skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Samráð við hópuppsagnir

Samráð við hópuppsagnir

Í tengslum við álitamál um framkvæmd hópuppsagnar í Arion banka þann 26. september sl. hefur SSF látið vinna lögfræðiálit og eru helstu niðurstöður þess álits eftirfarandi.

HELSTU NIÐURSTÖÐUR

– Lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir gilda um uppsögn 102 starfsmanna Arion banka þann 26. september 2019. Reglur laga um verðbréfaviðskipti og um starfsemi kauphalla hvorki rýma út né draga úr skyldum bankans til að viðhafa samráð eða tilkynna um fyrirhugaðar hópuppsagnir.

– Arion banki virðist ekki hafa virt skyldu sína til samráðs við fulltrúa starfsmanna, skv. ákvæðum 5. og 6. gr. laga um hópuppsagnir, með neinum raunhæfum hætti. En í lögunum er tilgreint að atvinnurekanda beri eins fljótt og auðið er að hafa samráð við trúnaðarmann til að kynna og ræða um áform um hópuppsögn, rökstyðja þau og gefa trúnaðarmanni kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda. Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda flutning í önnur störf eða endurhæfingu starfsmanna sem áformað er að segja upp.

– Ekki virðist sem starfsmenn eigi rétt til viðbótaruppsagnarfrests á grundvelli 8. gr. laga um hópuppsagnir, þar sem ákvæðinu virðist, miðað við lögskýringargögn, ætlað að tryggja 30 daga lágmarksuppsagnarfrest, en ekki lengja uppsagnarfrest sé hann lengri samkvæmt ákvæðum laga, kjarasamnings eða ráðningarsamnings. Sami skilningur kemur fram í svarbréfi Vinnumálastofnunar sem fylgir hér með.

– Svo virðist sem ekki séu fyrir hendi raunhæf réttarúrræði til að bregðast við brotum á lögum um hópuppsagnir, sbr. nánari umfjöllun að neðan. Vera kann að með því að tryggja ekki raunhæf réttarúrræði hafi íslenska ríkið brotið gegn skyldum sínum til réttrar innleiðingar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 98/59/EB, sem mætti láta reyna á fyrir viðeigandi stofnunum EES-samningsins.

BREYTA VERÐUR LÖGUNUM

Stjórn SSF hefur farið ítarlega yfir málið og er það samdóma álit stjórnarinnar að ljóst sé að lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 séu miðað við framangreindar niðurstöður og með vísan í svar Vinnumálastofnunar að flestu leyti gagnslaus og veiti í raun enga vernd fyrir þorra vinnumarkaðarins.
Er sú staða með öllu óviðunandi og ekki í neinu samræmi við tilgang laganna. Þá virðist við fyrstu skoðun sem þessi niðurstaða sé ekki í samræmi við þann skilning sem lagður er í sambærileg lagaákvæði innan Evrópusambandsins en Lög um hópuppsagnir byggja á Evróputilskipun. Það leiðir SSF því að þeirri niðurstöðu að mögulega hafi Evróputilskipunin ekki verið rétt innleidd á sínum tíma. Sú réttaróvissa sem upp er komin er með öllu óásættanleg fyrir félagsmenn SSF sem og starfsfólk á almennum vinnumarkaði. Hefur SSF því þegar lagt drög að því að fylgja málinu eftir af fullum þunga og krefjast breytinga á Lögum um hópuppsagnir svo lögin veiti starfsfólki þá vernd sem þeim ber. Mun SSF leita eftir stuðningi frá öðrum stéttarfélögum og heildarsamtökum á vinnumarkaði.

RAUNVERULEGT SAMRÁÐ

Að því sögðu og þrátt fyrir þá réttaróvissu sem komin er upp telur SSF það vera ábyrgðarhlutverk fyrirtækja að fylgja þeim viðmiðum sem þó eru augljóslega sett með Lögum um hópuppsagnir og fjalla um raunverulegt samráð og þá samfélagslegu skyldu fyrirtækja að ráðast ekki í hópuppsagnir nema aðstæður séu slíkar að öll önnur úrræði hafi verið tæmd. Þannig er í lögum um hópuppsagnir gert ráð fyrir því að atvinnurekandi hefji samráðið tímanlega og áður en hann hefur tekið ákvörðun um uppsagnirnar.

Samráð felur síðan í sér þá skyldu að ræða og kynna mótaðila áformin, rökstyðja þau og gefa fulltrúa starfsmanna raunhæfan kost á að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun er tekin. Atvinnurekandi á því ekki að koma að samningaborðinu með áform sín fullmótuð og óhagganleg enda samræmist það ekki markmiðum laganna sem eru einmitt að leita leiða til að koma í veg fyrir hópuppsagnir eða í því markmiði að milda áhrif þeirra gagnvart þeim sem þær beinast að. Með því að viðhafa ekki samráð sem felur í sér raunhæfan möguleika starfsmanna til þátttöku í ákvarðanatöku er atvinnurekandi þannig að fara á svig við ákvæði laganna, til dæmis með því að einungis tilkynna trúnaðarmanni um þegar teknar ákvarðanir.

Trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna hefur í öllum tilvikum fulla heimild samkvæmt lögunum til að leita sér sérfræðiaðstoðar. Í íslensku vinnumarkaðsumhverfi hlýtur fyrsti kostur varðandi sérfræðiaðstoð ávallt að vera viðkomandi stéttarfélag, sé slíkt félag til staðar.

Hér er tengill á svarbréf Vinnumálastofnunar. Opna

Search