skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Danir semja

Danir semja

Viðskiptafréttir Berlingske/Michael Korsgaard Nielsen/ 20. apríl 2017

T.f.v. Formaður LO, Lizette Risgaard, Ole Hasselgaard, ríkissáttasemjari og Jacob Holbraad, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnurekanda í Danmörku (DA) kynna niðurstöður atkvæðagreiðslu um kjarasamningana þann 20. apríl 2017 í húsnæði sáttasemjara. Ljósmynd: Jens Astrup.

Samtök atvinnurekanda í Danmörku (DA) og danska starfsgreinasambandið (LO) hafa komist að samkomulagi um nýjan heildarkjarasamning fyrir um hálfa milljón launþega sem vinna í einkageiranum. Launahækkunin nemur sjö prósentum yfir næstu þrjú ár. 57,2% af félagsmönnum greiddu atkvæði með samningnum.

Eitt af þeim atriðum í nýju kjarasamningunum sem nokkur aðildarfélög LO áttu erfitt með að sætta sig við er ákvæðið um rýmri vinnuviku. Vinnuveitandi getur með litlum fyrirvara farið fram á fimm yfirvinnutíma á viku, þannig að vinnuvikan telji 42 tíma. Þó er kveðið á um að meðal vinnuvikan á ársgrundvelli verði áfram 37 klukkustundir.

Á hádegi þann 20. apríl stigu forstjóri DA, Jacob Holbraad og formaður LO, Lizette Risgaard út úr húsakynnum danska ríkissáttasemjarans í Kaupmannahöfn og tilkynntu að samkomulag hefði náðst. Menn höfðu beðið með mikilli eftirvæntingu eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu um samninginn þar sem nokkur stéttarfélög innan LO höfðu ráðlagt félögum sínum að greiða atkvæði gegn honum. Niðurstaðan reyndist sú að 57,2% félagsmanna samþykktu hann, og með því var miklum átökum afstýrt. Kjarasamningurinn nær til þriggja ára og þess er vænst að laun hækki um u.þ.b. sjö prósent á þeim tíma. Í honum felast einnig ýmsar kjarabætur fyrir foreldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

„Það er afar ánægjulegt að samkomulag hafi náðst. Aðilar vinnumarkaðarins hafa þar með enn einu sinni tekið á sig ábyrgð til að tryggja virkt vinnuafl til hagsbóta fyrir Danmörku og dönsku þjóðina,“ segir Jacob Holbraad í fréttatilkynningu.

Helstu atriði nýja heildarsamningsins sem nær til um 600.000 félagsmanna eru þessi:

  • Kjarasamningarnir gilda næstu þrjú ár.
  • Flestir þeirra kveða á um sjö prósenta launahækkun á tímabilinu. Að sögn LO samsvarar það um tveggja prósenta raunhækkun miðað við verðbólguspár.
  • Meiri sveigjanleiki. Svonefnt „fritvalsordning“ (fyrirkomulag um sparnað sem launþegi ræður hvernig hann notar) tvöfaldast og fer úr tveimur í fjögur prósent af launum. Sparnaðinn má t.d. nota í barnaumönnunardaga, frídaga fyrir eldri starfsmenn eða í viðbótarlífeyrissparnað.
  • Full laun í fæðingarorlofi fyrir starfsmenn með a.m.k. níu mánaða starfsaldur.
  • Aukið svigrúm fyrir atvinnurekanda til að boða yfirvinnu allt að fimm klst. á viku.

Samtök iðnaðarins í Danmörku (DI) lýstu yfir ánægju sinni með samninginn:

„Við höfum sem vinnuveitendur og launþegar náð góðu samkomulagi sem felur í sér skýrar  kjarabætur fyrir danska launþega með sögulega aukningu varðandi möguleika til menntunar og góða kosti fyrir bæði eldra fólk og barnafjölskyldur. Samkomulagið styrkir líka stöðu danskra fyrirtækja á samkeppnismarkaði við útlönd og hjálpar okkur að fá fleiri vörupantanir og ný störf hingað heim. Það er gott fyrir dönsk fyrirtæki, Danmörku og hinn almenna Dana,“ segir Karsten Dybvad, framkvæmdastjóri DI.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu hinna ýmsu stéttarfélaga endurspegluðu þessa ánægju, þar sem 57,2% greiddu atkvæði með samningnum. Hjá samtökum málmiðnaðarmanna greiddu 71,2% atkvæði með honum, 86,2% félaga FOA (samtök starfsfólks í félagsþjónustu, leikskólum o.fl.) samþykktu hann og 85,6% félaga í HK Privat (félagi verslunarmanna).

Þó voru margir sem höfnuðu samningnum, t.d. samtök starfsfólks í matvælaiðnaði (NNF), þar sem einungis 12% félaga samþykktu hann, og 59,9 meðlimir stærsta stéttarfélagsins innan LO, 3F, hafnaði honum.

Search