skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - ssf@ssf.is

Samningum náð í kjaradeilu finnskra bankamanna

Samningum náð í kjaradeilu finnskra bankamanna

Heikki Jokinen / www.proliitto.fi / 28. mars 2018

Verkfalli hjá starfsmönnum í finnska fjármálageiranum var aflýst á allra síðustu stundu. Deiluaðilar náðu samningum um nýjan kjarasamning kvöldið áður en fyrsta þriggja daga vinnustöðvunin í bönkum átti að hefjast.

Viðræður um nýja kjarasamninga fyrir fjármálageirann hafa átt sér stað frá því í október á síðasta ári. Áður gildandi kjarasamningur rann út í nóvember.

Helsta deiluefni samningsaðila hefur verið helgarvinna. Báðir aðilar eru núna tilbúnir til þess að opna fyrir fleiri möguleika á því að bankar veiti þjónustu um helgar.

Stéttarfélagið Trade Union Pro sem gætir hagsmuna starfsmanna í bankageiranum vildi að helgarvinna væri skipulögð í samræmi við staðbundna samninga og á valkvæðum grunni.

Í febrúar gerði stéttarfélagið könnun meðal félagsmanna sem leiddi í ljós að 40% starfsmanna í bankageiranum voru viljugir til þess að vinna um helgar ef helgarvinnu væri hagað þannig að þeir gætu haldið jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Atvinnurekendur vildu hins vegar ekki samþykkja það fyrirkomulag og kusu sjálfir að ráða vinnutíma, þ.m.t. helgarvinnu.

Þráteflið í samningaumræðum hafði þegar leitt til stuttra vinnustöðvana í desember og janúar.

Nýlega vöruðu stéttarfélögin Trade Union Pro og Trade Union Nousu, sem gætir hagsmuna starfsmanna í Nordea bankanum, við því að gripið yrði til þriggja stuttra verkfallsaðgerða í mars og apríl hjá OP Financial Group, Nordea Bank og Danske Bank ásamt mörgum öðrum bönkum.

Valfrjáls kostur

Sáttasemjari finnska ríkisins, Minna Helle, hefur reynt að ná sáttum milli deiluaðila frá því í desember sl.  Sunnudaginn 25. mars sl. samþykktu báðir aðilar sáttatillögu hennar. Nýi samningurinn tilgreinir að helgarvinna verði að mestu leyti umsamin í samræmi við staðbundna samninga.

Atvinnurekandi þarf að leggja greinargóða tillögu um helgarvinnu fyrir trúnaðarmann með a.m.k. níu vikna fyrirvara ef aðilum tekst ekki að semja um styttri tíma.

Vinnu á laugardögum og sunnudögum verður að mestu leyti hagað þannig hagað að starfsmaður kýs sjálfur hvort hann vinni eða ekki. Ef ekki fást nægilega margir starfsmenn í helgarvinnu getur vinnuveitandi, með nokkrum takmörkunum þó, fyrirskipað þeim að vinna um helgar.

Þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi til þess að starfsmaður geti ekki unnið um helgar, hefur hann rétt til þess að neita því.

Fyrir vinnu á laugardögum fá starfsmenn greitt 50% hærri tímakaup en 100% hærri tímakaup á sunnudögum.

„Við komum vinnuveitendum í skilning um það að þeir yrðu að semja um helgarvinnu,“ segir Antti Hakala, forstöðumaður fjármálageira stéttarfélagsins Pro. „Hver skynsamur vinnuveitandi mun núna þurfa að semja við trúnaðarmenn ef helgarvinnu er þörf.“

Hakala leggur áherslu á að Trade Union Pro hafi alltaf lagt áherslu á að helgarvinna þurfi að vera valfrjáls og taka til greina persónulegar aðstæður starfsmanns. Þessi kjarasamningur tryggir það.

Einnig er kveðið á um launahækkun í samningnum. Það ákvæði er að mestu leyti í samræmi við aðra heildarsamninga í þessari samningalotu en launahækkanir á gildistíma samningsins nema samtals 3,46%. Í mars 2018 hækka laun um 1,26%, um 1% frá febrúar 2019 sem eru almennar launahækkanir og 1,2% frá október 2018 skv. launaviðtölum milli atvinnurekanda og starfsmanns. Síðar verður rætt um hækkanir á þriðja ári samningstímans.

Search