélögum ÍSÍ. Hins vegar var Velferðasjóði Þingeyinga veittur styrkur en honum er ætlað að stuðla að velferð Þingeyinga með áherslu á þarfir þeirra sem höllustum fæti standa.

Í starfskjarastefnu sjóðsins sem samþykkt var kemur fram að engin árangurstengd laun verði greidd, sem er í samræmi við eðli starfsemi hans og stefnu um litla áhættusækni.

Í ræðu formanns stjórnar sjóðsins, Ara Teitssonar, kom fram að kröfur eftirlitsaðila hafi á undanförnum árum tekið drjúgan tíma stjórnar og stjórnenda sjóðsins og þannig raunar hamlað vinnu við uppbyggilegri verkefni. Jafnframt gat hann þess að upp úr bankahruninu hafi mikill fjöldi viðskiptavina flutt viðskipti sín til sparisjóðsins, sjóðurinn hefði mikinn meðbyr enn í dag og myndi hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að þjónusta viðskiptavini sína af kostgæfni. Greina mátti ákveðna bjartsýni í ræðu formanns um framtíð sjóðsins og uppbyggingu á starfsvæði hans.

Search